Lokaði sig inni í sex daga

Síðasta vetur skaut hann foreldrum sínum og öðrum skelk í …
Síðasta vetur skaut hann foreldrum sínum og öðrum skelk í bringu þegar hann lokaði sig inni í herberginu sín í sex daga. mbl.is/Kristinn

„Ég á þrjú yndisleg börn. Þau eru hæfileikarík, góðhjörtuð og hugmyndarík og þau eru öll geðsjúk.“ Þetta segir Aðalheiður Bjarnadóttir, móðir þriggja barna á aldrinum 16-31 árs sem öll hafa verið greind með geðraskanir. 

Tvö þeirra eldri hafa lokið námi, komið undir sig fótunum og eru á vinnumarkaði. Veikindin há þeim þó alltaf, en mismikið. Yngsta barnið, 16 ára drengur, er blíður og góður, kurteis og listfengur og langar til að verða rithöfundur. Hann er líka þunglyndur, kvíðinn, tekur skapofsaköst og er á einhverfurófi. Aðalheiður bíður núna eftir að hann fái viðunandi aðstoð.

„Það var líklega þegar hann var eins og hálfs árs, að ég sá að eitthvað var ekki í lagi. Hann tók skapofsaköst og þegar hann byrjaði á leikskóla hafði hann mikla þörf fyrir einhvers konar reglu. T.d. varð hann að fara fyrst í vinstri sokkinn og gat misst algerlega stjórn á sér ef það var ekki farið eftir þeim reglum sem hann bjó sjálfur til. Vandinn var að hann bjó til nýja reglu á hverjum degi þannig að það fór allt í háaloft á hverjum einasta degi. Það gat tekið mig þrjá tíma, frá því hann vaknaði á morgnana, að koma honum út úr húsi. Svo grét hann einn til tvo tíma eftir að hann var kominn í leikskólann.“

Í læknisskoðun sem drengurinn fór í fimm ára gamall sá læknir ýmis einkenni sem hann taldi ástæðu til að yrðu skoðuð nánar og í kjölfarið fór drengurinn í greiningu sem lítið kom út úr annað en að hann fékk ávísað lyf sem átti að hjálpa honum að ná jafnvægi. „Mér fannst ég þá eignast nýtt barn, hann var miklu stöðugri í hegðun og vandinn varð minni,“ segir Aðalheiður.

Auðvelt skotmark eineltis

Eftir að skólagangan hófst jókst vanlíðan hans aftur. Aðalheiður segir að hinir krakkarnir hafi skynjað að hann var „öðruvísi“ og hann varð fljótlega auðvelt skotmark eineltis. Stríðni, ofbeldi og útilokun var daglegt brauð og hann missti ítrekað stjórn á sér í skólanum. Aðeins dró úr eineltinu þegar hann skipti um skóla þar sem Aðalheiður segir að hafi verið tekið öðruvísi á málum.

Þegar drengurinn var 11 ára fór hann í grunngreiningu hjá skólasálfræðingi, í framhaldinu var sótt um ítarlegri greiningu en þeirri beiðni var synjað. „Mér var sagt að þetta myndi örugglega eldast af honum. Mér þótti það ólíklegt og fór þá með hann til sálfræðings á einkastofu til greiningar. Niðurstaðan var að hann var með Asperger, en sú greining hefur ekki verið viðurkennd af kerfinu,“ segir Aðalheiður.

Í fyrra, þegar drengurinn var 15 ára, var hann síðan greindur með ódæmigerða einhverfu, þunglyndi og kvíða og segir Aðalheiður greininguna hafa breytt miklu varðandi aðstoð fyrir hann.

Eftir að grunnskóla lauk hóf pilturinn nám í framhaldsskóla, en hætti því fljótlega. Síðan þá er liðið eitt ár og á þeim tíma hefur hann „ekkert gert“ eins og Aðalheiður kemst að orði. Hann ver nánast öllum sólarhringnum inni í herberginu sínu, fer lítið út og er vinafár.

Þurftu að taka rúðu úr glugga

Síðasta vetur skaut hann foreldrum sínum og öðrum skelk í bringu þegar hann lokaði sig inni í herberginu sínu, dró húsgögn fyrir hurðina svo að enginn kæmist inn og var þar í sex daga uns faðir hans braust inn utan frá með því að taka rúðu úr glugga. „Við vissum að það væri allt í lagi með hann, annars hefðum við auðvitað farið inn til hans fyrr,“ segir Aðalheiður. 

„Hann var á ferli í húsinu þegar við vorum úti eða þegar hann hélt að við værum sofandi og við lögðum fyrir hann mat, þannig að við vissum að hann væri að nærast, en alltof lítið. Annars var hann innilokaður og lagði ýmislegt á sig. T.d. komumst við að því seinna að hann hafði fundið leið til að þurfa ekki að koma fram á klósettið.“

Greinina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag. 

Umfjöllunin er hluti af greinaflokki um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga á Íslandi sem birtur hefur verið í Morgunblaðinu síðustu daga. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert