Segja fangelsin hafa gleymst

Einangrunarklefi á Litla Hrauni.
Einangrunarklefi á Litla Hrauni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fangaverðir segja að endastöðin í dómskerfinu gleymist, sjálf fangelsin. Að óbreyttu geti fangaverðir ekki sinnt þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra með lögum um fangelsi og fangelsisvist. Fangelsin hafi verið yfirfull í of langan tíma. 

Starfsmannafundur fangavarða á Litla-Hrauni og Sogni var haldinn að Litla-Hrauni í gær, fimmtudag. Sendu fangaverðir frá sér tilkynningu í kjölfarið.

Þar taka þeir einnig fram að þeir eru félagar í SFR og hafa verið samningslausir í fimm mánuði. Þeir hafa ekki verkfallsrétt frekar en lögregla.

Kalla fangaverðir eftir skilningi frá Alþingi og mótmæla niðurskurði/aðhaldskröfu í málaflokkunum enn eitt árið. Þá kalla þeir eftir úrræðum fyir geðsjúka fanga sem vistaðir eru á Litla-Hrauni. 

Tilkynningin í heild sinni

Fangaverðir mótmæla harðlega niðurskurði /aðhaldskröfu í málaflokknum enn eitt árið. Fyrir árið 2008 hafði rekstur fangelsiskerfisins verið  mjög viðkvæmur og erfiður vegna of lágra fjárframlaga um margra ára skeið. Síðan 2008 hefur rekstarfé til starfseminnar verið skorið niður um 25%, en verkefnum Fangelsismálastofnunar hefur engu að síður fjölgað. 

Fangaverðir hafa því tekið á sig niðurskurð og aukin verkefni  í rekstri  sem þá þegar árið 2008 var rekinn á of litlu rekstarfé og með miklu aðhaldi. Samkvæmt fjárlögum 2015 verður um 15 miljarða króna afgangur, verulegt fjármagn á að fara í nýtt millidómsstig  en algjörlega gleymist að gera ráð fyrir endastöðinni sem eru fangelsin.

Nú er mál að linni, fangaverðir geta ekki að óbreyttu sinnt þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra með lögum um fangelsi og fangavist.  Um 450 manns bíða afplánunar og fangelsin hafa verið yfirfull í alltof langan tíma með gríðarlegu álagi sem því fylgir sem bitnar á föngum, aðstandendum og starfsmönnum.

Við köllum eftir skilningi frá Alþingi um að kerfið og starfsmenns þess þola ekki meiri niðurskurð /aðhaldskröfur heldur þarf aukið rekstarfé svo hægt sé að uppfylla þau markmið  sem Alþingi hefur sett fangavörðum m.t.t. betrunar og öryggis.  Við köllum ennfremur eftir úrræðum fyrir geðsjúka fanga sem vistaðir eru á Litla-Hrauni og að þeim málum verði komið í lag svo að sómi sé að.

Að endingu minna fangaverðir á að þeir eru félagar í SFR og hafa verið samningslausir í 5 mánuði.  Fangaverðir hafa ekki verkfallsrétt frekar en lögreglan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert