Óhrekjanlegar heimildir fyrir illri meðferð á dýrum

Þrengir að svínum í búum.
Þrengir að svínum í búum. Bændablaðið

 Vegan samtökin fordæma harðlega þær aðstæður sem svín búa við hérlendis í yfirlýsingu frá samtökunum. Í yfirlýsingunni, sem gefin er út í tilefni umræðu um meðferð svína á íslenskum svínabúum, harma samtökin meðferðina á dýrunum.

„Ill meðferð á dýrum er þekkt í öllum greinum verksmiðjubúskapar jafnt hér á landi sem og erlendis og liggja fyrir því margvíslegar óhrekjanlegar heimildir. Mikil barátta er háð um allan heim af vegan fólki til að leggja verksmiðjubú niður fyrir fullt og allt,“ segir í tilkynningunni.

Vegan samtökin undirstrika að þau telji öll dýr eiga rétt á góðu og frjálsu lífi þar sem þau fái sínum náttúrulegu þörfum fullnægt við góð og eðlileg lífsskilyrði en að það sé algjörlega útilokað í verksmiðjubúskap.
„Þær aðstæður sem dýrunum í þessu tilfelli svínum er haldið við, brýtur algjörlega í bága við allt sem kalla má eðlileg lífsskilyrði.“

Samtökin telja dýr vera meðvitaðar tilfinningaverur sem geta þjáðst og glaðst eins og menn. Þau elski afkvæmi sín, dreymi, hugsi, skipuleggi og sýni kærleika eins og menn.

„Þetta er vísindalega sannað en Vegan samtökin leggja fyrst og fremst siðferðið til grundvallar. Menn hafa engan rétt til að nota dýr og drepa eins og tíðkast hefur um aldir en u.þ.b. 190 biljónir dýra eru drepin á hverju ári. Tími dýranna er kominn að okkar mati.“

Eitt aðal markmið samtakanna er að kynna vegan lífsstíl sem gengur út á að forðast algjörlega að nota dýraafurðir í mat, fatnað, á heimili eða almennt í lífinu. Vegan samtökin segja vegan lífsstíl er bæði mögulegan og æskilegan og stundaðan af milljónum manna um allan heim. Segja þau sannað að vegan fæði hafi mikinn heilsufarslegan ávinning og að verksmiðjubúskapur heims valdi stórum hluta mengunar lofthjúpsins.

„Vegan samtökin fordæma harðlega þær aðstæður sem svín búa við hérlendis og beina því til hagsmunaaðila að þeir geri sér grein fyrir því að þeir svipta dýrin öllum eðlislægum þörfum þeirra og þar með öllu eðlilegu lífi. Verksmiðjubúskapur er engu dýri bjóðandi, sem kallar á aðgerðir umsvifalaust og af festu því þjáning þessara einstaklinga er með öllu ólýsanleg. Samtökin beina því einnig til neytenda að þeir skoði ábyrgð sína í þessum málum, hvað þeir styðja með vali sínu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert