Nýbygging eini raunhæfi kosturinn

Skýrslan afhent. Frá vinstri: Bjarni S. Jónasson, Sveinn Magnússon, Kristján …
Skýrslan afhent. Frá vinstri: Bjarni S. Jónasson, Sveinn Magnússon, Kristján Þór Júlíusson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Hildigunnur Svavarsdóttir, Sigurður E. Sigurðsson og Eiríkur Björn Björgvinsson.

Vinnuhópur um uppbyggingu legudeilda við Sjúkrahúsið á Akureyri telur að nýbygging sé eini raunhæfi kosturinn til að leysa þann vanda sem við blasir í húsnæðismálum sjúkrahússins. Byggja þurfi þriggja hæða hús, alls um 8.500 m2  og er kostnaður gróflega metinn um 5 milljarðar króna.

Þetta kom fram á fundi sem haldinn var í Hlíðarbæ í gær en þar var Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra afhent skýrsla vinnuhópsins og efni hennar kynnt.

Fram kemur í tilkynningu, að heilbrigðisráðherra hafi skipað vinnuhópinn þann 20. nóvember sl. til að „endurskoða og uppfæra tillögur þær sem lagðar voru fram árin 2003 og 2004 um skipulag og uppbyggingu Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (nú SAk) og koma með eigin tillögur að verkefninu,“ eins og segir í skipunarbréfi hópsins. Skýrslan sem kynnt var í gær ber yfirskriftina: Sjúkrahúsið á Akureyri – Frumathugun vegna byggingar legudeilda.

Skýrslu vinnuhópsins má sjá í heild sinni á heimasíðu Sjúkrahússins á Akureyri, www.sak.is 

Aðstaða á legudeild geðdeilda óviðunandi

Í skýrslunni kemur fram að legudeildir Sjúkrahússins á Akureyri fullnægi ekki kröfum nútímans og núverandi húsnæði gefi ekki möguleika á nauðsynlegum úrbótum. Hið sama eigi við um sumar stoðdeildir spítalans. Vísað er til úttektar Embættis landlæknis frá desember 2012 þar sem m.a. segir: „Aðstaðan á legudeild geðdeildar er óviðunandi og óforsvaranleg til lengri tíma litið“. Því megi vera ljóst að aðgerða sé þörf, að því er fram kemur í tilkynningu.

Rýmisþörf legudeilda var skoðuð og áætluð út frá ýmsum forsendum m.a. fjölgun í hópi aldraðra og væntrar breytingar á legudögum eftir aldurshópum í mannfjöldaspám.

Kristján Þór veitti skýrslu vinnuhópsins viðtöku. Hann þakkaði hópnum skjót og góð vinnubrögð og sagði það „löngu orðið tímabært að við setjum okkur viðmið um hvernig við höldum áfram að byggja upp þetta móðursjúkrahús utan höfuðborgarsvæðisins.“

Hann sagði að nú yrði farið í að meta tillögur hópsins og í framhaldinu að leita leiða til að fjármagna næstu skref í þessu brýna en viðamikla verkefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert