„Það er engin heilsa án geðheilsu“

Boðið er upp á skemmtidagskrá og kynningar á úrræðum í …
Boðið er upp á skemmtidagskrá og kynningar á úrræðum í Kringlunni í dag.

Í ár eru 20 ár síðan Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur hér á landi að frumkvæði Ingibjargar Pálmadóttur, þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Af þessu tilefni var hún sérstakur hátíðargestur við setningu dagsins ár, sem fór fram í anddyri útvarpshússins við Efstaleiti fyrr í dag.

Í kjölfar opnunarinnar var farið í stutta heilsubótargöngu niður í Kringlu, þar sem boðið er upp á skemmtidagskrá og kynningar á úrræðum. Frekari upplýsingar um dagskrána og annað sem tengist deginum er að finna á heimasíðu dagsins.

Þema dagsins í ár snýst um virðingu og geðheilbrigði, en dagurinn er að þessu sinni haldinn undir kjörorðinu „Virðing í verki“. Er þar sérstaklega vísað til tveggja þátta sem þurfi hvað helst á upplýstri og vandaðri umræðu að halda, samkvæmt tilkynningu frá aðstandendum dagsins.

„Annars vegar virðing fyrir stöðu og réttindum jaðarhópa og hinsvegar aukna meðvitund um hve þungt andlegi þátturinn vegur þegar kemur að almennri heilsu, þá staðreynd að það er engin heilsa án geðheilsu. Við hvetjum alla, jafnt sérfræðinga, þjónustunotendur, aðstandendur sem og almenning, til að taka þátt í umræðunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert