Þorði ekki að horfa niður

Ása er lofthrædd en lét slag standa og kleif fjallið …
Ása er lofthrædd en lét slag standa og kleif fjallið Huashan í Kína sem er 2.100 metra hátt.

„Ég ætlaði ekki að þora þetta en Andri hvatti mig áfram. Ég er mjög lofthrædd að eðlisfari og þorði því ekki að horfa mikið niður,“ segir Ása Steinarsdóttir sem kleif nýverið fjallið Huashan í Kína ásamt kærasta sínum, Andra Wilberg Orrasyni. Huashan, sem er 2.100 metra hátt, er þekkt fyrir eina hættulegustu gönguleið heims, en stígarnir eru þröngir og þverhípt niður. Áður fyrr var talið að um hundrað manns létust í fjallinu á hverju ári. Fjallið er eitt af fimm heilögum fjöllum Kína og víða á því má finna musteri sem tilheyra kínverskri þjóðtrú (taóismi). Gangan hefur því trúarlega merkingu fyrir marga.

Á köflum er gönguleiðin afar háskaleg þar sem grannir tréplankar eru festir við bergið með nöglum, sem eru sumstaðar vel ryðgaðir, að sögn Ásu. Öryggisbúnaði með línum hefur nýlega verið komið fyrir þar sem fjallgöngugarpar geta fest sig við línu.

Ekki fyrir lofthrædda

Ása og Andri lögðu af stað í fjallgönguna að nóttu til og voru komin upp á toppinn við sólarupprás. „Þetta er ekki fyrir lofthrædda,“ segir Ása. Hún þorði varla að horfa niður en Andra fannst þetta bara gaman. Þau sögðust bæði hafa verið ánægð með gönguna, sem var nokkuð strembin, en veðrið var einstaklega gott þennan dag.

Parið hefur flakkað um heiminn frá byrjun árs. Í mars, þegar Morgunblaðið hafði síðast samband við þau, voru þau nýkomin frá Íran og höfðu ferðast víða um Mið-Austurlönd. Síðan þá hafa m.a. Indland, Srí Lanka, Kína, Japan og Mongólía bæst við. „Það var mjög gaman í Mongólíu og fróðlegt að sjá hversu frumstætt landið er. Lítið er um vestræn áhrif og margir ferðast enn að mestu um á hestum, ekki ósvipað og á Íslandi fyrir 150 árum,“ segir Andri.

Andri naut fjallgöngunnar og leit iðulega niður.
Andri naut fjallgöngunnar og leit iðulega niður.

Norður-Kórea næst

Ferðalagið hefur gengið mjög vel, að þeirra sögn. Þau voru í litlum bæ við landamæri Kína og Norður-Kóreu þegar haft var samband við þau. Í dag eru þau í Norður-Kóreu þar sem þau dvelja í þrjá daga, en þangað komast þau ekki án þess að hafa leiðsögumann með sér. Á þessum þremur dögum verða þau vitni að 70 ára afmæli kóreska verkalýðsflokksins. „Þetta er einn af fáum dögum sem Norður-Kóreubúar geta dansað að vild úti á götum höfuðborgarinnar, Pyongyang,“ segir Andri. Næstu áfangastaðir eru m.a. Filippseyjar og Nepal, en þau stefna á að enda aftur í Mið-Austurlöndum. Þau ætla ekki að koma heim fyrr en snemma á næsta ári eða þegar „fjármagnið klárast“.

Hægt er fylgjast með þeim á ferðabloggsíðunni:fromicetospice.com.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert