Þá vissi maður að hann væri dáinn

Bjarni Ólafur Eiríksson.
Bjarni Ólafur Eiríksson. mbl.is/Golli

Áföllin dundu yfir Stabæk hvert á fætur öðru árið 2012. Skærustu stjörnur liðsins héldu á önnur mið fyrir tímabilið vegna fjárhagslegra erfiðleika félagsins og þeim unga leikmannahópi sem eftir var gekk erfiðlega að stilla saman strengi. Hinn 12. maí varð félagið síðan miðpunktur knattspyrnuheimsins um stundarsakir þegar tilkynnt var að Tor Marius Gromstad, varnarmaður liðsins, hefði látið lífið.

Bjarni Ólafur Eiríksson, leikmaður Vals, var í herbúðum Stabæk á þeim tíma. Hann og Tor Marius voru orðnir góðir vinir og eyddu þeir félagar áramótunum saman á Íslandi aðeins fjórum mánuðum fyrir andlát Norðmannsins. „Við áttum vel saman. Ég kunni strax mjög vel við hann þegar ég gekk í raðir Stabæk 2010. Hann var pottþéttur, almennilegur og alltaf tilbúinn að bjóða fram hjálp sína,“ útskýrir Bjarni Ólafur.

Hvorki Bjarni Ólafur né aðrir liðsfélagar hans urðu varir við þá andlegu erfiðleika sem Tor Marius glímdi við. Nokkrum dögum fyrir áfallið átti Stabæk bikarleik og heyrði Bjarni Ólafur útundan sér að tvísýnt væri með þátttöku Tor Marius í þeim leik.

„Ég gerði ráð fyrir að það væri vegna meiðsla,“ segir Bjarni Ólafur. „Hann hafði glímt við mjög erfið meiðsli í langan tíma. Hann byrjaði leikinn en bað um skiptingu eftir korter. Líklegast hefur hann áttað sig á því að hann var ekki í neinu andlegu standi til þess að spila.“

Týndist um nótt

Helgina eftir var deildarleikur gegn Molde. Tor Marius var hvergi sjáanlegur á leikdag og töldu liðsfélagar hans meiðslin ástæðu þess. Það vakti því óhug manna þegar leikmannahópurinn var kallaður saman að leik loknum og tilkynnt var að Tor Marius væri týndur. „Það vissi enginn hvar hann var,“ segir Bjarni Ólafur. „Á þessum tímapunkti var okkur tilkynnt hvað hafi verið í gangi hjá Tor Marius. Hann hafði leitað til læknis liðsins vegna vanlíðanar sinnar og sagt að hann fyndi fyrir miklu þunglyndi og kvíða og ætti þess utan erfitt með svefn. Ástæða þess var sú að hann hafi ætlað sér gríðarlega stóra hluti á þessu keppnistímabili sem virtust ekki ætla að ganga eftir. Hann ætlaði að bera mikla ábyrgð og vera leiðtogi á vellinum. Þær væntingar stóðust því miður ekki. Tor Marius tók þetta gríðarlega inn á sig og kenndi sjálfum sér um gengi liðsins. Læknir liðsins taldi ekki ráðlegt að hann væri einn þar sem hann var mjög langt niðri.“

Læknirinn lagði því til að fjölskyldan, sem býr töluvert langt í burtu, myndi heimsækja hann. „Fjölskyldan gerði það. Foreldrar hans gistu á hóteli skammt frá heimili hans á meðan bróðir hans gisti heima hjá honum. Bróðirinn átti að vera honum innan handar. Aðfaranótt sunnudags vakti hann yfir Tor Marius þangað til hann sofnaði. Það var klukkan fimm um nótt. Þá fór bróðirinn að sofa og klukkan sjö rumskaði hann. Þá var Tor Marius ekki í rúminu sínu. Hann var horfinn. Í kjölfarið hófst leitin að honum.“

Tor Marius Gromstad var aðeins 22 ára þegar hann lést …
Tor Marius Gromstad var aðeins 22 ára þegar hann lést árið 2012.

Lést samstundis eftir fall úr krana

Hvarfi Tor Marius voru gerð skil í fjölmiðlum og allir lögðust á eitt til að finna hann. Leikmenn og stuðningsmenn félagsins tóku þátt í leitinni en hún bar engan árangur til að byrja með. Það var síðan daginn eftir að leikmenn félagsins voru boðaðir á fund á æfingasvæði þess. Bjarni Ólafur segist strax hafa verið hræddur um að eitthvað alvarlegt hefði gerst. Þær áhyggjur voru staðfestar þegar hann sá prest sem var mættur á æfingasvæðið.

„Þá vissi maður að hann væri dáinn. Hann hafði fundist um morguninn þegar iðnaðarmenn komu til vinnu á lokað byggingasvæði. Það leit út eins og hann hefði fallið úr byggingarkrana og dáið samstundis. Enginn veit fyrir víst hvort hann hafi látist af slysförum eða fyrirfarið sér. Það voru fagaðilar fengnir upp á æfingasvæði til þess að veita áfallahjálp. Leikmennirnir voru í miklu áfalli og helst þeir strákar sem voru í raun uppeldisfélagar hans. Allir grétu og reyndu að hugga hver annan. Það hvíldi mikil sorg yfir öllu hverfinu. Þetta var hræðilegt.“

Veröldin á ekki að hrynja eftir mistök

Bjarni Ólafur átti bágt með að trúa hvað hefði komið fyrir. „Ég var í miklu sjokki fyrst og trúði þessu ekki. Ég trúði ekki að fótboltinn, sem er fyrst og fremst skemmtun, gæti haft svona mikil áhrif á líðan manns. Í kjölfarið kom mikil sorg og reiði út í sjálfan sig. Ég hefði viljað hjálpa honum. Tor Marius var rosalega góður og ljúfur strákur. Það þekkja örugglega allir einstaklinga eins og hann var. Algjört eðalblóð. Engan grunaði að það væri eitthvað alvarlegt í gangi hjá honum. Ekki einn einasta mann.“

Tímabilið hélt áfram. Stabæk féll að lokum úr deildinni og viðurkennir Bjarni Ólafur að liðið hafi einfaldlega ekki verið nógu gott til þess að halda sæti sínu. Oftar en ekki komu upp stundir í leikjum þar sem hann hugsaði til Tor Marius. „Þetta var alltaf að koma upp í huga manns. Ég get ekki neitað því að áfallið hafði áhrif á leik liðsins. Það kom oftar en ekki fyrir að ég hugsaði til hans í miðjum leik. Maður vildi hafa hann hliðina á sér.“

Bjarni Ólafur segist hafa dregið þann lærdóm af þessum sorgaratburði að gleyma því ekki að njóta leiksins og einblína á það jákvæða. „Ég reyni að láta mistök í leikjum ekki hafa áhrif á mig. Þetta er bara leikur og veröldin á ekki að hrynja þótt maður eigi slæman leik eða geri mistök. Maður er í þessu til þess að hafa gaman af.“

Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins um helgina.
Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins um helgina. mbl.is
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert