Leitin að karlmennskutóninum: Sigurvegari skrifar söguna

Halldór Halldórsson þekkja kannski flestir sem rapparann og uppistandarann Dóra …
Halldór Halldórsson þekkja kannski flestir sem rapparann og uppistandarann Dóra DNA mbl.is/Árni Sæberg

Halldór Halldórsson þekkja kannski flestir sem rapparann og uppistandarann Dóra DNA, en hann á sér fleiri hliðar eins og til að mynda þá sem birtist í ljóðabók sem hann sendi frá sér í vor og var gefin út að nýju aukin fyrir stuttu. Bókin, Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir, sem er fyrsta ljóðabók Halldórs, kom út í mjög takmarkaðri útgáfu í vor á vegum Tunglsins forlags, en aðeins voru gefin út af bókinni 69 tölusett eintök. Hún kemur nú út öðru sinni endurbætt og með undirtitilinn Lítil atvik - Mikil eftirmál.

Halldór segir að bókin hafi verið hratt skrifuð, hann hófst handa í byrjun janúar og lauk við verkið í mars, skrifaði ljóð fyrir ljóð þar til komin var bók. Hann segist hafa rennt blint í sjóinn með útgáfuna, en í ljósi þess hve viðtökurnar voru góðar langaði hann til að gefa fleirum kost á að lesa og eins að bæta aðeins við.

„Mér fannst 69 eintök ekki nóg og svo langaði mig til að bæta aðeins við hana. Þeir í Tunglinu hvöttu mig líka áfram og sögðu að Tunglið væri oft nýtt undir tilraunaútgáfu sem kæmi síðar út í stærra upplagi.“

Í nýju útgáfunni eru sex ljóð til viðbótar við þau sem fyrir voru, en Halldór segir að þau hafi ekki verið samin í upphaflegri ljóðsmíðalotu. „Þetta eru hugmyndir sem ég gekk með, hugmyndir og tónn og tilfinning, og ljóðið kemur alltaf mjög auðveldlega hjá mér ef tónninn og tilfinningin er komin og nú eru komnir þeir þrír tónar sem ég átti eftir, sem mig langaði til að bæta við.

Þetta er tónn eins og að senda fólki tóninn og frásögnin liggur svolítið í því að ég man allt í einu eftir því að hafa verið einhversstaðar og man hvernig mér leið: „Djöfull væri ég til í að koma ríðandi aftur á hesti og segja þeim hvað ég hef breyst.“ Það er svolítið tónninn í bókinni, þetta er eins og að skrifa söguna upp á nýtt sem sigurvegari.“

- Hvað varð til þess að þér leið sem sigurvegara í byrjun janúar?

„Maður er bara lentur og á falleg börn og fallega konu og íbúð með parketi sem maður lagði sjálfur og hugsar bara: Nú er ég óstöðvandi og þið sem híuðuð á mig áður fáið nú að finna til tevatnsins. Þetta er samt engin biturðarbiblía, en karlmennska er svo sterkt stef í ljóðunum, órar mínir um karlmennsku á 21. öldinni. Hvernig það er samrýmanlegt að vera karlmenni en jafnframt tilfinningavera, hvernig maður lætur það vega salt í lófanum á sér,“ segir Halldór og þegar ég vitna í fyrsta ljóð bókarinnar, Performans, segir hann að karlmennska sé annaðhvort hallærisleg eins og þar eða ofbeldisfull og röng eins og birtingarmynd hennar var um miðja síðustu öld. „Getum við ekki kallað þetta the rebirth of cool? Eric Clapton á tíunda áratugnum þegar hann er kominn í vestið með skeggið en samt orðinn fullorðinn. Að finna þennan karlmennskutón aftur,“ segir Halldór, þagnar um stund og heldur svo áfram: „En annars á ég í miklum erfiðleikum með að tjá mig um þetta, að setja þetta í samhengi. Þú verður bara að lesa þetta, bókin er skýr og ekki draumkennd þó hún sé kannski martraðarkennd. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en konan mín benti mér á hve hún er ofbeldisfull, það er spenna í henni og ógnin um refsinguna og vöndinn – þetta er innpökkuð reiði guðs og réttlæting á þessu fyrirbæri sem karlmennskan er.“

Eins og fram kemur í upphafi hefur aðalstarf Halldórs verið uppistand síðustu ár og hann segist líka hafa lungann af sínum tekjum af því, en hann vilji ekki daga uppi þar. „Það hefur gefið mér mjög mikið að vera grínisti, sérstaklega síðustu ár, og núna er ég að skrifa leikrit og leika í því hérna á Akureyri, en mig langar til að leggja ritstörf fyrir mig og ætla að taka það mjög alvarlega að skrifa lengri texta. Þessi bók er náttúrlega bara öskur trúðsins í nóttinni að vera tekinn alvarlega, að allt verði ekki afskrifað sem eitthvert grín. Ég var hræddastur við það að þetta yrði afskrifað sem einhver grínbók, en þó það sé vissulega húmor í henni þá er þetta ekki glensbók.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert