Meiri tekjur af „lausaumferð“

mbl.is/Eggert

Þegar rýnt er í tölur Spalar um samsetningu umferðar septembermánaðar í ár og undanfarinna tveggja ára blasir býsna skýrt við að fjölgun erlendra ferðamanna á þjóðvegum landsins skýri að miklu leyti aukna umferð í göngunum núna í september. Þeir eru þannig áberandi fleiri sem keyptu stakar ferðir í göngin en í september 2014 og 2013 og hlutfall tekna af „lausaumferð“ í september var hærra en áður.

Þetta kemur fram í yfirliti Spalar um umferð um Hvalfjarðargöng í september, en metumferð var um göngin í september og meiri en í sama mánuði nokkru sinni áður frá því göngin voru opnuð. Fyrra metið átti september 2007 með hátt í 175 þúsund ökutæki en í september í ár fóru nær 10 þúsund fleiri ökutæki undir Hvalfjörð en þá.

Útlit er nú fyrir að umferðin í göngunum aukist í heild um 4,6% á árinu öllu. Þá er meðtalin umferð þeirra sem óku ókeypis undir fjörðinn á tímum verkfalls. Hlutfall tekna af „lausaumferð“ í september var hærra en áður. Tekjur af staðgreiðslu eða stökum ferðum námu 36,2% í september 2015 en 31,8% í september 2013. Tekjur af fyrirframgreiddum ferðum eða áskrift námu 45,7% árið 2015 en 50,7% í september 2013.

Aukning við efri mörk

Umferðin á hringveginum jókst um 12,2 prósent í september frá sama mánuði í fyrra, samkvæmt því sem fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Umferðin hefur aldrei aukist jafnmikið á milli septembermánaða frá því þessar mælingar hófust árið 2005. Umferðin í ár hefur aukist um 4,7 prósent það sem af er.

Hegði umferðin sér svipað og í meðalári, það sem eftir lifir árs, stefnir í að umferðin aukist um tæp 5%. Gangi þessi spá eftir er ljóst að slík aukning er talin vera við efri mörk þess sem talið er þægilegt miðað við viðhald og uppbyggingu vegakerfisins. Þar eins og víða annars staðar er hæg aukning betri en mjög snögg aukning, segir á vefnum.

Mikil aukning eystra

Milli septembermánaða árin 2014 og 2015 jókst umferðin mest á Austurlandi eða um 30,8% en minnst í grennd við höfuðborgarsvæðið, 8,1%. Frá áramótum hefur umferð einnig aukist mest um Austurland eða 12,4% en minnst í grennd við höfuðborgarsvæðið eða um 3,8%. Ef frá er talið síðasta ár þarf að leita aftur til 2007 til að finna meiri aukningu miðað við árstíma. aij@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert