„Ekki sami klassíski hljómurinn“

Elín segir þakið hafa lekið vatni í fjölda ára.
Elín segir þakið hafa lekið vatni í fjölda ára. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Öll þriðja hæð húsnæðis Veðurstofu Íslands við Bústaðaveg hefur verið rýmd vegna myglusvepps og rakaskemmda. Á hæðinni eru skrifstofur, eftirlitssalur fyrir sólarhringsþjónustu og útsendingarklefinn þar sem veðurfréttir eru lesnar fyrir útvarpið.

Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur á Veðurstofunni segir flutningana ekki hafa átt langan aðdraganda. „Sýni voru tekin í sumar og þau sett í ræktun hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Þegar skýrslan barst okkur til baka á mánudag var strax hafist handa við að skipuleggja flutninga. Við fluttum svo á föstudag,“ segir Elín.

Lekið vatni í fjölda ára

Hún segir þakið hafa lekið vatni í fjölda ára. „Þetta hús er byggt á þannig tíma að þakið er frekar flatt og gjarnt á að leka. Það var svo ekki fyrr en fyrir tveimur árum að komið var að fullu í veg fyrir lekann en áður fyrr vorum við hér oft með fötur á gólfum.“

Á milli þaksins og loftsins á þriðjuhæð er hins vegar nokkurs konar milliloft með rými fyrir leiðslur meðal annars.

„Það var ekki skipt um neitt þar og svo voru tekin sýni þar sem voru sjáanlegar rakaskemmdir. Þá kom þetta í ljós. Okkur hafði þó grunað um nokkurt skeið að það væri ekki allt með felldu hvað varðar loftgæðin á þriðju hæðinni.“

Skjót viðbrögð

Elín segir að viðbrögðin hafi verið skjót um leið og staðfest var að myglusveppur væri í húsinu. „Þetta gekk með ólíkindum vel eftir að þetta komst upp. Bæði Veðurstofan og Fasteignir ríkisins voru fljót að bregðast við.“

Eftir flutningana niður af þriðju hæðinni er töluvert þrengra á þingi fyrir starfsmenn. Um tímabundna ráðstöfun er þó að ræða og er búist við að viðgerðir og hreinsun taki rúmlega þrjár vikur.

Önnur þjónusta ekki hikstað

Færa þurfti útsendingarbúnað sem settur er upp af Ríkisútvarpinu fyrir lestur veðurfrétta. Er útsendingarklefinn jafnan útbúinn eins og önnur hljóðver Útvarpsins. 

„Við þurftum að færa útsendingargræjurnar í venjulegan lítinn fundarsal. Þar glymur mun meira og því er ekki þessi sami klassíski hljómur og hefur verið undanfarin fjörutíu ár. Það er það sem almenningur finnur helst fyrir því önnur þjónusta hefur ekkert hikstað.“

Tóku þið eftir því að hið alræmda hljóð veðurfregna breyttist aðeins á föstudag? Það er vegna þess að við fluttum allan...

Posted by Veðurstofa Íslands on Sunday, October 11, 2015
Myglusveppur fannst á þriðju hæð húsnæðis Veðurstofunnar.
Myglusveppur fannst á þriðju hæð húsnæðis Veðurstofunnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert