Vegagerðin varar við hálkublettum

Frá Öxnadalsheiði. Þar er varað við hálkublettum.
Frá Öxnadalsheiði. Þar er varað við hálkublettum. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Vegagerðin varar við hálkublettum á Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði á Vestfjörðum í tilkynningu. Eins eru hálkublettir á Vatnsskarði og á Öxnadalsheiði.

Vakin er athygli á að hálendisvegir eru ekki í þjónustu á þessum árstíma og færð er ekki  könnuð með reglubundnum hætti. Þó er vitað að færð er þar sumstaðar farin að spillast, einkum norðanlands og er Eyjafjarðarleið lokuð. Einnig geta ýmsar leiðir verið varasamar vegna síbreytilegs vatnsmagns í ám.

Í tilkynningu Vegagerðarinnar kemur einnig fram að brúin yfir Eldvatn við Ása sé enn lokuð vegna skemmda. Einnig er austasti hluti F208 lokaður vegna skemmda út frá Skaftárhlaupi.

Einnig er vakin athygli á því að vegna framkvæmda við hringtorg á Reykjanesbraut er lokað fyrir umferð um Stekk. Umferðarhraði hefur verið lækkaður í 50 km/klst á vinnusvæðinu. Vegfarendum er bent á að nota mislæg gatnamót í Innri-Njarðvík eða hringtorg við Grænás.  Áætlað er að framkvæmdum ljúki í nóvember.

Gera má ráð fyrir smávægilegum umferðartöfum á Reykjanesbraut milli klukkan 8 og 18 í dag vegna vinnu við vegfláa og vegrið á milli Fitja í Njarðvík og Grindavíkurgatnamóta. . Hraði um vinnusvæðið hefur verið lækkaður í 70 km/klst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert