9 milljónir í menntun stúlkna

Íslensk stjórnvöld styðja við bakið á skólagöngu stúlkna í Afganistan
Íslensk stjórnvöld styðja við bakið á skólagöngu stúlkna í Afganistan © UNICEF/AFGA2010-00609/Noorani

Utanríkisráðuneytið, velferðarráðuneytið og forsætisráðuneytið hafa í sameiningu veitt níu milljóna króna framlag til UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í Afganistan fyrir menntun stúlkna.

Framlagið er hluti af verkefni ráðuneytanna þriggja sem hlaut styrk úr framkvæmdasjóði jafnréttismála á síðastliðnu ári og hefur annars vegar að markmiði að styðja menntun og valdeflingu stúlkna og kvenna í Afganistan og hins vegar að kynna stöðu stúlkna í landinu og mikilvægi menntunar fyrir valdeflingu þeirra, samkvæmt tilkynningu frá UNICEF.

„Markmið UNICEF í menntamálum í Afganistan er að veita öllum stúlkum og drengjum á skólaaldri aðgengi að grunnmenntun, einkum þeim sem búa í afskekktustu héruðunum. Starfið snýr einnig að gæðum menntunar og stuðningi við menntayfirvöld auk sérstakra aðgerða til að stuðla að breyttu hugarfari gagnvart menntun stúlkna. Tilgangur verkefnisins sem íslensk stjórnvöld styðja er að auðvelda stúlkum skólagöngu með því að skoða sérstaklega þær hindranir sem á vegi þeirra verða og auka tækifæri þeirra og öryggi.

Frá því að talibönum var steypt af stóli hefur tekist að auka skólasókn barna í Afganistan umtalsvert. Í dag ganga yfir átta milljónir barna í skóla og um 40% þeirra eru stúlkur. Þetta er mikil aukning, en sem dæmi má nefna að árið 2001 gekk aðeins ein milljón barna í skóla. Enn er helmingur allra barna á skólaaldri hvergi skráður í skóla og mikill meirihluti þeirra sem ekki sækja skóla eru börn frá afskekktum fjallasvæðum og stúlkur.

Afar mikilvægt er að vinna í því að uppræta fordóma gagnvart menntun kvenna en í Afganistan er enn mikil andstaða gegn henni og ráðist er á ungar konur á götum úti fyrir það eitt að ganga í skóla. Menntun er árangursrík leið til að draga úr fátækt, stuðla að eflingu samfélaga og jafnframt draga úr misrétti. Stuðningur Íslands við baráttuna fyrir aukinni menntun stúlkna og þeim hindrunum sem þær mæta skiptir því miklu,“ segir í tilkynningu frá UNICEF.

„Við erum mjög þakklát fyrir stuðninginn við þetta mikilvæga verkefni. Það að beina sjónum að tækifærum kvenna til að ganga í skóla og brjóta niður þá múra sem hindra aðgengi þeirra að menntun í dag mun hafa margföldunaráhrif,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, í fréttatilkynningu. Menntaðar stúlkur eru líklegri til að ganga seinna í hjónaband og eignast færri börn sem aftur eru líklegri til að búa við betra heilsufar og ganga menntaveginn. Stúlkur sem hlotið hafa grunnmenntun hafa að sama skapi betri tök á að standa vörð um réttindi sín og hafa áhrif í samfélaginu.

Íslensk stjórnvöld auðvelda stúlkum í Afganistan að komast til náms.
Íslensk stjórnvöld auðvelda stúlkum í Afganistan að komast til náms. © UNICEF/AFGA2012-00087/Froutan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert