„Ég hélt að þeir væru farnir“

Lögreglumenn gáfu köttunum súrefni eftir að þeim var bjargað úr …
Lögreglumenn gáfu köttunum súrefni eftir að þeim var bjargað úr brennandi íbúðinni. Víkurfréttir/Hilmar Bragi

Erla Sigríður Arnardóttir þakkar köttunum sínum þremur að ekki fór verr þegar kviknaði í íbúð hennar á Ásbrú í dag út frá hellu. Erla komst út með níu mánaða gamla dóttur sína, Snædísi Maríu af eigin rammleik. Kettirnir hlutu reykeitrun en eru á batavegi en lögreglumenn gáfu þeim súrefni og hnoðuðu í þá lífi.

Frétt mbl.is: Kettirnir komu íbúum til bjargar

„Ég var að sjóða og fór svo að svæfa stelpuna og steingleymdi pottinum,“ segir Erla um eldsupptökin.

„Ég var búin að vera með hana í svona 45 mínútur inni í herbergi þegar einn kötturinn, Milla, byrjaði að klóra í hurðina og þegar ég opna dyrnar kemur svartur reykur á móti okkur.“

Fyrstu viðbrögð Erlu voru að hlaupa út með dóttur sína, …
Fyrstu viðbrögð Erlu voru að hlaupa út með dóttur sína, Snædísi Maríu.

Erla greip dóttur sína og hljóp með hana út á svalir þar sem hún hringdi í Neyðarlínuna. Hún segist aldrei hafa íhugað það af neinni alvöru áður hvað hún myndi grípa með sér út úr brennandi húsi en að auðvitað væru það fyrst og fremst barnið og dýrin sem skiptu máli. Hún segir það hafa verið mjög erfitt að vita af köttunum ennþá inni.

„Ég greip nágranna sem var að ganga þarna framhjá og bað hann um að taka stelpuna og fara með hana inn í bílinn sinn. Svo er ég að reyna að opna svalahurðina og kalla á þá en þeir komu ekki.“

Kötturinn Felix er fjörgamalt fress.
Kötturinn Felix er fjörgamalt fress.

Fundust lífvana í svefnherberginu

Kettirnir fundust hálflífvana á svefnherbergisgólfi íbúðarinnar og var þeim komið út um glugga svefnherbergisins. Í kjölfarið fengu þeir súrefni og aðhlynningu á dýraspítala en eins og Ólaf­ur Jóns­son, varðstjóri á A-vakt­inni hjá Bruna­vörn­um Suður­nesja, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag voru kettirnir „sótaðir og sýnilega brugðið“.

Frétt mbl.is: „Sótaðir kettir og sýnilega brugðið“

„Ég hélt að þeir væru farnir,“ segir Erla. „Það er mikið gleðiefni að allt hafi farið vel.“

Kettirnir þrír eru allir komnir nokkuð til ára sinna. Felix, sá elsti, er 15 ára, Milla er 11 ára og Hnoðri er tíu ára. Margur hefði talið að svo gamlir kettir væru löngu búnir að spandera sínum níu lífum en ljóst er að allir áttu þeir í það minnsta eitt til góða.

Hér má sjá þegar Felix er komið til bjargar.
Hér má sjá þegar Felix er komið til bjargar. Víkurfréttir/Hilmar Bragi

Erla og  Snædís María, munu dveljast hjá foreldrum Erlu fyrst um sinn á meðan verið er að fara yfir skemmdirnar á hinni íbúðinni en Keilir hefur einnig útvegað þeim aðra íbúð, reynist sú fyrri ekki íbúðarhæf í lengri tíma. Segir Erla að eldhúsinnréttingin sé í það minnsta afar illa farin og að auki séu allur húsbúnaður út ataður í sóti. Mestu skiptir þó að Erla og dóttir hennar sem og loðnu fjölskyldumeðlimirnir þrír er öll heil á húfi.

„Kettirnir sjokkeraðir og þreyttir,“ segir Erla. „En þeir eru allir að braggast og eru komnir heim af dýraspítalanum.“

Hnoðri slapp með skrekkinn eftir að hafa fengið súrefni.
Hnoðri slapp með skrekkinn eftir að hafa fengið súrefni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert