Kennslan ekki metin af nemendunum

Háskóli Íslands fær aðeins 16,2 stig af 100 mögulegum fyrir …
Háskóli Íslands fær aðeins 16,2 stig af 100 mögulegum fyrir kennslu. Morgunblaðið/Ómar

Mat Times Higher Education á kennslu og námsumhverfi í háskólum gefur ekki endilega rétta mynd af því sem nemendunum sjálfum finnst hverju sinni um frammistöðu kennara. Viðhorf starfsmanna háskóla annarra skóla, fjöldi útskrifaðra grunnnema og doktara frá skólanum og laun akademískra starfsmanna við skólann er það sem skiptir mestu máli þegar skólinn er metinn.

Nýlega var greint frá því að Háskóli Íslands væri fimmta árið í röð á matslista Times Higher Educati­on World Uni­versity Rank­ings í 251. – 275. sæti. Matið er fimmþætt og fær skólinn flest stig fyrir gæði og vísindaleg áhrif rannsókna starfsmanna Háskóla Íslands (e. citations), eða 91,4 stig af 100 mögulegum.

Skólinn virðist aftur á móti standa illa að vígi þegar kemur að kennslu og fær aðeins 16,2 stig af 100 mögulegum.

Frétt mbl.is: HÍ áfram í hópi þeirra bestu

Eðlilegt er því að velta fyrir sér hvernig háskóli sem kemst inn á listann nái ekki betri árangri en þetta þegar kemur að kennslu, atriði sem skiptir nemendur miklu máli.

Eiga erfitt uppdráttar í könnuninni

Aðspurður segir Jón Atli Benediktsson, rektor skólans, að helmingur matsins séu niðurstöður úr viðhorfskönnun sem gerð er meðal starfsmanna háskóla víða um heim. Eru þeir beðnir að meta hverjir séu bestu kennsluháskólar í heimi á þeirra sviði. Eins og gefur að skilja er þeim sem svara ekki heimilt að velja sinn eigin skóla.

„Við eigum mjög erfitt uppdráttar í svona viðhorfskönnun. Hún er ekki vegin miðað við fjölda þeirra sem útskrifast frá skólanum, þeir skólar í heiminum sem eru þekktastir ná bestum árangri. „Þá er mjög líklegt að þekktustu skólarnir, sem hafa brautskráð flesta nemendur nái bestum árangri. Það hefur veruleg áhrif,“ segir Jón Atli.

Caltech, eða California Institute of Technology, virðist samkvæmt listanum vera besti kennsluháskóli í heimi með 95,6 stig af 100 mögulegum. Þar á eftir fylgir Stanford háskóli, MIT, Cambrigde,Yale, Oxford og Columbia. Skólarnir eru með 85,9 til 95,6 stig af 100 mögulegum.

Íslensk erfðagreining, Landspítali og Hjartavernd

Hlutfall á milli akademískra starfsmanna og nemenda vegur 4,5%. „Háskóli Íslands er aftarlega á merinni í þeim samanburði, hálfdrættingur miðað við norrænu samanburðarháskólana,“ segir Jón Atli. Hægt væri að ná betri árangri á þessu sviði með því að fjölga akademískum starfsmönnum við skólann og segir rektor það eitt af stefnumálum skólans.

Þá vegur hlutfall á milli  brautskráðra doktora og brautskráðra grunnnema 2,25%. „Þar erum við að ná ágætis árangri og hækkum okkur um 30% á milli ára,“ segir Jón Atli og bætir við að skólinn leggi áherslu á að brautskrá doktora.

Að lokum er einnig litið til hlutfalls á milli brautskráðra doktora og akademískra starfsmanna (6%) og tekjur sem akademískir starfsmenn skólans hafa (2,25%).

Í frétt mbl.is sem birt var fljótlega eftir að niðurstöður lágu fyrir þakkaði Jón Atli góðan ár­ang­ur skól­ans þrot­lausu og metnaðarfullu starfi starfs­fólks og stúd­enta.

„Há­skóli Íslands á enn frem­ur einkar öfl­uga sam­starfsaðila inn­an­lands sem gera hann enn betri, svo sem Land­spít­al­ann, Íslenska erfðagrein­ingu, Hjarta­vernd og Matís. Von­ir standa til að með upp­bygg­ingu Vís­indag­arða Há­skóla Íslands fjölgi öfl­ug­um sam­starfsaðilum enn frek­ar,“ seg­ir Jón Atli.

Ætla má að skólinn eigi starfsfólki þessara stofnana nokkuð að þakka þegar kemur að stigum fyrir gæði og vísindaleg áhrif rannsókna starfsmanna Háskóla Íslands. 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert