Kettirnir komu íbúum til bjargar

Lögreglumenn gáfu köttunum súrefni eftir að þeim var bjargað úr …
Lögreglumenn gáfu köttunum súrefni eftir að þeim var bjargað úr brennandi íbúð Víkurfréttir/Hilmar Bragi

Ekki mátti miklu muna að illa færi í morgun er kviknaði í íbúð á Ásbrú í Reykjanesbæ á tíunda tímanum morgun, að sögn lögreglu voru það kettir sem komu íbúum til bjargar en mæðgur sem voru í íbúðinni komust út heilar á húfi. Þrír kettir þurftu hins vegar á súrefni að halda eftir björgunina, að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum.

Tilkynnt var um eldsvoða í íbúðinni skömmu fyrir klukkan tíu í morgun en þar hafði kona verið að svæfa dóttur sína inni í herbergi og ekki orðið eldsins vör. Þegar hún heyrði kettina krafsa í hurðina á svefnherberginu opnaði hún hurðina til þess að kanna hvað væri að angra kettina og þá mætti henni mikill reykur og eldur.

Þær komust út úr íbúðinni en lögreglan bjargaði þremur köttum út úr íbúinni og varð að gefa þeim súrefni þegar út var komið.

Á vef Víkurfrétta kemur fram að þeir hafi fundist á svefnherbergisgólfi og voru hálf lífvana enda mikill og þykkur svartur reykur um alla íbúð.

„Köttunum var komið út um glugga á svefnherbergi. Í framhaldinu settu lögreglumenn súrefnisgrímur á kettina og nudduðu í þá lífi en kettirnir voru eins og fyrr segir nær líflausir. Húsráðandi fór með einn kött til dýralæknis og lögreglan fór í kjölfarið með tvo til viðbótar á dýraspítalann. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta voru kettirnir að braggast og voru komnir í súrefniskassa en þeir hafa án efa fengið reykeitrun,“ segir í frétt Víkurfrétta.

Lögregla vildi ekki tjá sig um eldsupptök en samkvæmt frétt VF kviknaði í potti á eldavél.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert