Kyn og aldur skipta engu í stangveiði

„Ég hef verið á bökkunum að veiða frá því ég …
„Ég hef verið á bökkunum að veiða frá því ég var bara lítið barn,“ segir Valgerður Ljósmynd úr einkasafni

Valgerður Árnadóttir hefur verið að veiða allt sitt líf og var það augljóst í sjónvarpsþættinum Eart­h’s Wildest Waters – The Big Fish sem frumsýndur var á BBC2 í gærkvöldi. Eins og nafnið gef­ur til kynna snýst þátt­ur­inn um stang­veiðar og var Ísland í aðalhlutverki í þættinum í gærkvöldi. Valgerður var áberandi í þættinum sem dómari en í hverjum þætti dettur út einn stangveiðimaður. Á heimasíðu þáttarins er Valgerði lýst sem „ís­lensk­um sér­fræðingi í veiðum“ og eftir að hafa rætt við Valgerði er blaðamanni mbl.is nokkuð ljóst að það eru engar ýkjur.

Valgerður, sem var aðeins fjögurra ára gömul þegar hún missti sinn fyrsta lax, segir að fjölskylda hennar hafi verið viðriðin stangveiði alla hennar tíð.

 „Ég hef verið á bökkunum að veiða frá því ég var bara lítið barn,“ segir Valgerður og bætir við að hún geti þakkað foreldrum sínum fyrir óþrjótandi áhugann. „Bæði pabba fyrir að smita mig af sínum áhuga, kenna mér og taka mig með frá því nánast áður en ég gat gengið og einnig mömmu því ef ekki væri fyrir að hún fór og hefur verið í öllum ferðum og gert þetta sannarlega að fjölskyldustund veit ég ekki hvort ég hefði verið eins mikið viðriðin sportið alla tíð.“

Skiptu fisknum út fyrir súkkulaði og sultu

Eins og fyrr segir missti Valgerður sinn fyrsta lax þegar hún var um fjögurra ára gömul. „Ég var að vingsa með litla stöng keypta af næstu bensínstöð á meðan ég beið eftir að pabbi kláraði að veiða. Mamma varla trúði sínum eigin augum en ég fékk aðeins að leika við laxinn áður en hann datt af því auðvitað skorti mig líka kraft til að takast á við hann á þeim aldri.“ Valgerður hélt áfram að veiða en hún ólst upp í nálægð við Elliðavatn. „Þar veiddi ég með systur minni þegar ég var svona tíu ára. Á leiðinni heim stoppuðum við svo hjá hjónum sem bjuggu rétt hjá og unnu í Nóa Síríus, þar fengum við að skipta fiskinum fyrir súkkulaði, önnur hjón gáfu okkur sultu í skiptum svo það var nú smá „business“ í gangi,“ segir Valgerður.

Valgerður segir að tökurnar á þáttunum hafi gengið vel og var það fyrst og fremst vegna þess hversu vel það var að öllu staðið og allt vel undirbúið. „Það var tökulið hér á landi sem er einna fremst á sínu sviði í Bretlandi sem taldi á yfir 30 manns og með myndavélar og græjur einsog helst var á kosið. Hver dagur var skipulagður í þaula en dagarnir voru langir en hver öðrum skemmtilegri,“ segir Valgerður.

Ekkert gefið eftir við Þingvallavatn

Hún segir að keppendur þáttarins hafi staðið sig virkilega vel hér á landi, miðað við aðstæður. „Það var gífurlega kalt úti og þeir eru með misjafnan bakgrunn þegar kemur að veiði svo þeir þurftu sumir hverjir að fara virkilega út fyrir sinn þægindaramma. Enda er það ekki fyrir hvern sem er að skella sér á kajak í ískulda inn í Ísafjarðardjúp að veiða en þeir höfðu svo sem ekki mikinn tíma til að hugsa út í það því að þetta er jú keppni svo þau voru fljót að koma sér í gírinn og byrja að koma sér út,“ segir Valgerður og bætir við að það hafi verið kalt og grenjandi rigning þegar hópurinn kom að Þingvallavatni þar sem síðasta þraut þáttarins fer fram.

„Það var ekkert gefið eftir þegar þangað var komið og fluguveiðin hófst. Sumir af keppendunum höfðu lítið sem ekkert veitt á flugu svo það var enginn hægðarleikur og veðrið hjálpaði ekki til. Mér fannst þau standa sig vel, þau voru þakklát að vera með og virkilega skemmtilegt að kynnast þeim sem og öllum sem komu að þáttunum.“

Kyn skiptir engu máli í stangveiði

Valgerður komst í kynni við framleiðendur þáttanna þegar að tökulið frá BBC kom hingað til lands til að skoða tökustaði. Það var skipulagt af Lax-á og var samstarfsfélagi hennar Jóhann Davíð, mjög viðriðinn verkefnið. „Í kjölfarið átti ég svo fund með þeim og var boðið verkefnið að dæma þáttinn,“ segir Valgerður. Hún segist vera gífurlega ánægð og þakklát fyrir það að geta stuðlað að því að sýna unga kynslóð og konur á skjánum um leið. „Það er einmitt það sem stangveiðin er og það sem er heillandi við hana, það geta allir orðið góðir, hvort sem þeir eru kvenkyns eða karlkyns og sama á hvað aldri, það er enginn “prime time” aldur í stangveiðinni.“

Eftir því sem Valgerður varð eldri fór hún að stunda meiri fluguveiði og hefur nú eins og fyrr segir, óþrjótandi laxveiðiáhuga og finnst henni frábært að takast á við allskonar áskoranir tengdar því. Hún vinnur jafnframt hjá fjölskyldufyrirtækinu Lax-á sem foreldrar hennar stofnuðu árið 1987. Meðfram því er hún að skrifa meistararitgerð í lögfræði hjá Háskóla Íslands.

Dýrmætt að sjá “no signal” merkið

Hún segir að stangveiðin eigi stóran hlut í sínu hjarta og að það sé svo ótrúlega margt sem heilli hana við íþróttina.

„Ég er algjört náttúrubarn og líður virkilega vel að eyða miklum tíma utandyra í ferska loftinu. Ég er einnig ótrúlega orkumikil og stangveiði er helst staðurinn þar sem ég get einbeitt mér að einum hlut í einu og slakað á. Þó það hljómi undarlega að slaka á við það að klifra niður klettavegg í leit að stórum laxi og að veiða tólf tíma á dag þá gerir það virkilega mikið fyrir mig og ég kem alveg dauðþreytt og skælbrosandi tilbaka,“ segir hún.

„Í samfélagi í dag þar sem allir eru líka með höfuðið grafið ofan í símann finnst mér svo dýrmætt að geta séð “no signal” merkið á símanum mínum og fengið frið, ég fékk þó fullmikinn frið þegar ég missti símann í ánna í sumar og eyðilagði hann,“ bætir hún við og hlær.

Stangveiðin er endalaus skóli

Hún segir það skipta engu máli í þessu sporti að vera kona. „Karlmenn eru ekkert framar þar sem þetta snýst lítið um líkamlegan kraft og meira um innsæi og tækni. Sem er einnig það sama og að vera ungur, það er ekkert sem segir að eggið geti ekki kennt hænunni eitthvað þegar kemur að stangveiði, það er enginn alvitur og þetta er endalaus skóli. Ef það er eitthvað sem kveikir virkilegan áhuga hjá mér þá er það áskorun sem laxveiðin er svo sannarlega.“

Valgerður segir ungar konur virkilega áberandi í stangveiði í Norður Ameríku. Þar standa þær framarlega og segir hún að ákveðið „æði“ sé í gangi þegar það kemur að kvenmönnum í stangveiði enda séu margar flottar konur sem stunda íþróttina. „ Í Evrópu eru hins vegar ekki margar áberandi en þó nokkrar mjög góðar. Ég er viss um að það kemur til með að breytast áður en líður á löngu.“

Finnur sig virkilega í sjónvarpinu

Eins og fyrr segir var þátturinn frumsýndur í gærkvöldi. Valgerður segist hafa fengið virkilega góð viðbrögð við þættinum, bæði frá fólki sem stundar veiði af kappi og einnig frá þeim sem eru ekki viðriðin veiði. "Það er alveg yndislegt að sjá svona breiðan áhorfendahóp," segir hún.

Valgerður kláraði nám í fjölmiðlatækni fyrir nokkrum árum og kveikti það mikinn áhuga hjá henni á sjónvarpi, helst þá fyrir framan skjáinn en fyrir aftan hann. „Ég er með nokkur skemmtileg verkefni í ofninum núna og eitthvað sem tengist sjónvarpi líka svo það verður vonandi bara meira þar sem það er eitthvað sem ég finn mig virkilega í og vil taka mér fyrir hendur,“ segir Valgerður.

„Engar pissukeppnissögur

Hún segir að veiðiáhuginn hafi færst með árunum frá urriðaveiði og helst yfir í laxveiði. „En ég finn að núna hef ég einnig mun meiri áhuga á að fara út fyrir landsteinana og kanna aðrar tegundir eins og t.d. saltvatnsveiði sem ég hef ekki gert síðan ég var krakki á ferðalagi með fjölskyldunni,“ segir Valgerður. Meðfram námi starfar Valgerður hjá Lax-á við að skipuleggja veiðiferðir og helst þá fyrir erlenda veiðimenn hér á Íslandi og annars staðar í heiminum.

„Ég hef líka verið að skrifa greinar fyrir tímarit bæði í Evrópu og Norður Ameríku og kem til með að halda því áfram og gera meira af því þar sem mér finnst einstaklega skemmtilegt að skrifa. Ég er einnig nýbúin að opna mína eigin heimasíðu þar sem ég ætla að skrifa um veiðisögur, ekki bara mínar upplifanir heldur einnig annarra. Ég elska að vera í kringum fólk og hef verið svo lánsöm að hafa hitt marga allstaðar að þrátt fyrir ungan aldur og heyrt margar góðar sögur. Þær og aðrar langar mig að deila með öðrum veiðimönnum þar sem mér finnst oft virkilega vanta veiðisögur, engar pissukeppnissögur um hver veiddi stærsta fiskinn, heldur bara góðar sögur. Því það er það sem veiði er svo mikið fyrir mér, umgjörðin, náttúran, félagsskapurinn og minningarnar.“

Heimasíða Valgerðar.

Fyrri frétt mbl.is:

Keppast um að veiða á Íslandi

Valgerður ásamt stjórnanda þáttarins Ben Fogle og dómaranum Matt Hayes
Valgerður ásamt stjórnanda þáttarins Ben Fogle og dómaranum Matt Hayes Ljósmynd úr einkasafni
Ljósmynd úr einkasafni
Ljósmynd úr einkasafni
Stangveiðin á stóran hlut í hjarta Valgerðar.
Stangveiðin á stóran hlut í hjarta Valgerðar. Ljósmynd úr einkasafni
Ljósmynd úr einkasafni
Valgerður ræðir við Ben Fogle í þættinum.
Valgerður ræðir við Ben Fogle í þættinum. Skjáskot af Youtube
Ljósmynd úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert