Langflestar kennslustundir falla niður

Frá Háskólatorgi.
Frá Háskólatorgi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Kennsla í öllum byggingum Háskóla Íslands nema í Háskólabíói fellur niður verði af verkfalli félagsmanna SFR á fimmtudaginn. Rektor háskólans, Jón Atli Benediktsson, segir málið alvarlegt.

Ef ekki næst að semja fyrir miðnætti á fimmtudaginn leggja félagsmenn SFR sem vinna hjá Háskóla Íslands niður störf í tvo sólarhringa. Stór hluti þeirra eru umsjónamenn háskólabygginga. Þeir sjá m.a. um að opna byggingar og kennslustofur. Ef stofurnar eru læstar getur kennsla ekki farið þar fram. Næstu fjórar vikurnar hafa verið boðaðar fjórar tveggja sólarhringa vinnustöðvanir og svo mun ótímabundið verkfall hefjast 16. nóvember, náist ekki að semja.

Jón Atli segir það vonbrigði að ekki hafi samist svona stuttu fyrir verkfall. „Við gerum ráð fyrir því að það falli niður kennsla í öllum háskólabyggingum nema Háskólabíói,“ segir hann í samtali við mbl.is. „Það að það sé mögulega að koma til verkfalls hefur veruleg áhrif á skólastarfið, sértaklega þar sem um er að ræða verklega kennslu og stutt námskeið. Þetta hefur áhrif á allt skólastarfið.“

Þá verða hús há­skól­ans sem ekki hafa sjálf­virka ra­f­ræna opn­un ekki opnuð.

Ekki rétt að rektor labbi um og opni stofur

Aðspurður hvort yfirmenn hjá skólanum skoði það að ganga í störf þeirra sem eru í verkfalli og opni stofurnar svarar Jón Atli því neitandi. „Mér finnst þetta ákveðið „prinsipp“-mál. Mér finnst ekki rétt að rektor sé hér að labba á milli og opna stofur. Lykilatriðið hér er að það náist að semja og að störf þessa fólks séu virt. Þetta eru mjög mikilvæg störf og þetta felst ekki bara í því að opna stofurnar heldur líka um að tryggja öryggi. Umsjónamennirnir sjá um bygginguna í heild, öll verðmæti þar inni og tryggja að allt gangi vel.“

Jón Atli segir þó að það starfsfólk sem er með lyklavöld í ákveðnum byggingum og félagar í öðrum stéttarfélögum geti komið og sinnt sínum störfum. Ekki verður þó gengið í störf þeirra sem eru í verkfalli. Jón Atli er ekki með tölur um hversu margir starfsmenn skólans eru félagsmenn SFR.

Hefur veruleg áhrif á kennsluna

Hann segir að eitt svona verkfall muni hafa mikil áhrif á skólastarfið. „Ef þetta heldur áfram mun það hafa veruleg áhrif á kennsluna. Það er mögulega hægt að endurraða á sumum stöðum ef verkfallið er bara tveir dagar þó það sé mjög slæmt. En ef þetta eru 10 kennsludagar er það mjög alvarlegt svo auðvitað ef þetta þróast yfir í ótímabundið allsherjarverkfall þá er þetta orðið mjög slæmt ástand.“

Jón Atli vonar að ekki komi til verkfalls. „Við vonum svo sannarlega að hægt sé að semja sem allra fyrst og að það verði helst ekkert verkfall á fimmtudag.“

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Aðalbygging Háskóla Íslands
Aðalbygging Háskóla Íslands mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert