Mjólkurvörur hafa hækkað alls staðar

Af þeim vörum sem bornar eru saman má sjá einstöku …
Af þeim vörum sem bornar eru saman má sjá einstöku lækkanir en það eru aðallega ávextir og grænmeti sem lækka í verði, en vöruflokkurinn sveiflast árstíðabundið í verði. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Þegar bornar eru saman verðkannanir sem verðlagseftirlit ASÍ framkvæmdi í maí 2015 og nú í september, kemur í ljós að það eru töluverðar hækkanir á næstum öllum vöruflokkum. Af þeim vörum sem bornar eru saman má sjá einstöku lækkanir en það eru aðallega ávextir og grænmeti sem lækka í verði, en vöruflokkurinn sveiflast árstíðabundið í verði, segir í frétt frá ASÍ.

Á þessu fjögurra mánaða tímabili hefur verð hækkað frekar en lækkað á þeim vörum sem til voru í báðum mælingum í flestum verslunum. En í verslunum Iceland og Hagkaupum hefur verð hækkað í um 60% tilvika, hjá Samkaupum-Úrvali, Nettó og Krónunni í um 50% tilvika og hjá Bónus í um 40% tilvika. Í Víði hefur verð hækkað og lækkað næstum jafnoft í samanburðinum og hjá Fjarðarkaupum hefur verð í um þriðjungi tilvika hækkað en oftast er umbeðin vara á sama verði og í seinustu mælingu. Í öllum verslunum er sama verð á milli mælinga á þó nokkrum vörum.

Mjólkurvörur, ostur og viðbit hækkar töluvert í öllum verslunum. En algengast er að sjá um 4% hækkun á tímabilinu. Sem dæmi má nefna að 1 l. Fjörmjólk hefur hækkað um allt að 9%, 250 gr. af ósöltuðu smjöri frá MS hefur hækkað um 9-12% og 500 gr. af hreinu skyri frá KEA hefur hækkað um 2-7%.

Mismiklar hækkanir

Sem dæmi um mismikla hækkun á milli verslana má benda á að flatkökur frá Kökugerð HP Selfossi hafa hækkað um 3-10% í verði, mest hjá Nettó úr 123 kr. í 135 kr. en minnst hjá Samkaupum-Úrvali úr 155 kr. í 159 kr. Hálfur lítri af kók í dós hefur mest hækkað um 7% hjá Nettó og Iceland en minnst um 2% hjá Fjarðarkaupum. 

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Fjarðarkaupum, Samkaupum Úrval, Hagkaupum, Víði og Iceland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert