Saka fjármálaráðherra um lítilsvirðingu

Stjórn Reykjavíkurdeildar Sjúkraliðafélags Íslands „lýsir yfir megnustu hneykslun á þeirri lítilsvirðingu sem sjúkraliðum er sýnd af fjármálaráðherra í kjarabaráttu þeirra.“ Þetta kemur fram í ályktun stjórnarinnar sem samþykkt var í dag. Skilaboðin hafi verið að sjúkraliðar skuli ekki fá sambærilegar kjarabætur og aðrar heilbrigðisstéttir.

„Stjórn Reykjavíkurdeildar harmar að ráðherrann skuli með þessum hætti ætla að auka enn frekar á þann mismun sem verið hefur á þessum stéttum. Ómerkilegar og tilhæfulausar fullyrðingar um að fái sjúkraliðar samskonar kjarabætur og aðrir, þá muni það leiða til óðaverðbólgu og efnahagshruns eru ekki trúverðugar. Stjórn Reykjavíkurdeildar vísar slíkum hrakspám alfarið til föðurhúsanna og minnir á að núverandi ríkisstjórn hefur ítrekað hafnað mögulegum tekjum. Stjórn Reykjavíkurdeildar skorar á stjórnvöld að ganga að réttmætum kröfum félagsins strax.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert