Símkerfið lá niðri í klukkutíma

Heilsugæslustöðin við Efstaleiti er ein þeirra fimmtán sem rekin er …
Heilsugæslustöðin við Efstaleiti er ein þeirra fimmtán sem rekin er af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Símkerfi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins lá niðri í rúman klukkutíma í morgun. Búið er að endurræsa kerfið og virkar það að mestu leyti en þó kemur enn fyrir að viðskiptavinir nái ekki sambandi við heilsugæslustöðvarnar.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins starfrækir fimmtán heilsugæslustöðvar í Reykjavík, Seltjarnarnesi, Mosfellsumdæmi, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði. Þeir sem hafa nýtt sér þjónustu heilsugæslustöðvanna vita eflaust að stundum getur verið erfitt að fá tíma fljótlega og mikið álag er á kerfinu þegar stöðvarnar eru opnaðar kl. 8.

Að sögn Árna Hermannssonar, deildarstjóra rafrænnar þjónustu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, stoppaði símkerfið þegar uppfærslur fóru inn á netþjóninn sem hýsir hluta af kerfinu.

„Síðan stoppaði búnaður sem Vodafone er með sem tengir okkar símkerfi við þeirra kerfi. Þrátt fyrir að hægt hafi verið að koma kerfinu upp aftur eru enn einhver slit sem við vitum ekki af hverju eru,“ segir Árni og bætir við að tæknimenn í Hollandi og hjá Vodafone á Íslandi séu að skoða málið.

Sjálfur hafði Árni ekki heyrt í óánægðum viðskiptavinum í morgun en gerði ráð fyrir að móttökuritarar heilsugæslustöðvanna hefðu rætt við óánægt fólk sem hafði hringt lengi. Vonast hann til þess að hægt verði að lagfæra bilunina eins fljótt og auðið er. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert