„Það eru allir eitt spurningarmerki“

Sjúkraliðar fjölmenntu á baráttufund félaganna þriggja í síðasta mánuði.
Sjúkraliðar fjölmenntu á baráttufund félaganna þriggja í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Næst verður fundað í kjaradeilu SFR- Stéttarfélags í almannaþjónustu, Sjúkraliðafélags Íslands og Lögreglusambands Íslands hjá ríkissáttasemjara á miðvikudaginn. Þá er aðeins tæpur sólarhringur í boðað verkfall SFR og SLFÍ. Síðast var fundað í deilunni á þriðjudaginn.

Að sögn formanns SLFÍ eru félagsmenn reiðir yfir viðbrögðum stjórnvalda. Seinna í dag verður fundað á skrifstofum félagsins vegna stöðunnar. „Við verðum með fund hérna á Grensásveginum við vaktaskipti í dag. Þar munu félagsmenn koma saman og stilla saman strengi sína,“ segir Kristín Guðmundsdóttir, formaður SLFÍ, í samtali við mbl.is.

Hún segir félagsmenn vera hissa yfir viðbrögðum stjórnvalda sem hafa ekki komið með nýtt tilboð í viðræðunum síðan í sumar.

„Fólk er alveg rasandi yfir viðbrögðum ríkisins við stöðu þessara þriggja félaga. Það veltir fyrir sér hvað stjórnvöld ætli sér, því þeir eru þegar búnir að semja við Starfsgreinasambandið á sömu nótum og gerðardómurinn var á. Það eru bara allir eitt spurningarmerki,“ segir Kristín. „Oft og tíðum komast viðræður í svona hörku við það að komast upp fyrir þann ramma sem ríkið setur sér. En núna erum við að berjast við að komast inn í rammann, þannig er staðan.“

Eins og fyrr segir hefst boðað verkfall SFR og SLFÍ eftir aðeins nokkra daga eða 15. október. Það nær til um 4.600 meðlima félaganna tveggja. Ljóst er að áhrifin verði mest á Landspítalanum en þau ná þó til fjölmargra stofnana. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert