Vísindasmiðjan opnar að nýju

Frá opnun Vísindasmiðjunnar.
Frá opnun Vísindasmiðjunnar. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Vísindasmiðja Háskóla Íslands í Háskólabíói var opnuð á ný í dag eftir gagngerar breytingar og stækkun. Fram kemur í fréttatilkynningu frá skólanum að smiðjan hafi notið fádæma vinsælda frá því að hún var sett á laggirnar fyrir þremur árum. Starfsfólk Vísindasmiðjunnar hafi undanfarna mánuði unnið hörðum höndum við að breyta henni.

„Í morgun rann upp langþráð stund þegar tekið var á móti fyrstu gestum haustsins. Vísindasmiðjan er nú komin í stærra rými, ýmis tæki og tól hafa bæst í safnið og stöðvar verið uppfærðar. Þar er nú sérstakt myrkraherbergi útbúið tilraunum sem tengjast allar ljósi. Þá hefur verið sett upp hitamyndavél auk fjölmargra annarra skemmtilegra tækja. Gestir Vísindasmiðjunnar kynnast fjölmörgum vísindagreinum en auk tilrauna í eðlisfræði fá þeir innsýn í heimspeki vísindanna, jarðfræði og stjörnufræði,“ segir ennfremur.

Með stækkun smiðjunnar hafi bæst við fræðsla um vindorku og vindmyllur sem sé nýjung í starfseminni. Þá hafi mögulegum heimsóknardögum verið fjölgað úr þremur í fjóra í viku hverri og smiðjan því opin alla virka daga nema miðvikudaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert