40 konur bíða afplánunar

mbl.is/Brynjar Gauti

„Samtals 40 konur bíða afplánunar fangelsisrefsinga. Af þeim hafa sex ekki verið boðaðar með formlegum hætti, fimm eru í boðun í annað sinn vegna rofs á skilyrðum samfélagsþjónustu og fimm hafa ýmist fengið samþykki fyrir að afplána refsingu í samfélagsþjónustu eða eru með virka umsókn þar að lútandi.“

Þetta segir meðal annars í svari Ólafar Nordal innanríkisráðherra við skriflegri fyrirspurn frá  Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs um fangelsismál kvenna. Spurð hversu lengi megi vænta að biðin eftir afplánun verði segir í svari ráðherrans:

„Ýmsir þættir hafa áhrif á bið eftir afplánun og er ekki ein­göngu skorti á fangelsisrými um að kenna. Þannig getur dómþoli sótt um frestun á afplánun, sótt um náðun eða sótt um að afplána refsingu með samfélagsþjónustu en umsóknir sem þessar lengja allar biðina. [...] Þær konur sem hófu afplánun á sl. tveimur árum þurftu að meðaltali að bíða í tæplega tíu mánuði eftir afplánun frá því að dómur féll þar til afplánun hófst.

Ráðherrann var einnig spurður að því hversu mörgum konum, sem dæmdar hafa verið til fangavistar undanfarin tvö ár, hafi verið synjað um að gegna samfélagsþjónustu í stað afplánunar. Svarið við því er að af þeim 67 konum sem verið dæmdar hafi verið í óskilorðsbundið fangelsi undanfarin tvö ár hafi 13 verið synjað um samfélagsþjónustu á þeim tíma. Spurð hvenær deild fyrir kvenfanga verði tekin í notkun í nýju fangelsi á Hólmsheiði segir í svari Ólafar:

„Í samræmi við áætlanir er má reikna með að fangelsið verði tekið í notkun á vormánuðum 2016 og verður deild fyrir kvenfanga fyrsta deildin sem tekin verður í notkun í nýju fangelsi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert