Skuggasaga – Arftakinn hlýtur Íslensku barnabókaverðlaunin

Ragnheiður Eyjólfsdóttir
Ragnheiður Eyjólfsdóttir mbl.is/Golli

Skuggasaga – Arftakinn hlýtur Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2015. Að mati dómnefndar er þetta metnaðarfull og spennandi saga sem jafnast á við bestu furðusögur sem skrifaðar hafa verið á íslensku.

Ragnheiður Eyjólfsdóttir er arkítekt að mennt. Arftakinn er hennar fyrsta verk en innblástur sækir hún í norrænar sögur og evrópskar sagnir og ævintýri. Hún er þegar komin vel á veg með næstu sögu um Sögu og Baldur.

Verðlaunasjóður íslenskra barnabóka var stofnaður 30. janúar 1985 í tilefni af sjötugsafmæli Ármanns Kr. Einarssonar rithöfundar (1915–1999) og eru nú veitt í 29. sinn. Að sjóðnum standa fjölskylda Ármanns, bókaútgáfan Vaka-Helgafell, nú innan vébanda Forlagsins, IBBY á Íslandi og Barnavinafélagið Sumargjöf. Fulltrúar þessara aðila skipa dómnefnd sem velur úr handritum en einnig eru í henni hverju sinni tveir grunnskólanemar, fulltrúar lesenda. Að þessu sinni komu þeir úr Hagaskóla í Reykjavík og færir verðlaunasjóðurinn þeim og skólanum kærar þakkir fyrir dýrmæta aðstoð. Megintilgangur sjóðsins er að örva fólk til að skrifa fyrir börn og unglinga og stuðla þannig að auknu framboði úrvalslesefnis fyrir æsku landsins. Sjóðurinn efnir árlega til samkeppni um Íslensku barnabókaverðlaunin sem veitt eru fyrir það handrit sem dómnefnd þykir best hverju sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert