Yrði fótbrotinn drengur látinn bíða?

Fótbrotinn drengur kemur inn á bráðamóttöku og þarf á læknishjálp að halda. Yrði honum sagt að koma eftir nokkra mánuði? Líklega ekki, en mörg börn með geðrænan vanda þurfa að bíða lengi eftir læknishjálp. Vakin er athygli á þessu og ýmsu öðru varðandi geðheilbrigðismál barna og unglinga í stuttmyndinni Heilabrot, sem gerð var af ungmennaráði UNICEF og sýnd verður í öllum framhaldsskólum landsins í dag.

Í myndinni, sem sjá má hér að ofan, fer fótbrotinn drengur í gegnum heilbrigðiskerfið eins og um barn með geðröskun væri að ræða og myndin er hluti átaksins Heilabrot þar sem bent er á úrræðaleysi í geðheilbrigðismálum barna og unglinga. Meðal þeirra sem tóku þátt í gerð myndarinnar eru þær Lilja Hrund Lúðvíksdóttir 16 ára og Arna Dís Arnþórsdóttir 18 ára sem eru báðar nemendur í Verslunarskólanum.

„Hugmyndin kviknaði í fyrravetur, þegar við í ungmennaráðinu duttum inn á umræður um geðheilsu unglinga. Þá rann það upp fyrir okkur að við þekktum öll einhvern sem átti við geðröskun að stríða. Þannig fengum við hugmyndina að því að gera mynd um þennan málaflokk. Ég held að besta leiðin til að ná til fólks á okkar aldri sé með stuttmynd,“ segir Lilja.

„Ég held að allir þekki einhvern sem hefur lent í svona. Það er mismunandi hvort fólk vill tala um það eða ekki, þetta getur verið viðkvæmt mál en við erum opin kynslóð og viljum tala um hlutina,“ segir Arna.

Algerlega verk ungs fólks

Allir sem koma að gerð myndarinnar eru á svipuðum aldri og þær stöllur. Hún var framleidd í samstarfi við unga kvíkmyndagerðarmenn, leikararnir eru unglingar og börn og þær Lilja og Arna segja að það hafi skipt miklu máli að myndin væri algerlega verk ungs fólks. „Þarna eru ungmenni að vekja athygli á málefnum ungmenna. Við vorum að hugsa um að fá fullorðið fólk til að vinna myndina. En fullorðnir hugsa öðruvísi og okkur fannst að það væri áhrifameira og málstaðurinn kæmist best til skila ef bara ungmenni kæmu að þessu,“ segir Lilja.

Þær segja að það hafi komið þeim á óvart, þegar þær fóru að kynna sér málin, hver staða málaflokksins er. „Ég vissi ekki að þetta væri svona slæmt. Margir krakkar missa mikið úr lífi sínu vegna þessa,“ segir Arna. „Það væri kannski mikill kostnaður til að byrja með að bæta þjónustuna. En til langs tíma litið væri verið að spara með því að bæta heilbrigðiskerfið. Við uppskerum líka heilbrigðara samfélag.“

Ósvöruð símtöl til ráðherra

Samhliða frumsýningu stuttmyndarinnar í dag hafa stjórnir margra nemendafélaga skipulagt dagskrá þar sem staðan í geðheilbrigðismálum barna og ungmenna á Íslandi er rædd. Stjórnirnar hafa einnig klæðst bolum merktum átakinu, bent á myllumerkin #heilabrot, #égerekkitabú og #viðerumbrjáluð á samfélagsmiðlum og hvatt nemendur til að hringja í númerið 620 9112 og skilja eftir ósvöruð símtöl til heilbrigðisráðherra. „Þetta er meira táknrænt, við erum ekki að fara að hringja í ráðherra. Á málþingi sem við ætlum að halda verður Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra síðan afhentur síminn sem hringt var í og þar getur hann séð fjölda símtalanna. Þetta á að sýna hversu þörfin er mikil og hversu margir krakkar eru að reyna að fá hjálp,“ segir Arna.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert