Maðurinn sem lifir með harminum

Einar Zeppelin Hildarson á málþinginu í dag.
Einar Zeppelin Hildarson á málþinginu í dag. mbl.is/Golli

„Ég hef gengið í gengum ýmislegt þessi tuttugu og fimm ár hérna á jörðinni og fólk sem þekkir mig hefur oft sagt að það sé ótrúlegt, miðað við allt sem ég hef gengið í gegnum, að ég sé þó eins heill og ég er. Og satt best að segja furða ég mig stundum á því sjálfur.“

Þetta sagði Einar Zeppelin Hildarson í erindi sínu Lifað með harminum á málþingi Geðhjálpar, Öðruvísi líf, í dag þar sem áhersla var lögð á upplifun, reynslu og lærdóm aðstandenda geðsjúkra.

Eflaust muna margir eftir morðinu á Hagamel í Vesturbæ Reykjavíkur í byrjun júní árið 2004. Einstæð móðir sem glímdi við geðsjúkdóma stakk bæði börn sín með hnífi að næturlagi með þeim afleiðingum að yngra barnið, Guðný Hödd Hildardóttir, lést af sárum sínum aðeins tólf ára gömul.

Einar náði að flýja frá móður sinni eftir að hún hafði stungið hann margsinnis og gera móður vinar síns viðvart. Móðir systkinanna var úrskurðuð ósakhæf og gert að sæta öryggisgæslu á réttargeðdeildinni að Sogni.

Fyrst um sinn vildi Einar alls ekki hitta móður sína eða hafa nokkur samskipti við hana. Hann vildi myrða hana, hefði hann tækifæri til, þá væri réttlætinu fullnægt. Nú, ellefu árum eftir hörmungarnar á Hagamelnum, er Einar kletturinn í lífi móður sinnar og eiga þau í reglulegum samskiptum. Hann segir afa sinn og ömmu margsinnis hafa bjargað lífi sínu og deildi Einar sögu fjölskyldunnar með gestum málþingsins í dag

Ekki er langt síðan að Einar var næstum látinn skrifa undir pappíra sem hefðu gert það að verkum að hann hefði haft forræði yfir móður sinni vegna veikinda hennar en komið var í veg fyrir það að á elleftu stundu. „Það er alltaf von, lífið er það dýrmætasta sem við eigum og það eina sem við megum ekki gera er að stoppa,“ sagði Einar.

Flúði til Íslands undan heimilisofbeldi

Einar fæddist í Kaupmannahöfn í Danmörku árið 1990 en foreldrar hans bjuggu í Kristjaníu. „Ég man ekkert eftir dvöl minni þar því móðir mín flýr með mig til Íslands þegar ég er rétt eins árs gamall til að losna undan heimilisofbeldi sem faðir minn beitti hana,“ sagði Einar þegar hann hóf erindi sitt á málþinginu.

Þegar mæðginin komu til Íslands fluttu þau til foreldra hennar. Stuttu síðar skildi hún Einar eftir og fór aftur til föður hans í Danmörku. Seinna kom hún aftur, ólétt af systur Einars, Guðnýju Hödd sem fæddist árið 1992. Þá flutti litla fjölskyldan í íbúð á vegum hjálparsamtaka.

„Ég get ekki sagt að ég muni mikið eftir þessum tíma enda enn mjög ungur og þar af leiðandi langar mig að spóla áfram til ársins 1996,“ sagði Einar. „Þó að þetta hafi líklega ekki verið í fyrsta skipti sem fólkið næst okkur varð vart við hversu veik móðir mín var, þá var þetta í fyrsta skipti sem hún sýndi það af alvöru.“

Á þessum tíma höfðu systkinin dvalið um tíma hjá ömmu þeirra og afa. Móðir þeirra hafði beðið foreldra sína um að gæta barnanna þar sem hún væri svo veik að hún svæfi ekki lengur og hefði því ekki andlegt úthald til að sjá um börnin.

Börnunum hlíft við bláköldum sannleikanum

„Að sjálfsögðu tóku afi og amma okkur fagnandi og leyfðu okkur að búa hjá sér, líkt og þau höfðu oft áður gert. Bæði okkur systkinunum og einnig allri litlu fjölskyldunni. Síðan var það einn daginn sem mamma kemur og ætlar að fá að taka mig með sér eitthvað að stússast en amma og afi banna henni það af því að þeim leist ekki á það hvernig hún var stemmd,“ sagði Einar.

Úr varð að Einar varð eftir hjá ömmu og afa en móðir hans fór ein af stað.

„Þó að ég viti ekki hvernig þetta hefði farið ef mamma hefði tekið mig með þá er ég nokkuð viss um að þetta var eitt af skiptunum þar sem amma og afi hafa bjargað lífi mínu. Því seinna þennan sama daga reyndi mamma að drepa sig með því að stökkva fram af bílastæðahúsi á Hverfisgötunni,“ sagði Einar.

Kvaðst hann ekki muna mikið eftir þessu kvöldi en móðir hans hefði sagt honum frá því síðar. Aftur á móti væri honum afar minnisstætt þegar þau systkinin fengu að heimsækja móður sína í fyrsta skipti upp á spítala. Þar lá hún saumuð saman og með járngrind sem hélt mjaðmagrindinni saman. Hún tók börnunum fagnandi og sagði þeim að henni þætti vænt um þau.

„Ég var ekki nema sex ára gamall og litla systir mín ekki orðin fjögurra ára gömul. Þannig að það var ákveðið að hlífa okkur frá bláköldum raunveruleikanum. Okkur var sagt að mamma hefði lent í slysi og þyrfti að vera uppi á spítala til að jafna sig yfir jólin. Þetta eru fyrstu jólin sem ég man almennilega eftir og þau voru vægast sagt skrýtin,“ sagði Einar.

Amma hans og afi voru dugleg að fara með börnin að heimsækja móður þeirra á sjúkrahúsið. Þótti Einari alltaf óþægilegt að fara og sjá móður sína í ástandi sem þessu en aftur á móti fannst honum alltaf gott að hitta hana. Eftir að hún útskrifaðist af spítalanum tók við ströng endurhæfing á Grensás en systkinin bjuggu hjá ömmu og afa á meðan. Þar dvaldi móðir Einars í eitt ár og var aðeins hugað að líkamlegri endurhæfingu hennar.

Guðný Hödd Hildardóttir lést 31. maí árið 2004.
Guðný Hödd Hildardóttir lést 31. maí árið 2004. mbl.is

Faldar myndavélar og hljóðnemar

Að lokum kom að útskrift og flutti litla fjölskyldan í íbúð í Vesturbænum. „Á þessum tíma gerði ég mér litla sem enga grein fyrir veikindum móður minnar enda ekki kominn með andlegan þroska til að skilja svona hluti. Ég man þó eftir því að hún hafði alltaf gífurlegar áhyggjur af því að það væri verið að fylgjast með okkur, trúði því að það væru faldar myndavélar og hljóðnemar inni íbúðinni hjá okkur og við þyrftum alltaf að passa upp á það sem við segðum og gerðum þannig að þeir sem væru að fylgjast með okkur myndu ekki sjá að það væri ekki allt með felldu,“ sagði Einar.

„Sem barn trúir maður því sem manni er sagt og þá sérstaklega því sem foreldrar manns segja manni því maður elst upp við að þau vilji manni allt það besta og þau séu alltaf að passa upp á mann. Á þeim tíma trúði ég að þetta væri allt partur af því,“ sagði Einar einnig.

Móðirin þjáðist af miklum ranghugmyndum sem snerust aðallega um að yfirvald væri að fylgjast með fjölskyldunni og vildi gera allt sem það gæti til að taka börnin frá henni. Seinna taldi hún að hitt og þetta fólk væri að tala við hana og oftar en ekki voru það frægir einstaklingar sem systkinin þekktu úr sjónvarpinu eða jafnvel fjölskyldumeðlimir. Voru skilaboðin oftast á þá leið að systkinin væru svo erfið að þau væru alveg að gera út af við móður sína.

„Þetta fólk var þá hálfpartinn að vara hana við sem hún að sjálfsögðu kom til skila til okkar sem var mjög oft mjög erfitt að heyra,“ sagði Einar.

Móðir hans varð öryrki við slysið og bar Einar töluverða ábyrgð á heimilinu því sökum bæklunarinnar gat hún ekki gert margt sjálf. „Ég held að það hafi hjálpað mér mikið í andlegum þroska þar sem um tíu, ellefu ára aldur, var ég búinn að gera mér grein fyrir því að mikið af því sem mamma var að segja okkur ætti sér ekki stoð í raunveruleikanum,“ útskýrði Einar.

Þetta varð til þess að sambandið á milli mæðginanna var ekki mjög gott. Lét Einar í sér heyra þegar hann taldi sig vita að móðir hans væri að segja eitthvað sem ekki var rétt. Endaði það oft með heiftarlegum rifrildum og stundum smá ryskingum.

Verðum að taka eitur og deyja saman

Man Einar sérstaklega eftir einu skipti þar sem fjölskyldan sat og horfði á kvikmynd inni í stofu. „Þá fer mamma að tala um að það séu allir á móti okkur, þetta yfirvald sé að reyna að stía okkur í sundur og þess vegna sé ég búinn að vera svona erfiður. Og það eina sem við getum gert til að sleppa frá þeim sé að taka öll eitur og deyja saman,“ rifjaði Einar upp.

Guðný Hödd systir Einar var enn ung og tók undir með móður sinni, trúði því að þetta væri eina leiðin fyrir fjölskylduna til að vera hamingjusöm saman. „Ég varð aftur á móti brjálaður og sagði þeim að þetta væri bara rugl, rauk upp og fór fram og kom mamma á eftir mér. Hún byrjar að tala um að þetta yfirvald sé búið að ná stjórn á mér og þess vegna skilji ég þetta ekki. Ég öskra auðvitað bara á hana að hún sé geðveik og við séum ekki að fara að taka eitthvað helvítis eitur og ég ætli að fara og taka litlu systur mína með mér,“ sagði Einar.

Því næst tekur móðir hans hann hálstaki upp við vegg. Einar var aftur á móti orðinn nokkuð sterkur eftir að hafa unnið ýmis verk á heimilinu í mörg ár og náði að rífa sig lausan. „Ég tók hana hálstaki, ýtti henni í burtu, fór svo út og ráfaði einn um Vesturbæinn fram á nótt og kom ekki aftur fyrr en allir voru farnir að sofa,“ sagði hann.

Daginn eftir bað móðir hans hann afsökunar á hegðun sinni. Eftir þetta hugsaði Einar oft að hann þyrfti að komast í burt af heimilinu með systur sína. Eftir atvikið reyndi hann að vera sem minnst heima. „Til allrar hamingju átti ég nokkra góða vini sem ég hékk með, annað hvort heima hjá þeim eða bara að slæpast um Vesturbæinn. Mamma var auðvitað brjáluð á því og hótaði reglulega að láta lögguna ná í mig. Það varð þó aldrei úr því,“ sagði Einar.

Reyndi hún að refsa honum fyrir óhlýðnina með því að setja hann í straff og loka hann inni í herbergi. Brá hann þá á það ráð að skríða út um gluggann. „Ég gat ekki allt ruglið sem var í gangi heima fyrir,“ sagði Einar.

Hrökk upp alblóðugur

Svo kom að kvöldinu sem breytti öllu. Kvöldið hófst á því að Einar fór á tónleika með Korn í miðbænum ásamt vini sínum og skemmtu þeir sér vel. Þegar hann kom heim hafði móðir hans útbúið grjónagraut sem hún vildi gjarnan að hann borðaði. Einar smakkaði grautinn en vildi ekki borða hann þar sem honum þótti hann eitthvað undarlegur á bragðið.

„Þá fór hún alveg í kerfi. Hún sannfærði mig um að skorða ryksuguskaft undir hurðinni því hún hafði svo miklar áhyggjur af því að það yrðu allir brjálaðir eftir tónleikana og vildi alls ekki að neinn kæmist inn. Miðað við það sem maður hafði upplifað með henni fannst mér þessar áhyggjur svo sem ekkert skrýtnar og til þess að forðast að lenda í rifrildi um þetta skorðaði ég bara ryksuguskaftið undir hurðinni og fór inn í herbergi að hlusta á tónlist,“ sagði Einar.

Systir hans kom inn í herbergi til hans og spurði hann um tónleikana sem hann hafði verið á fyrr um kvöldið. Bað hún um að fá að hlusta á lög með hljómsveitinni og varð Einar við því. Spilaði hann nokkur lög og því næst buðu þau góða nótt og fór hann fljótlega að sofa.

„Það næsta sem ég man er að ég hrekk upp og finn að ég er allur blautur og hugsa að ég hljóti að hafa pissað á mig. Þegar ég lít niður sé ég að það er allt úti í blóði,“ sagði Einar. Móðir hans kemur inn í herbergið, virðist vera mjög hissa og bendir honum á að hann hafi örugglega sofnað með vasahníf í rúminu. Fór Einar inn á baðherbergi til að ná í handklæði til að þurrka blóðið og setja þrýsting á sárið.

Herbergi Guðnýjar Haddar var við hlið baðherbergisins en þegar hann ætlaði að fara þangað inn til að huga að henni bannaði móðir hans það og sagðist ekki vilja að hún sæi hann útataðan í blóði. „Ég trúði henni þá en veit núna að þá var Guðný Hödd líklegast bara dáin og mamma vildi ekki að ég sæi það,“ sagði Einar.

Náði að stinga hann í bakið og öxlina

Settist hann á rúmið sitt og sagðist móðir hans hafa hringt, beðið um sjúkrabíl og sagði hann vera á leiðinni. Var hún með töflu sem hún vildi að hann tæki. Sló Einar töfluna úr hendi móður sinnar og sagðist ekki vilja taka eitthvað sem hann vissi ekki hvað væri.

„Svo sit ég og bíð og enginn bíll kemur og ég kalla á mömmu og spyr hvort bíllinn fari ekki að koma og hvort hún geti hringt aftur og athugað með hann. Þá kemur hún aftur inn í herbergið og ég sé að hún heldur á hníf, svona hálf fyrir aftan bak en samt niður með síðunni. Ég öskra á hana og spyr hana hvað í andskotanum hún sé að gera með þennan hníf. Þá lætur hún hann detta í gólfið og fer að gráta og spyr mig um hvað ég sé eiginlega að tala,“ sagði Einar.

Sagði hann að hann ætti við hnífinn sem hún hafði látið detta í gólfið og spurði hana hvað væri eiginlega í gangi. Móðir hans fer fram og Einar heldur áfram að kalla á eftir henni. Þá kemur hún inn með annan hníf, gengur hratt í áttina til hans og reynir að stinga hann. Náði hann að grípa í hnífinn, henda honum í burtu og snúa hana niður í rúmið. Þegar hann ætlar að fara að standa upp nær hún að stinga hann nokkrum sinnum í bakið og í öxlina.

„Ég hleyp fram á gang og sparka ryksuguskaftinu undan hurðarhúninum og fer út bara á nærbuxunum. Eftir að hafa alist upp í umhverfi þar sem mér var reglulega sagt að það væru allir á móti okkur og að maður þyrfti að passa sig hverjum maður treysti þá vildi ég alls ekki banka upp á hjá hverjum sem er í þessu ástandi,“ sagði Einar.

Gekk hann því frá Hagamelnum niður á Kaplaskjólsveg þar sem vinur hans bjó og hringir dyrabjöllunni. Móðir vinar hans svaraði, hleypti honum inn og brá verulega þegar drengurinn stóð á nærbuxunum einum fata og alblóðugur.

„Hún sagði mér svo frá því seinna að hún hefði haldið að við mamma hefðum kannski verið að rífast og ég hefði farið að heiman því að ég var svo yfirvegaður í dyrasímanum. Hún hringir síðan á sjúkrabíl fyrir mig og lætur mig leggjast í sófann á meðan ég bíð. Eftir það var mér skutlað á spítalann þar sem ég fór í aðgerð og vaknaði svo einhverju síðar. Þá tilkynnti prestur mér með fjölskyldu minni að litla systir mín væri dáin og mamma mín væri þungt haldin eftir þetta og það væri bara heppni að ég hefði lifað af,“ sagði Einar.

Morðið myndi gera allt gott á ný

Í lyfjamókinu eftir aðgerðina gerði Einar sér ekki fyllilega grein fyrir því að systir hans væri látin. „Þegar ég útskrifaðist af spítalanum flutti ég heim til ömmu og afa sem gerðu allt sem þau gátu fyrir mig og meira. Á þessum tíma gat ég ekki ímyndað mér að tala nokkurn tíma aftur við mömmu mína og í langan tíma á eftir var ég búinn að ákveða að ef ég sæi hana einhvern tíma aftur væri það þegar ég myndi drepa hana sem var dagur sem ég sá í hyllingum því þá loksins væri orðið jafnt og allt yrði gott aftur,“ sagði Einar.

Reiðin var það eina sem komst að hjá honum á þessum tíma. „Það var reiði í garð mömmu fyrir að gera þetta, reiði í garð barnaverndarnefndar fyrir að leyfa henni að sjá um okkur á meðan hún væri svona veik, reiði í garð heimsins fyrir að vera svona ógeðslegur og ósanngjarn og síðast en ekki síst reiði gagnvart sjálfum mér fyrir að leyfa þessu að gerast, fyrir að vera ekki betri stóri bróðir og passa upp á litlu systur mína og fara með hana í burtu þegar ég hafði tækifæri,“ sagði Einar.

Eftir áfallið átti ungi maðurinn erfitt uppdráttar, skaðaði sjálfan sig, neytti fíkniefna og gerði tilraun til að taka eigið líf. „Eins og gengur og gerist hjá krökkum sem lenda utanvegar byrjaði ég að hafa áhuga á allskyns skrýtnum hlutum og einn af þeim voru geðsjúkdómar. Ég las mér mikið til um geðsjúkdóma og byrjaði meira og meira að skilja að þetta væri sjúkdómur sem hefði valdið því að móðir mín hafði gert þetta og reiðin gagnvart henni fór að minnka,“ útskýrði Einar.

Reiðin er þó ekki horfin og upplifir hann oft mikla reiði gagnvart atburðunum. Í dag beinist reiðin þó aftur á móti ekki að móður hans því hann segist skilja að hún hafi ekki valið sér sjúkdóminn. „Hún er yndisleg manneskja sem vill öllum vel þrátt fyrir að vera stundum mikið veik. Á þessum tíma sendi mamma mín mér reglulega bréf í gengum barnaverandarnefnd þó svo að ég vildi ekki vera í samskiptum við hana. Ég ákvað svo einn daginn að slá til og hitta hana í húsnæði á vegum barnaverndarnefndar,“ sagði Einar.

Gestir á málþingi Geðhjálpar í dag.
Gestir á málþingi Geðhjálpar í dag. mbl.is/Golli

Ranghugmyndirnar komu aftur 

„Eins erfitt og það var að sjá manneskjuna sem reyndi að drepa þig og drap systur þína þá var alveg ótrúlega gott að sjá mömmu sína aftur í fyrsta skipti í meira en tvö ár. Við spjölluðum saman og hún sagði mér hvað henni finnist leiðinlegt að þetta hefði gerst. Hún myndi ekkert eftir því en hún væri samt búin að gera sér grein fyrir að þetta væri eitthvað sem hún hefði gert,“ sagði Einar.

Í gegnum árin hafa mæðginin meira og minna haldið sambandi en þó hefur af og til flosnað upp úr því. Sagði Einar það ýmist hafa verið vegna þess að hann hefði verið á kafi í neyslu fíkniefna eða fundist nærvera móður sinnar of yfirþyrmandi. „Þó hefur hún alltaf gert sitt besta til að vera til staðar fyrir mig og ég fyrir hana. Sem ég er mjög feginn að við höfum getað haldið því mamma mín veikist aftur um jólin 2013,“ sagði Einar.

Ranghugmyndirnar tóku aftur yfir. Hún var viss um að slæmir andar væru í íbúðinni hennar og var hún sannfærð um að yfirvald hefði komið segli fyrir í íbúðinni. „Mér leist ekkert á blikuna enda sá ég strax merki um að hún væri ekki alveg í lagi. Þannig að ég bókstaflega dró hana með mér niður á bráðamóttöku geðdeildar, fékk fram að hún fengi að tala við lækni og heimtaði að ég fengi að sitja með henni meðan þau spjölluðu. Sem ég fékk. Sem er líklegast eins gott því mamma vildi ekki segja mikið til að byrja með,“ sagði Einar.

Smám saman fékkst hún til að segja lækninum hvað hún hefði sagt syni sínum en þó þurfti að draga hverja setningu upp úr henni. Ákveðið var að leggja hana inn á geðdeild og svipta sjálfræði í tvo sólarhringa. Útskýrði Einar fyrir starfsfólkinu að veita þyrfti henni meiri hjálp en svo. Vissi hann að ef móðir hans hefði kost á að yfirgefa deildina myndi hún gera það.

„Ég sagði þeim frá forsögu okkar og hvað hún hefði sagt sem varð til þess að ég kom með hana og ef að hún fengi að fara strax án þess að fá hjálp sem væri við hæfi þá myndi það enda illa, hvort sem það myndi koma niður á mér eða henni eða okkur báðum,“ sagði hann.

Einar hafði líklega rétt fyrir sér. Þegar hann fór heim til móður sinnar fann hann stílabók á eldhúsboðinu. Í henni voru teikningar af verum úr draumum hennar sem áttu að vera að stjórna henni og sjálfsmorðsbréf. Hringdi hann, ræddi við starfsfólk geðdeildarinnar og var í framhaldi af því ákveðið að hún myndi dvelja á Kleppi um tíma og yrði einnig svipt sjálfræði tímabundið.

Einar hringdi daglega í móður sína og útskýrði hann að það hefði oft verið mjög erfitt. Móðir hans var æst og sagði að kerfið hefði náð stjórn á honum. Hann væri að hjálpa yfirvöldum að gera út af við hana og starfsfólkið á geðdeildinni væri að reyna að myrða hana. Reyndi sonur hennar að útskýra fyrir henni að svo væri ekki. Símtölunum lauk oft með því að Einar skellti á móðir sína eða hótaði því að skella á ef þau gætu ekki spjallað saman í góðu. Hann vildi aðeins heyra í henni og reyna að vera til staðar fyrir hana.

Verða dálítið ein á báti

„Svo fær hún inni á Kleppi og sjálfræðissviptingin tekur gildi. Þá fékk ég eitt undarlegasta símtal sem ég hef á ævinni fengið. Þar var útskýrt fyrir mér að þar sem móðir mín hafði verið svipt sjálfræði þá verði einhver að vera skráður með forræði yfir henni. Og þar sem ég var eini ættingi hennar sem var í einhverjum samskiptum við hana þá lá það næst að ég fengi forræði yfir móður minni. Sem ég samþykkti þar sem ég sá ekkert annað í stöðunni,“ sagði Einar.

„Til allrar hamingju þá áttaði einhver snillingurinn niðri á spítala að það væri nú ekki alveg boðlegt að ég myndi fá forræði yfir móður minni og það var haft samband við mig aftur ég spurður hvort það væri ekki í lagi að lögfræðingurinn hennar væri skráður með forræðið sem ég að sjálfsögðu samþykkti þar sem ég á alveg nóg með mitt sjálfræði,“ bætti Einar við.

Móðir Einar dvaldi um nokkurt skeið á Kleppi og fékk þá aðstoð sem hún þarf á að halda ásamt lyfjameðferð. „Maður sá hana verða meira og meira hún sjálf aftur. Ranghugmyndirnar hurfu og hún bað mig afsökunar á því sem hún sagði um að kerfið væri búið að ná stjórn á mér og þakkaði mér fyrir að grípa inn í áður en verr fór . Svo þegar hún var búin að ná sér fékk hún sjálfræði sitt aftur og fékk að fara heim en þarf þó að mæta upp á Klepp reglulega til að fá forðasprautur með lyfjum sem hún þarf og tala við geðlækni,“

Í dag líður henni ágætlega og hefur samband mæðginanna líklega aldrei verið betra. „Það sem ég held að sé það erfiðasta fyrir móður mína og margt annað fólk sem glímir við alvarlega geðsjúkdóma er að oftar en ekki kemur það upp illindum á milli þeirra og annarra sem eru náin þeim og oft verður það til þess að þau verða dálítið ein á báti. Eins og með móður mína get ég sagt með nokkurri vissu að utan fagfólks á geðsviði erum við kærasta mín eina fólkið sem getur talist í reglulegum samskiptum við hana,“ sagði Einar.

„Það eru nokkrir úr fjölskyldunni og nokkrar gamlar vinkonur sem hún heyrir í við og við en verður seint hægt að kalla það reglulegt. Móðir mín þakkar mér oft fyrir að vera í samskiptum við sig og hefur oftar en einu sinni sagt að ég sé ástæða hennar til að halda áfram að lifa,“ sagði Einar. „Ég vona samt að það breytist og hún sjái að lífið er ástæðan fyrir því að lifa því það er það besta sem okkur hefur verið gefið.“

Lífið það dýrmætasta sem við eigum

„Ég hef gengið í gengum ýmislegt í gegnum þessi tuttugu og fimm ár hérna á jörðinni og fólk sem þekkir mig hefur oft sagt að það sé ótrúlegt, miðað við allt sem ég hef gengið í gengum, að ég þó eins heill og ég er. Og satt best að segja furða ég mig stundum á því sjálfur,“ sagði Einar.

„Ef ég hefði verið spurður fyrir tíu árum þá hefði ég sagt að ég hefði líklegast verið dauður fyrir sjö árum. En til allrar hamingju rættist ekki úr því. Ég vildi óska þess að ég ætti einhverja töfralausn sem ég gæti deilt með ykkur til að hjálpa ykkur í gegnum erfiðu kaflana í lífinu en svo er því miður ekki. En það eru þó þrjár setningar sem ég vil biðja ykkur að muna sem hafa hjálpað mér í gegnum margt. Það er alltaf von, lífið er það dýrmætasta sem við eigum og það eina sem við megum ekki gera er að stoppa,“ sagði Einar að lokum og uppskar mikið lófatak viðstaddra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert