Leystur út með gjöfum í Leifsstöð

Rene Petersen var komið á óvart.
Rene Petersen var komið á óvart. mynd/Isavia

Fjöldi farþega um Keflavíkurflugvöll fór í dag í fyrsta sinn yfir fjögurra milljóna múrinn innan sama árs. Fjórmilljónasti farþeginn var Rene Petersen en hann ferðaðist með fjölskyldu sinni til Kaupmannahafnar með Icelandair.

Þetta kemur fram á vef Isavia.

Þar segir, að starfsfólk Isavia á Keflavíkurflugvelli hafi komið Petersen á óvart og tók á móti honum með blómvendi og leysti hann út með glæsilegum gjöfum. Fékk hann lúxusmálsverð  á veitingastaðnum Nord fyrir alla fjölskylduna, glæsilegan gjafapoka úr Fríhöfninni auk þess sem Icelandair bauð honum að uppfæra sig á Comfort Class farrýmið.

„Talning farþega um Keflavíkurflugvöll skiptist í brottfararfarþega, komufarþega og skiptifarþega og skiptist fjöldinn um það bil jafnt í þrennt. Þegar fjórmilljónasti farþeginn fór úr landi skiptist farþegafjöldinn svona: 1.392.597 brottfararfarþegar, 1.381.395 komufarþegar og 1.226.008 skiptifarþegar. Árið 2014 fóru 3,87 milljónir farþega um Keflavíkurflugvöll og en í ár er búist við því að fjöldinn fari upp í um 4,8 milljónir sem er fjölgun upp á um það bil 26% á milli ára. Árið 2016 má búast við því að farþegafjöldi nái sex milljónum,“ segir Isavia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert