Mikið um veikindi hjá lögreglunni

Mikil veikindi herja á lögregluna á höfuðborgarsvæðinu en þessi mynd …
Mikil veikindi herja á lögregluna á höfuðborgarsvæðinu en þessi mynd var tekin af lögreglunni ganga á Austurvöll í gær. mbl.is/Júlíus

Mikið er um veikindi meðal lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu að sögn Jóhanns Karls Þórissonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns. Staðan er svipuð og fyrir viku síðan þegar fjölmargir lögreglumenn víða um land tilkynntu veikindi.

Vegna verkfalls SFR þá er ekki svarað í aðalsímanúmer lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og eins er þjónustudeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er lokuð vegna verkfalls SFR.
Áhrif þess eru m.a. að ekki er unnt að annast innheimtu sekta, auk þess sem lokað er í munavörslu og óskilamunadeild embættisins.

Vegna verkfalls SFR þá er skrifstofa lögreglustjórans á Suðurnesjum að Brekkustíg 39 lokuð. Þetta á einnig við um tapað fundið. Settur hefur verið á símsvari sem svarar númerinu 444-2200. Almenn afgreiðsla er opin á lögreglustöðinni að Hringbraut 130. Fyrir neyðartilvik er bent á símanúmerid 112.

Að sögn Ólafs Helga Kjartanssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum, er staðan slæm á Keflavíkurflugvelli, „því miður,“ segir Ólafur Helgi en í hans umdæmi hafa sex lögreglumenn af níu boðað forföll í dag.

„Sú staða kom upp hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í morgun að margir lögreglumenn hjá embættinu boðuðu forföll vegna veikinda.
Af þeirri ástæðu er viðbúið að ekki verði unnt að sinna öllum verkefnum sem koma á borð lögreglu í dag, en þau sem teljast brýn og áríðandi verða vitaskuld sett í forgang eins og jafnan áður.
Lögreglan biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda, en biðlar jafnframt til fólks að sýna henni skilning og þolinmæði í dag,“ segir á Facebook síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Hjá lögreglunni á Suðurlandi er eitthvað um veikindi en ekki liggur nákvæmlega hversu margir lögreglumenn hafa boðað forföll í umdæminu í dag.

Hjá lögreglunni á Húsavík er einn á vakt og það er bara staðan í dag segir sá lögreglumaður sem stendur vaktina í dag. Hann segir að það sé búið að skera svo mikið niður hjá embættinu að það er aðeins einn lögreglumaður á vakt á Húsavík og því aðeins um öryggisvöktun að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert