Ríkið að hugsa sig um

Árni Stefán Jónsson, formaður SFR.
Árni Stefán Jónsson, formaður SFR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fulltrúar ríkisins melta nú hugmyndir sem viðsemjendur þeirra hjá SFR, SLFÍ og LL lögðu fram í dag til að leysa hnút sem myndaðist í viðræðum þeirra hjá ríkissáttasemjara, að sögn Árna Stefáns Jónssonar, formanns SFR. Hann lýsir deginum sem „ströggli“ og segir ljóst að verkfall vari áfram.

Samninganefndirnar eru enn í húsakynnum ríkissáttasemjara í Borgartúni og segir Árni Stefán það sýna að dagurinn hafi verið rýr. Bjartsýni hafi ríkt í gær en bakslag hafi komið í dag sem unnið hafi verið í að leysa.

„Við vorum ekki kát með svar sem við fengum frá ríkinu við hugmyndum okkar svo þetta var í svolitlu ströggli hér fram eftir degi. Við erum búin að reyna að leysa úr því, ríkið er eiginlega að hugsa það,“ segir hann.

Framhald fundarins fari eftir viðbrögðum ríkisins. Þegar þau liggi fyrir verði staðan metin og ríkissáttasemjari ákveði hvort rétt sé að halda áfram að gefa deiluaðilum svefnfrið í kvöld.

Viðræðurnar eru ekki komnar á það stig að hægt sé að endurskoða verkfallsaðgerðir og segir Árni Stefán að kjarasamningur opinberra starfsmanna veiti í raun ekki heimild til að fresta þeim. Ekki sé hægt að fresta þeim nema að ná samningum.

„Það er verkfall á morgun, það er nokkuð ljóst,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert