Deilt á og um staðgöngumæðrun

Skoðanir eru afar skiptar um staðgöngumæðrun, þar sem kona gengur …
Skoðanir eru afar skiptar um staðgöngumæðrun, þar sem kona gengur með barn fyrir aðra. mbl.is/Jim Smart

„Hvað gerist ef hvorki ætlaðir foreldrar né staðgöngumóðir vilja eiga barn þegar það er komið í heiminn?“ var meðal þeirra spurninga sem þingmenn spurðu á Alþingi í dag, þegar heilbrigðisráðherra mælti fyrir frumvarpi um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

Ljóst er af umræðum á þingi að skoðanir eru afar skiptar þegar kemur að staðgöngumæðrun, en menn gagnrýndu m.a. aðdragandann að frumvarpinu og að með því væri verið að gera líkama kvenna að vettvangi þar sem aðrir gætu náð fram markmiðum sínum.

Málið var afgreitt til velferðarnefndar að loknum umræðum.

Frumvarpið var samið af starfshóp sem skipaður var í september 2012, en nái það fram að ganga verður sett á laggirnar þriggja manna nefnd, sem verður m.a. falið að veita leyfi til staðgöngumæðrunar og fjalla um mál þeirra sem koma heim með barn eftir að hafa nýtt sér staðgöngumærðun erlendis.

Raunar verður það gert refsivert að nýta sér þjónustu staðgöngumæðra í löndum þar sem löggjöfin er ólík þeirri íslensku og munu brot varða allt að þriggja ára fangelsi. Hvað varðar staðgöngumæðrun á Íslandi verður það hlutverk nefndarinnar að meta hvort hagsmunir barnsins séu tryggðir og öll skilyrði uppfyllt.

Möguleg staðgöngumóðir þarf að vera 25-39 ára, líkamlega hraust og hafa eignast a.m.k. eitt barn. Þá er gert ráð fyrir að ætlaðir foreldrar séu hjón eða einstalingar með þriggja ára sambúð að baki, sem geta ekki átt barn. Einhleypir geta fengið heimild til staðgöngumæðrunar í ákveðnum tilvikum.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að gerður sé óbindandi samningur um yfirfærslu á foreldrastöðu, sem getur í fyrsta lagi farið fram tveimur mánuðum eftir fæðingu. Fram að þeim tíma er staðgöngumóðirin sjálfráð um allar ákvarðanir en deilur verða leystar fyrir dómstólum.

Foreldrum er gert skylt að upplýsa börn sín um hvernig þau komu undir og þá geta þau við 16 ára aldur óskað eftir upplýsingum um ferlið og uppruna kynfrumanna.

Ætluðum foreldrum verður heimilt að greiða kostnað vegna ferlisins.

Á að senda barnið til baka eða í fóstur?

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingar, var fyrst í pontu þegar Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hafði mælt fyrir frumvarpinu og spurði m.a. hverju það sætti að frumvarpið gerði ráð fyrir að lögmaður færi fyrir fyrrnefndri nefnd, sem í sitja að auki læknir og sálfræðingur eða félagsráðgjafi. Þá sagði hún að áfram myndi ríkja óvissa um þau börn sem kæmu erlendis frá og spurði hvað gera ætti í þeim tilvikum þegar nefndin kæmist að þeirri niðurstöðu að erlenda löggjöfin samræmdist ekki þeirri íslensku; senda barnið aftur til baka eða í fóstur hér heima.

Sigríður sagði Íslendinga eiga löggjöf um staðgöngumæðrun; hún væri bönnuð samkvæmt lögum um tæknifrjóvganir. Löggjafinn hefði farið ýmsar leiðir til að auðvelda fólki barneignir og að setja þyrfti aukna fjármuna í þá málaflokka sem fyrir væru. Hún sagði vald nefndarinnar mikið, en hlutverk hennar tvíþætt og ólíkt; að taka bæði á íslenskum og erlendum málum.

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, tók undir með Sigríði varðandi hið tvíþætt hlutverk og sagði að verið væri að búa til ný vandamál með því að opna á það að börn lentu hjá barnaverndarnefndum og í reiðileysi ef nefndin úrskurðaði að staðgöngumæðrun erlendis uppfyllti ekki skilyrði íslensku löggjafarinnar.

Þvert á niðurstöðu vinnuhóps

„Hverju sætir það að við erum komin hingað í þessu máli?“ spurði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna. Hann gagnrýndi að menn hefðu lagt fram þingsályktunartillögu 2012, þvert á niðurstöður vinnuhóps sem skipaður var í janúar 2009 til að fjalla um álitamál og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri tímabært að heimila staðgöngumæðrun.

Steingrímur sagði að í þessu máli ætti þingið að láta það eftir sér að spóla til baka; önnur Norðurlönd hefðu verið að þokast í þveröfuga átt þegar kæmi að lagasetningu og ekki ríkti samfélagssátt um málið. Hann sagðist ekki vilja gera lítið úr vanda þeirra sem gætu ekki átt börn, en álitamálin væru mörg.

Þá benti Steingrímur á að í lögunum væri í fjölda tilfella vísað til dómstóla varðandi álitamál og sagðist ekki geta sætt sig við að líkamar kvenna væru hlutgerðir með þessum hætti og ætlast til þess að konur aftengdu sig móðurlífi sínu. Í þessu máli þyrftu aðrir hagsmunir að víkja.

Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingar, var ósammála Steingrími um að ekki hefði veririð meirihluti fyrir málinu á þingi þegar þingsályktunartillaga um skipan starfshóps hefði verið samþykkt og benti á að 33 hefðu greitt atkvæði með tillögunni en 13 á móti.

Hann lýsti því hvernig hann hefði farið að kynna sér málið fyrir alvöru eftir að hafa hlýtt á mál einstaklinga sem komu fyrir heilbrigðisnefnd þegar hún var og hét og sögðu frá baráttu sinni við ófrjósemi. Mikil þverpólitísk vinna lægi að baki málinu og ekkert væri athugvert við það að Ísland tæki forystu í þessum málum.

Kristján sagði frumvarpið taka á þeim álitamálum sem taka þyrfti á og spurður að því hvað gerðist ef hvorki ætlaðir foreldrar né staðgöngumóðirin vildu eiga barnið sagði hann hlutverk nefndarinnar að fara yfir einstaka mál og meta áður en ferlið hæfist.

Ætlað að uppfylla óskir og drauma annarra

Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði fullkomlega eðlilegt að umræðan um staðgöngumæðrun væri tilfinningaþrungin. Það væri mikilvægt að skilja þann harm að geta ekki átt börn með hefðbundnum hætti en jafnframt varasamt að líta á barneignir sem rétt. Hún benti á að á alþjóðlegum vettvangi væri litið svo á að réttur barna til foreldra væri ríkari en réttur fólks til að stofna fjölskyldu.

Hún vakti aftur upp þá spurningu um hvað gerðist ef hvorugur aðili vildi barnið eftir fæðingu og spurði hvort fólki gæti ímyndað sér þær flækjur sem gætu myndast þegar börnin yrðu upplýst um að þau ættu ekki bara foreldra heldur aðra móður einhvers staðar.

Katrín sagði suma horfa þannig á málið að fólk ætti að geta samið um að ganga með börn fyrir aðra en hún væri ekki sannfærð vegna þeirra tilfinninga sem lægju að baki. Þá sagði hún önnur rök liggja til þess að stíga varlega til jarðar sem væru ekki tilfinningalegs eðlis; Íslendingar byggju í samfélagi þar sem ekki ríkti kynjajafnrétti.

Hún spurði hvaða skilaboð væri verið að senda með því að setja lög til að geta samningsbundið konur til að gegna því hlutverki að uppfylla óskir og drauma annarra. Sagðist Katrín telja að þetta væri helsta ástæða þess að önnur Norðurlönd hefðu valið að leggja ekki í þessa vegferð, en um væri að ræða grundvallarspuningu um rétt barna til foreldra og hvernig samfélagið horfði á konur og karla.

Ófyrirséður kostnaður

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingar, tók undir með nöfnu sinni um að verið væri að samningsbinda konur en ljáði einnig máls á þeim ófyrirséða kostnaði sem gæti fallið til í tengslum við meðgöngu og fæðingu. Tók hún sem dæmi konu sem neyddist til að hverfa af vinnumarkaði vegna meðgöngunnar, eða yrði sjúklingur eða öryrki vegna t.d. grindargliðnunar. „Hvar liggur ábyrgðin á því?“ spurði hún.

Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist vart geta rætt málið án þess að gráta. Verið væri að tala um að gera kvenlíkamann að verkfæri sagði hún og benti á þau skilyrði sem konu væri gert að uppfylla, s.s. um aldur og hreysti.

Hún sagði mannfyrirlitningu felast í frumvarpinu og svaraði spurningu Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, þingmanns Framsóknarflokks, um hvar menn ætluðu að draga mörkin þegar kæmi að aðstoð við ófrjó pör á þann veg að þau ætti að draga við það að biðja aðra manneskju að ganga með barn fyrir sig.

Valgerður sagði að ekki yrði hægt að koma í veg fyrir duldar greiðslur. Þá fagnaði hún því að vera í þeirri stöðu að þurfa aldrei að svara þeirri spurningu  hvort hún vildi ganga með barn fyrir aðra. Hún sagði eina ljósa punktinn í svartnættinu að í frumvarpinu væri gert ráð fyrir því að staðgöngumóðirin gæti skipt um skoðun.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagðist telja að engin lagarammi gæti réttlætt að litið væri á konur sem framleiðslutæki. Hún spurði að því hversu langt menn væru tilbúnir til að ganga og hvort þeir þyrftu ekki að hafa siðferðilegan styrkt til að draga línu í sandinn.

Hún sagðist telja að flestar konur sem hefðu gengið með barn gætu ekki hugsað það til enda að kveðið væri á um að í íslenskri löggjöf að konur væru notaðar í þeim tilgangi að ganga með börn til að gefa þau frá sér. Hún endurómaði ummæli Valgerðar um að mannfyrirlitning fælist í frumvarpinu.

Þá sagðist Lilja velta því fyrir sér hvernig auglýst yrði eftir staðgöngumæðrum og að skilyrðin í frumvarpinu hljómuðu eins og um kynbótaiðnað væri að ræða. Hún sagði málið sorglegt en út um allan heim væri að finna börn sem þyrftu á foreldrum að halda.

Fjóla Hrund Björnsdóttir, þingmaður Framsóknar, spurði Lilju hvort ekki þyrfti að setja lög um staðgöngumæðrun þar sem hún ætti sér sannarlega stað, en Lilja sagði ekki rétt að setja lagaumgjörð til að réttlæta eitthvað sem viðgengist, að samfélagið þyrfti þá að samþykkja það sem sjálfsagðan hlut.

Aldrei hægt að tryggja öllum barneign

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingamaður Vinstri grænna, sagði að sér þætti málið varasamt útfrá jafnréttis- og kynfrelsissjónarmiðum; konur gætu orðið vettvangur réttinda annarra einstaklinga. Hún sagðist ekki á því að fólk hefði rétt til þess að eignast börn og að konan væri orðin verslunarvara þegar lög gerðu ráð fyrir að hún gæti þrisvar gengið með barn fyrir annað fólk, líkt og stendur í frumvarpinu.

Bjarkey sagði ljóst að það yrði aldrei hægt að tryggja að allir gætu eignast barn og að réttur barna til að eiga góða foreldra væri mun sterkari en réttur fólks til að eignast fjölskyldu. Hún lagði hins vegar til að löggjöfin um ættleiðingar yrði tekin til skoðunar.

Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, lýsti því hvernig málið væri tiltölulega nýtt fyrir honum; áður hefði hann bara fylgst með sem „dúddi“ út í bæ. Hann sagði staðgöngumæðrun eitt flóknasta mál sem þingið gæti haft til umfjöllunar og velti m.a. upp þeirri spurningu hvort ekki væru til rannsóknir sem gæfu vísbendingar um hvernig til hefði tekist hjá öðrum þjóðum.

Páll sagðist ekki geta svarað því hvort það væru mannréttindi að geta eignast barn og þá væri hann ekki viss um að almenn sátt ríkti um málið í samfélaginu. Hins vegar þyrfti að leiða málið til lykta.

Stórt skref afturábak

Síðust í pontu var Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sem tók undir með flokksbróður sínum Steingrími og spurði hvers vegna verið væri að fjalla um frumvarp um staðgöngumæðrun þegar nágrannalöndin hefðu komist að þeirri niðurstöðu að leyfa hana ekki.

Hún sagði stóru myndina snúa að þremur atriðum og nefndi í fyrsta lagi togstreitu mannsins í tengslum við tækniframfarir. „Af því að það er hægt þá gerum við það, og af því að við gerum það þá þurfum við að eiga löggjöf um það,“ sagði Svandís. Í öðru lagi sagði hún að rétturinn til að eignast börn og fjölskyldu gæti aldrei talist réttur í þeim skilningi að allar leiðir væru réttlætanlegar og að horfa þyrfti til siðferðilegra álitamála.

Svandís einblíndi hins vegar aðallega á þriðja atriðið, þ.e. feminísk sjónarmið, og sagði að daginn sem hægt yrði að loka Stígamótum, daginn sem konur hefðu jafn mikil völd og karlar, daginn sem konur fengju jafn laun á við karla; á þeim degi yrði kannski hægt að taka til umfjöllunar frumvarp um staðgöngumæðrun.

Hún sagði frumvarpið stórt skref afturábak í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna.

Kristján Þór Júlíusson.
Kristján Þór Júlíusson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. mbl.is/Rósa Braga
Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Kristján Möller.
Kristján Möller. mbl.is/Ómar Óskarsson
Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson
Katrín Júlíusdóttir.
Katrín Júlíusdóttir. mbl.is/Ernir Eyjólfsson
Valgerður Bjarnadóttir.
Valgerður Bjarnadóttir. mbl.is/Friðrik Tryggvason
Lilja Rafney Magnúdóttir.
Lilja Rafney Magnúdóttir. mbl.is/Golli
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert