Stefnan skýr en var ekki framfylgt

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

Eigendastefnu Bankasýslu ríkisins var ekki fylgt við sölu á hlut Arion banka í Símanum, en þar kemur fram að byggja eigi upp traust og trúverðugleika á íslenskum fjármálamarkaði. Rekstur og stjórnun fjármálafyrirtækja þurfa að vera hafin yfir vafa og leiðbeiningar og reglur sem unnið er eftir að vera skýrar og aðgengilegar. Á þetta bendir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður fjárlaganefndar. Ríkið á 13% hlut í Arion banka sem Bankasýslan sér um.

Bankasýslunni ber að framfylgja eigendastefnunni

Í samtali við mbl.is segir Guðlaugur að á fundi nefndarinnar í gær hafi svör Bankasýslunnar vegna sölunnar verið á þann veg að stofnunin væri ekki með upplýsingar um málið og ekki komið að ákvörðuninni. „Þetta er í eigendastefnunni og Bankasýslunni ber að framfylgja henni,“ segir Guðlaugur. Telur hann stefnuna mjög skýra og salan ekki í samræmi við hana þegar hlutur í Símanum var seldur til fjárfestahóps sem stjórnendur Símans höfðu forgöngu um að koma saman.

Umhugsunarefni ef Bankasýslan framfylgir ekki eigendastefnunni

Guðlaugur segir að kallað verði eftir frekari gögnum frá Bankasýslunni og þangað til hann hafi fengið svör við þeim spurningum ætli hann ekki að fella neina dóma. Ef svör þeirra reynist ófullnægjandi eða ljóst sé að ekki hafi verið framfylgt eigendastefnunni kalli það aftur á móti á nánari skoðun. „Það er umhugsunarefni í ljósi þess að við erum með heila stofnun sem á að framfylgja eigendastefnunni að markmiðum hennar sé ekki náð fram miðað við núverandi fyrirkomulag. Þá hljótum við að fara yfir þá stöðu,“ segir Guðlaugur um stjórnun Bankasýslunnar.

Hann tekur fram að málið snúist ekki bara um þessa einstöku sölu. „Ég veit ekki hvernig á að fara í einkavæðingu ef ekki er til traust,“ segir hann og ítrekar að það þurfi að vera skýrar leikreglur sem séu öllum ljósar.

Lýsir því að stjórnendur þekktu ekki reskturinn

Í síðustu viku birti Morgunblaðið grein eftir  framkvæmdastjóra fjárfestingabankasviðs Arion banka, Halldór Bjarkar Lúðvíksson, þar sem hann fór yfir ástæður þess að bankinn hafi valið að fara þessa leið. Meðal annars hafi átt að minnka framboðsþrýsting með því að hafa sölubann á bréf þeirra sem keyptu fyrir útboðið. Þá hafi kaupendurnir haft takmarkaðri upplýsingar um fyrirtækið en þegar skráningarlýsing kæmi fram og þá sé alltaf auðvelt að vera með eftiráspeki.

Guðlaugur segir þessi rök ekki halda vatni og bendir á að stjórnendur Símans hafi sett saman kaupendahópinn. „Hverjir þekkja fyrirtæki betur en stjórnendur?“ spyr hann og segir að ef þetta standist í grein Halldórs sé hann í raun að lýsa því yfir að stjórnendur fyrirtækisins hafi ekki þekkt reksturinn vel.

Þekkt áður úr Íslandssögunni

Segir Guðlaugur að ef hægt sé að finna kaupendahóp rétt fyrir útboð þurfi um slíkt að vera skýrar leikreglur. Þá segist hann ekki viss um að salan hafi samræmst markmiðum bankans að hámarka hagnað sinn af sölunni.

Ein af röksemdum sölunnar var að erlendir fjárfestar kæmu inn í verkefnið. Meðal þeirra var hollenski fjárfestirinn Bertrand Kan, sem var áður yfirmaður hjá bankanum Morgan Stanley. Hann kom að söluferli Símans þegar hann var einkavæddur árið 2005. Guðlaugur bendir á að samkvæmt fréttum Morgunblaðsins hafi lífeyrissjóður viljað kaupa bréfin á hærra verði á svipuðum tíma. MP banki, sem kom að því máli sagði að ekki hafi verið hlustað á það tilboð. Segir Guðlaugur þessi rök um erlenda fjárfesta þekkt hér á landi. „Við höfum séð þetta áður í Íslandssögunni, t.d. þegar þýskur sparisjóður kom inn hratt og fór hratt út aftur,“ segir Guðlaugur og vísar þar til aðkomu  Hauck & Aufhäuser sparisjóðsins að kaupum á Búnaðarbankanum.

Arion banki seldi stjórnendum Símans og fjárfestum hluti í fyrirtækinu …
Arion banki seldi stjórnendum Símans og fjárfestum hluti í fyrirtækinu rétt fyrir almennt útboð. Hlutir í félaginu hafa hækkað um þriðjung síðan þá. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Síminn var skráður í Kauphöllina í þessum mánuði. Á myndinni …
Síminn var skráður í Kauphöllina í þessum mánuði. Á myndinni hringir Orri Hauksson, forstjóri Símans, inn fyrsta daginn fyrir fyrirtækið á markaði.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert