Tekið upp 10% regluverks ESB

AFP

Samtals hafa verið teknar upp 3.799 gerðir frá Evrópusambandinu í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) undanfarinn áratug. Þetta kemur fram í svari Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra við skriflegri fyrirspurn frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Samantektin tekur til tilskipana, reglugerða og ákvarðana sambandsins.

Heildarfjöldi gerða sem settar voru af Evrópusambandinu á sama tímabili, þ.e. 2005-2014, telur 23.873 gerðir samkvæmt svarinu. Fram kemur að um sé að ræða gerðir á öllum málasviðum sambandsins. Einnig þeim sem falli utan gildissviðs EES-samningsins. Jafnframt séu taldir með úrskurðir í formi ákvarðana sem kunni að beinast að fyrirtækjum. Samsvarandi ákvarðanir í tveggja stoða kerfi EES-samningsins séu teknar af Eftirlitsstofnun EFTA.

Fram kemur að langflestar þeirra 3.799 gerða sem teknar hafi verið upp í EES-samninginn eigi við um Ísland og hafi verið innleiddar hér á landi. „Þó ber að taka fram að inni í þessum tölum eru einstaka gerðir sem ekki eiga við um Ísland, t.d. gerðir er varða viðskipti með lifandi dýr,“ segir ennfremur.

Hliðstæð fyrirspurn var lögð fram fyrir um áratug af Sigurði Kára Kristjánssyni, þáverandi þingmanni Sjálfstæðisflokksins, sem náði til tímabilsins 1994-2004 eða frá því að EES-samningurinn tók gildi hér á landi. Sé miðað við tímabilið 1994-2014 voru í heildina 62.809 gerðir samþykktar á vettvangi Evrópusambandsins samkvæmt svörunum tveimur. Þar af voru 6.326 teknar upp í samninginn eða um 10% heildarfjöldans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert