„Comeback hagstæðu íbúðarinnar“

Una Sighvatsdóttir, fréttamaður, flutti erindi á fundinum þar sem hún …
Una Sighvatsdóttir, fréttamaður, flutti erindi á fundinum þar sem hún fór yfir húsnæðismál frá sjónarhorni ungs fólks í dag. Eggert Jóhannesson

Ungt fólk í dag hugsar í auknum mæli um sveigjanleika og val þegar kemur að ákvörðun um húsnæðisform. Þá hefur forgagnsröð margra breyst og kjósa þeir frekar að setja stærri hluta ráðstöfunartekna sinna í afþreyingu og ferðalög í stað þess að þær fari að mestu í húsnæðisliðinn. Þá skiptir staðsetning ungt fólk mun meira máli heldur en stærð húsnæðisins í dag. Þetta sagði Una Sighvatsdóttir, fréttamaður á Stöð 2, en hún hélt erindi á ráðstefnu ríkisstjórnarinnar um hagkvæmar húsnæðislausnir fyrr í morgun.

Snýst um lífstíl

„Þetta snýst ekki bara um að koma þaki yfir höfuðið heldur um lífstíl,“ sagði Una um það hvernig hún upplifir hugmyndir ungs fólks í kringum sig. Vísaði hún í könnun Capacent nýlega sem sýndi að flest ungt fólk hefði áhuga á að búa miðsvæðis í höfuðborginni frekar en að vera í úthverfunum. Sagði hún þetta til marks um að fólk vildi vera nær miðborgarandanum í stað þess sem hefur átt sér stað undanfarinn áratug þegar íbúar sóttu í úthverfin.

Ungt fólk nægjusamar á húsnæði en áður

Nefndi hún í þessu sambandi að ungt fólk væri nægjusamara þegar kæmi að vali á húsnæði en áður og að það væru minni kröfur um fermetrafjölda og að of stórt húsnæði væri fráhrindandi fyrir marga. Una sagði þetta vera í takt við hugmyndir annars ungs fólks úti í heimi undanfarið, en hún hefur sjálf búið tvisvar erlendis þegar hún var í námi. Sagði hún að í fyrra skiptið hafi skoðanir Íslendinga verið nokkuð á skjön við hugmyndir erlendu nemendanna. Séreignastefnan hefði verið ríkjandi meðan erlendu nemendurnir horfðu á mun meiri fjölbreytni. Í seinna skiptið sem hún fór út, sem var á síðasta ári, segir Una að hún hafi greint mun meiri líkindi milli hugmynda Íslendinga og þeirra sem voru erlendir.

 Þróunin undanfarin áratug hefur verið í þá átt að fjölgun stærri íbúða var langt umfram fjölgun minni íbúða. Una sagði að á síðustu 10 árum hefði íbúðum undir 80 fermetra fækkað á hverja 1.000 íbúa, meðan íbúðum umfram 90 fermetra hafi fjölgað á hverja 1.000 íbúa. Þetta sýndi að erfiðara væri fyrir fólk að finna sína fyrstu íbúð, þrátt fyrir stóra árganga sem væru að koma á markaðinn í fyrsta skiptið undanfarin ár. Vísaði Una til þess að árið 2008 hafi meðalstærð nýrra íbúða verið komin upp í 147,4 fermetra.

Ekki sjálfgefið að séreignastefnan eigi við alla

Núna er aftur á móti „comback hagstæðu íbúðarinnar,“ sagði Una, en það helgaðist meðal annars af breyttu lífsmunstri fólks í dag en áður. Þá væri fólk að kalla á leiguíbúðir í meira mæli en áður, bæði þeir sem þyrftu á slíku að halda þar sem þeir gætu ekki keypt íbúð og þeir sem veldu einfaldlega leiguformið umfram kaup. „Ég var alin upp í algildri trú um séreignarstefnuna,“ sagði Una og uppskar hlátur í salnum. „En það er ekki sjálfgefið að það komi betur út fyrir alla,“ bætti hún við og benti á að sjálf hefði hún valið að flytja í íbúð í Vesturbænum eftir að hún kom heim aftur. Þar deili hún íbúð með þremur öðrum einstaklingum á svipuðum aldri og hún.

Una tók fram að þetta væri alls ekki fyrir alla, en með þessu væri hún að eyða mun lægri upphæð í húsnæði en ef hún væri ein að leigja í 60-80 fermetra íbúð, en minni íbúðir voru að hennar sögn svo gott sem ófáanlegar á markaðinum. Með þessu hafi hún t.d. getað stokkið um daginn í helgarferð til útlanda í staðin fyrir að greiða meira í afborganir af húsnæði eða með að leigja stóra eign. „Viltu stórt húsnæði eða hóflegar kröfur í húsnæði en geta ferðast um heiminn?“ spurði hún salinn og ljóst var hvert hennar val er.

Fjölmennt var á fundinum, en þar mættu þrír ráðherrar og …
Fjölmennt var á fundinum, en þar mættu þrír ráðherrar og er hugmyndin að búa til vettvang sem muni m.a. hjálpa til við að finna lausnir til að lækka byggingarkostnað nýrra íbúða. Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert