Styttri vinnuvika myndi hafa alvarlegar afleiðingar

„Afstaða SA er sú að vinnutími er viðfangsefni kjarasamninga. Ef löggjafinn fer að breyta einstökum köflum kjarasamninga, t.d. þeim sem fjalla um vinnutíma, tekur hann yfir hlutverk og verkefni samningsaðila á vinnumarkaði að semja um kaup og kjör og meta hvert svigrúm atvinnulífsins er til hækkunar launakostnaðar.“

Þetta segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, aðspurður um frumvarp um breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku sem fjórir þingmenn hafa lagt fram. Í frumvarpinu er lagt til að vinnu­vik­an verði stytt í 35 stund­ir og vinnu­dag­ur­inn úr 8 stund­um í 7 stund­ir.

Fyrri frétt mbl.is: Vel raun­hæft að vinna minna

Í greinagerð frumvarpsins kemur m.a. fram að markmið lagabreytingarinnar sé að auka markvisst framleiðni og lífsgæði launþega á Íslandi. Þar kemur einnig fram að lög um 40 stunda vinnuviku hafi verið sett árið 1971.

Dag­vinnu­stund­um fækkaði en yf­ir­vinnu­stund­um fjölgaði

Hannes segir að eðlilegast væri að afnema þau lög. „Þá var vikulegur dagvinnutími styttur úr 44 tímum í 40 án þess að vikulaun skertust sem fól í sér ákvörðun Alþingis um að hækka launakostnað í landinu um 10%. Þetta markaði upphaf óðaverðbólgunnar á áttunda áratugnum, en um það leyti fór verðbólgan úr eins stafs tölu í 50% á skömmum tíma. En í aðalatriðum hafði þessi breyting ekki mikil áhrif á heildarvinnutíma því dagvinnustundum fækkaði en yfirvinnustundum fjölgaði að sama skapi.“

Hannes gagnrýnir sýn frumvarpsmanna á atvinnulífið því það fái ekki staðist að löggjafinn geti með slíkri lagasetningu breytt framboði og eftirspurn vinnuafls í hagkerfinu. „Efnislega felur frumvarpið aðallega í sér tillögu um miðstýrða aðgerð löggjafans til hækkunar á launakostnaði í landinu,“ segir Hannes.

Ýkja lengd vinnu­tím­ans

Hann bendir á að ýmis konar misskilnings gæti hjá frumvarpsmönnum í greinagerðinni. „Þar er því haldið fram að umsaminn vinnutími sé óeðlilega langur hér á landi. Ef litið er á ársvinnutíma, sem er eðlilegt að gera þegar vinnutími er borinn saman milli landa, kemur í ljós að á Íslandi eru tiltölulega margir sérstakir frídagar og orlof langt. Orlofsréttur í kjarasamningum er allt að 30 dagar sem gæti þýtt að meðalorlof sé í kringum 28 dagar og sérstakir frídagar eru 11 og hálfur dagur að meðaltali.“

Hannes segir það jafnframt misskilning af hálfu frumvarpsmanna að vinnuvikan sé 40 stundir hér á landi. Bendir hann á að í kjarasamningum er yfirleitt rúmur hálftími á dag sem er eigin tími starfsmanna, svokallaðir kaffitímar. „Í raun er vikuleg vinnuskylda 37 stundir og í ýmsum kjarasamningum jafnvel minni,“ segir Hannes og bætir við að í alþjóðlegum samanburði þurfi að draga frá umsaminn eigin tíma starfsmanna. Sambærilegur alþjóðlegur samanburður á vinnutíma verður að byggjast á vinnutíma í raun (e. actual hours of work) þar sem neysluhlé (e. mail meal breaks) eru ekki meðtalin. „Með því að draga ekki frá eigin tíma starfsmanna er verið að ýkja hversu langur vinnutíminn er.“

Hann segir að þegar vinnutímamálin séu skoðuð komi í ljós að umsaminn ársvinnutími á Íslandi sé með því stysta sem þekkist meðal þeirra landa sem við berum okkur saman við. Umsaminn ársvinnutími er einungis styttri í Frakklandi sem er eina landið í heiminum sem hefur lögfest 35 klukkustunda vinnuviku.

Yf­ir­vinna stór hluti vinnu­tíma

Hannes bendir jafnframt á að stór hluti vinnutíma á Íslandi sé greiddur í formi yfirvinnu. „Það kann að hluta til að stafa af því að það sem er greitt sem yfirvinna hér á landi sé greitt sem dagvinna í öðrum löndum. Það eigi rætur sínar í skilgreiningum kjarasamninga á dagvinnu- og yfirvinnutímabilum,“ segir hann og bætir við að í kjaraviðræðum síðastliðið vor hafi verið rætt um að auka vægi dagvinnulauna á kostnað yfirvinnugreiðslna. „Í því felst að reglur um vinnutíma verði gerðar sveigjanlegri.“

Að sögn Hannesar er 1-3% launagreiðslna í Danmörku og Noregi yfirvinnugreiðslur en hér á landi eru þær 15% launagreiðslna.

„Þegar kjarasamningar eru bornir saman milli landa eru dagvinnu- og yfirvinnutímabil skilgreind á mjög mismunandi hátt. Hægt er að breyta þessum ákvæðum hér á landi þannig að meira verði greitt í dagvinnu og minna í yfirvinnu. Þannig væri yfirvinnuálagið að hluta fært inn í dagvinnugrunninn, það var hugmyndin sem var rædd,“ segir Hannes og bætir við að gerð hafi verið bókun um að þess yrði freistað að þróa kjarasamninga í þessa átt.

Launa­kostnaður myndi hækka um 14%

Hannes segir að það myndi hafa gífurlegar afleiðingar ef löggjafinn stytti vikulegan vinnutíma með neysluhléum úr 40 stundum í 35 stundir án skerðingar vikulauna því því það myndi valda 14% hækkun á launakostnaði.

„Ég tel að  löggjafinn hafi mikilvægari málum að sinna en að vaða inn í kjarasamninga og hækka launakostnað tilefnislaust. Kjarasamningar snúast um að skilgreina og  deila út svigrúmi til hækkunar á launakostnaði atvinnulífsins. Ef löggjafinn lögfestir 14% hækkun á launakostnaði hefur það óhjákvæmilega mikil áhrif á verðbólgu, vexti og gengi krónunnar,“ segir Hannes. „Lögfesting þessa frumvarps væri mjög stór efnahagsaðgerð sem hefði alvarlegar afleiðingar fyrir allt atvinnulífið og stöðugleika í samfélaginu og verðtryggð lán og vaxtakostnaður heimilanna myndu rjúka upp.“

Hann segir að í frumvarpinu felist atlaga að samkeppnishæfni atvinnulífsins. „Frumvarpið er órökstutt og sem dæmi um umfjöllun í greinargerð er notað orðalag á borð við „margt bendir til“ og „víðs vegar er verið að skoða“. Þessi ómálefnalega atlaga að samkeppnishæfni atvinnulífsins er ekki boðleg.“

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA.
Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA.
Hannes segir að styttri vinnuvika myndi hafa óhjákvæmileg áhrif á …
Hannes segir að styttri vinnuvika myndi hafa óhjákvæmileg áhrif á verðbólguna. Ljósmynd/Guðmundur Rúnar Guðmundsson
Lögfesting frumvarpsins myndi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir allt atvinnulífið og …
Lögfesting frumvarpsins myndi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir allt atvinnulífið og stöðugleika í samfélaginu að mati Hannesar. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert