Vandi sem stjórnvöld verði að taka á

Könnun Ríkisendurskoðunar leiðir enda í ljós að skuldir stofnana hafa …
Könnun Ríkisendurskoðunar leiðir enda í ljós að skuldir stofnana hafa enn vaxið frá árinu 2011, námu samtals tæplega 25 milljörðum króna í árslok 2014. Ernir Eyjólfsson

Ríkisendurskoðun segir að taka þurfi skuldamál ríkisstofnana föstum tökum, en skuldir ríkisstofnana hafa vaxið verulega undanfarin ár. Ríkisendurskoðun hvetur stjórnvöld til að bregðast við þessum vanda.

Fram kemur á vef stofnunarinnar, að árið 2012 hafi Ríkisendurskoðun birt skýrslu um eftirlit ráðuneyta með skuldum og fjármagnskostnaði stofnana sinna. Fram kom að heildarskuldir stofnana hefðu aukist verulega á tímabilinu 2007–11, einkum skuldir þeirra við ríkissjóð. Samtals námu skuldir stofnana rúmum 20 milljörðum króna í árslok 2011.

Þá segir, að meginniðurstaða skýrslunnar hafi verið sú að eftirliti ráðuneytanna með þessum málum væri ábótavant. Af þessu tilefni beindi Ríkisendurskoðun fjórum ábendingum til fjármála- og efnahagsráðuneytis og Fjársýslu ríkisins:

Ráðuneytið var hvatt til að

  • efla eftirlit sitt með efnahag ríkisstofnana og móta samræmdar reglur um viðbrögð við skuldasöfnun þeirra.
  • fylgja því eftir að fagráðuneyti sinntu betur eftirliti með fjárreiðum undirstofnana sinna.                                                  

Fjársýslan var hvött til að

  • fylgja því eftir að ríkisstofnanir færðu bókhald sitt í samræmi við reglur þannig að það gæfi ávallt sem réttasta mynd af fjárhagsstöðu þeirra.
  • gera skýra kröfu um að stofnanir fylgdu reglum um færslu vörslufjár og endurgreiðslu á handbæru fé.

„Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að nú þremur árum síðar hafa mál þróast með þeim hætti að ekki þykir ástæða til að ítreka þessar ábendingar. Þar vegur einna þyngst væntanleg samþykkt frumvarps til laga um opinber fjármál, sem nú er til umfjöllunar á Alþingi, en í því felast margháttaðar umbætur á fjármálastjórn hins opinbera.

Engu að síður hvetur Ríkisendurskoðun fjármála- og efnahagsráðuneytið og Fjársýsluna til að taka þessi mál föstum tökum. Könnun Ríkisendurskoðunar leiðir enda í ljós að skuldir stofnana hafa enn vaxið frá árinu 2011, námu samtals tæplega 25 milljörðum króna í árslok 2014. Á þessu tímabili fóru skuldir stofnana við ríkissjóð raunar lækkandi en aðrar skuldir, s.s. við birgja, hækkuðu um tæplega 5 milljarða króna eða 38%. Að mati Ríkisendurskoðunar er þetta áhyggjuefni,“ segir Ríkisendurskoðun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert