Bandarísk heimildamynd um íslenska jógastöð

Sólveig Þórarinsdóttir segist vera gríðarlega þakklát fyrir þær frábæru viðtökur …
Sólveig Þórarinsdóttir segist vera gríðarlega þakklát fyrir þær frábæru viðtökur sem jógastöð hennar, Sólir, hefur fengið. Mbl.is/ Eggert Jóhannesson

Bandarískt teymi í samvinnu við Íslenska framleiðslufyrirtækið Silent er nú statt á Íslandi til þess að taka upp heimildarmynd um Sólir, jógastöð sem opnaði í vor úti á Granda. Heimildarmyndin fjallar um jógakennara sem hafa fylgt köllun sinni og náð gífurlegum árangri á sínu sviði. 

Sagan heillaði 

Eigandi Sóla, Sólveig Þórarinsdóttr segir að hún sé mjög þakklát fyrir að hafa verið valin til þáttöku í heimildarmyndinni sem heitir Yoga Graduates - Success Stories. „Í umsóknarferlinu fengum við tækifæri til þess að segja aðeins frá okkar sýn og hvernig við vildum verða leiðandi í því að byggja upp jógamenningu á Íslandi.   En þessi saga þar sem látið er af þörf fyrir neyslu og peninga í skiptum fyrir hófsamari lífstíl og almennt heilbrigði virðist alltaf ná til fólks," segir hún og brosir.  

Sólveig starfaði við verðbréfamiðlun í mörg ár en ákvað svo að hún ætlaði að umbreyta lífi sínu. „Ég þurfti að taka smá „time out“ eftir tíu ára skeið þar sem ég var í námi, vinnu og eignaðist þrjú börn á fimm árum. Ég féll fyrir heitu jóga, fór til Asíu til að afla mér kennsluréttinda og byrjaði að kenna hér á Íslandi. Í kjölfarið gaf ég út bókina Jóga fyrir alla sem fékk frábærar viðtökur og hef unnið hörðum höndum að því að opna nýju jógastöðina mína, Sólir sem er einstök hér á landi. Ég er mjög stolt af henni.“

Jógastöðin er staðsett í gömlu fiskvinnsluhúsnæði úti á Granda og …
Jógastöðin er staðsett í gömlu fiskvinnsluhúsnæði úti á Granda og hefur mikið verið lagt í hönnun hennar. Mbl.is/ Eggert Jóhannesson

Vitundarvakning á Íslandi

Sólir er nútímaleg jógastöð staðsett úti á Granda í gömlu fiskvinnsluhúsnæði en þar er boðið upp á margar tegundir af jóga. Sólveig segist gríðarlega þakklát fyrir þær frábæru viðtökur sem stöðin hefur fengið. „En við erum samt sem áður mjög meðvituð um það að það þurfi að halda vel utan um reksturinn til að tryggja áframhaldandi velsæld og vöxt til framtíðar.“

Hún telur mikla vitunarvakningu vera um jóga hér á landi. „Við Íslendingar erum almennt mjög opin og tilbúin í nýjungar. Hins vegar höfum við alltaf verið ákaflega líkamsmiðuð þegar það kemur að heilsurækt og ekki horft á stóra samhengið, það er að segja,  að sameina andlega og líkamlega iðkun.“

Spurð hver sé sérstaða Sóla sem jógastöð segir hún það án efa vera fjölbreytileikann sem þar ríkir.  „Við bjóðum upp á allt undir sólinni þegar það kemur að tegundum jóga auk þess sem við bjóðum upp á vettvang sem er nærandi í alla staði, hér erum við með lífrænar og hreinar veitingar frá Systrasamlaginu, við bjóðum upp á hugleiðslu, næringarráðgjóf og markþjálfun. Auk þess erum við öðruvísi, húsakynni okkar eru sérstök og andrúmsloftið einstakt. Við erum afar ólík hefðbundum líkamsræktarstöðvum hvað varðar nánast allt og laus við þetta aukna áreiti sem einkennir nútímasamfélag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert