450 ofbeldismál á níu mánuðum

Heimilisofbeldi er dauðans alvara, segir Alda Hrönn Jóhannsdóttir
Heimilisofbeldi er dauðans alvara, segir Alda Hrönn Jóhannsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frá því lögreglan á höfuðborgarsvæðinu setti heimilisofbeldismál í forgang og samningur þar að lútandi var undirritaður um miðjan janúar hafa 450 slík mál komið til kasta lögreglunnar, eða 50 mál á mánuði. Það er svipaður fjöldi og á heilu ári á Suðurnesjum. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði málunum úr 20 í 50 þegar átakið hófst.

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögregluþjónn hjá lögreglustjóraembættinu á höfuðborgarsvæðinu, flutti erindi um heimilisofbeldi á ráðstefnunni Fjölskyldan og barnið sem kvenna- og barnasvið Landspítalans stóð fyrir á föstudag.

Hún segir að fá heimilisofbeldismál hafi náð framgöngu í réttarkerfinu og það hafi verið ein af ástæðunum fyrir því að lögreglan á Suðurnesjum ákvað að leggja aukna áherslu á þennan málaflokk fyrir nokkrum árum. Því þrátt fyrir að búið væri að setja lög um nálgunarbann og brottvísun af heimili árið 2011 þá var þeim sárasjaldan beitt því ofbeldinu var ekki fylgt eftir af hálfu lögreglu og félagsmálayfirvalda.

Heimilisofbeldi er dauðans alvara

Hún segir heimilisofbeldi vera dauðans alvöru og oft hafi það verið þannig að þolendur hafi ekki fengið þá aðstoð sem þeir þurfa á að halda. Frá árinu 2003 hafi verið skráð 18 manndráp á Íslandi, 60% þeirra megi skilgreina sem heimilisofbeldi og í rúmlega 40% tilvika hafi verið um aðila að ræða sem áttu í nánu sambandi. „Ísland er ekkert einsdæmi hér – staðan er svipuð annars staðar í heiminum. „Bara ef við gætum komið í veg fyrir eitt þá er stórum áfanga náð.“

Alda Hrönn segir að samkvæmt tölum lögreglunnar séu karlar 86% gerenda í heimilisofbeldismálum og konur 81% þolenda. 77% þeirra sem eru gerendur og þolendur séu íslenskir. Í 72% tilvika sé sá sem beiti ofbeldinu maki eða fyrrverandi maki og í 64% tilvika séu börn á heimilinu.

Hún segir að það sé algengur misskilningur foreldra að börnin séu sofandi þegar slíkt ofbeldi á sér stað á heimilinu því yfirleitt séu börnin vakandi þó svo þau þykist sofa. Ofbeldið er framið alla daga vikunnar og oftast á milli klukkan 18 og 23. Meirihluti þolenda og gerenda er á aldrinum 18-39 ára.

Þegar kemur að refsirammanum þá er hann sá sami fyrir einni stakri árás á skemmtistað eða ef þú  býrð við langvarandi ofbeldi á heimili þínu. Það eru sektir eða fangelsi allt að þremur árum. Alda Hrönn segir að markmiðið með verkefninu sé að tryggja öryggi borgaranna og koma í veg fyrir ítrekuð brot. Rannsóknir sýni að í 70% tilvika sé um ítrekuð brot og oftast séu um yfir 30 ofbeldistilvik að ræða í þeim málum sem koma til kasta lögreglunnar.

Ein af hverjum fimm barnshafandi konum er beitt ofbeldi

Ofbeldi sé allt of algengt á meðgöngu og oft hefst heimilisofbeldi á meðgöngu. Ein af hverjum fimm barnshafandi konum er beitt ofbeldi, segir Alda Hrönn og vísar þar í rannsóknir. Hún segir að þær séu fjórum sinnum líklegri til þess að vera beittar alvarlegu ofbeldi ef ofbeldið er framið á meðgöngu. 30-40% giftra kvenna sem verða fyrir ofbeldi á heimili segja að ofbeldið hafi hafist á meðgöngu. Ofbeldið gagnvart barnshafandi konum beinist einkum gegn kvið, brjóstum og kynfærum þeirra, að því er fram kom í fyrirlestri Öldu Hrannar.

mbl.is/G.Rúnar
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögregluþjónn hjá lögreglustjóraembættinu á höfuðborgarsvæðinu
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögregluþjónn hjá lögreglustjóraembættinu á höfuðborgarsvæðinu mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert