Serían varð geitinni að falli

Jólageitin við IKEA í Kauptúni í Garðabæ fuðraði upp á þremur mínútum eftir að eldur kom upp í henni eftir hádegi í dag. Talið er kviknað hafi í út frá rafmagni, þ.e. ljósaseríum á geitinni. Vinna við smíði nýrrar geitar er þegar hafin og vonast framkvæmdastjóri verslunarinnar til að hægt verði að koma henni upp fyrir næstu helgi.

Í myndskeiði sem fylgir neðst í fréttinni má sjá geitina brenna. 

„Þetta er hluti af ímynd okkar á svæðinu, hún er mjög falleg svona uppljómuð. Þetta er tákn fyrir IKEA og Kauptún, okkar jólatré. En geitin mun rísa eins og Fönix upp úr öskunni,“ segir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi. Tjónið er töluvert, bæði tilfinningalegt og fjárhagslegt, og má sem dæmi nefna að serían á geitinni kostar um eina milljón króna.

Frétt mbl.is: Jólageitin brunnin

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem jólageitin sem komið hefur verið fyrir við verslunina ár hvert síðustu ár verður eldi að bráð. Þá hefur hún einnig lotið í lægra haldi fyrir veðri og vindum.

Starfsfólki IKEA þykir vænt um geitina og hún er líklega sú eina hér á landi sem gætt er af öryggisvörðum allan sólarhringinn. Í kringum geitina er rafmagnsgirðing og þá er öryggismyndavél beint að geitinni.

Að sögn Þórarins fuðraði geitin upp á svipstundu, eða um þremur mínútum. Við fyrstu athugun bendir flest til þess að kviknað hafi í út frá rafmagni í ljósaseríu á geitinni. Búið er að fara yfir myndir úr öryggismyndavélinni og benda þær ekki til þess að skemmdarvargar hafi náð til geitarinnar.

Þórarinn segir örlög geitarinnar vissulega sorgleg en þó sé huggun gegn harmi að ekki hafi verið kveikt í henni. Vinna við gerð nýrrar geitar er þegar hafin og vonast Þórarinn til þess að búið verði að koma henni fyrir við verslunina fyrir helgi.

Jólageitin í ljósum logum í dag.
Jólageitin í ljósum logum í dag. Ljósmynd/Sigurður Eiríksson
Jólageit í Gävle í Svíþjóð.
Jólageit í Gävle í Svíþjóð. Af vef Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert