„Staðráðin í að leita réttar síns“

Landspítali háskólasjúkrahús.
Landspítali háskólasjúkrahús. mbl.is/Ómar

Thi Thuy Nguyen fékk í dag dvalarleyfi á Íslandi, en Útlendingastofnun hafði áður talið að hjónaband hennar og eiginmanns hennar, Van Hao Do, væri aðeins til málamynda og hafði því verið synjað um leyfið áður. Þetta staðfestir lögmaður hjónanna, Björg Valgeirsdóttir, í samtali við mbl.is, en gengið verður formlega frá útgáfu leyfisins á morgun. Þá kærðu þau í dag til Persónuverndar leka á upplýsingum frá Landspítalanum til Útlendingastofnunar. Fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Telur að ríkið eigi að bæta tjón hjónanna

í gögn­um máls þeirra hjá Útlend­inga­stofn­un kemur fram að upp­lýs­ing­ar hafi borist í sím­tali frá Land­spít­al­an­um um hátta­lag hjónanna, en Björg segir það vera brot á friðhelgi einkalífs og óheimila miðlun upplýsinga um skjólstæðing hennar.

Frétt mbl.is: Kæra leka Landspítalans

Spurð hvort málið verði tekið lengra og kært til lögreglu eða farið í einkamál segist Björg ekki útiloka að grundvöllur sé fyrir einkamáli, en það fari eftir því hver niðurstaða Persónuverndar verði. Telur hún að ríkið eigi að bæta þeim það tjón sem þau hafi orðið fyrir í tengslum við málið.

Farsæll endir á dvalarleyfismálinu

Varðandi kæru til lögreglu segir hún að slíkt sé í athugun, en ef rétt reynist sé um mjög alvarlegt brot sé að ræða, bæði hjá heilbrigðisstarfsfólki og vitnar hún þar í 230. gr almennra hegningarlaga sem er svohljóðandi: „230. gr. Ef maður, sem hefur eða haft hefur með höndum starf, sem opinbera skipun, leyfi eða viðurkenningu þarf til að rækja, segir frá einhverjum einkamálefnum, sem leynt eiga að fara og hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu, þá varðar það sektum eða [fangelsi allt að 1 ári]. Sömu refsingu varðar einnig sams konar verknaður þeirra manna, sem aðstoðað hafa ofangreinda menn í starfi þeirra.“

„Þetta er farsæll endir á dvalarleyfismálinu, en þau eru staðráðin í að leita réttar síns á lekanum sem er mjög alvarlegur,“ segir Björg. Bætir hún við að mikil gleði ríki hjá umbjóðendum sínum í dag og léttirinn sé mikill. „Hún hefur ekki getað stundað vinnu eða séð sér eða fjölskyldu sinni farboða meðan hún var ekki með dvalarleyfi,“ segir Björg.

Þungbært fyrir hjónin

Segir hún þungbært fyrir umbjóðendur sína að vera hafða fyrir þessari sök, „sem byggir á ólöglega miðluðum gögnum eða ágiskunum sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum,“ segir Björg að lokum, en málið sem hafði verið í gangi í 16 mánuði var snögglega afgreitt eftir að fjölmiðlar tóku það upp í síðustu viku.

Björg Valgeirsdóttir, lögmaður hjónanna.
Björg Valgeirsdóttir, lögmaður hjónanna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert