Hafa ekki heimild til að mismuna

Ein hjúskaparlög urðu að veruleika árið 2010.
Ein hjúskaparlög urðu að veruleika árið 2010. mbl.is/Gollo

Biskup Íslands telur ótækt að túlka hjúskaparlögin á þann máta að prestar þjóðkirkjunnar hafi heimild til að mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar. Mun hún aldrei sem biskup landsins gera tillögu að reglum sem hafa þær afleiðingar að einstaklingum sé mismunað.

Þetta er meðal þess sem kom fram í fyrri umræðu á kirkjuþingi þjóðkirkjunnar í gær um ályktun sem felst í því að opinberum embættismönnum þjóðkirkjunnar sé ekki heimilt að synja tveimur einstaklingum um hjónavígslu á grundvelli kynhneigðar uppfylli þeir lögformleg skilyrði þess að ganga í hjúskap að öðru leyti, eða að hið svokallaða samviskufrelsi opinberra embættismanna þjóðkirkjunnar verði afnumið.

Frétt mbl.is: Prestar vilja afnema samviskufrelsi

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir, flutningsmaður ályktunarinnar og prestur í Grafarvogskrirkju, lagði hana fram á kirkjuþingi í gær og fer seinni umræða fram í dag auk þess sem kosið verður um ályktunina. Las hún meðal annars upp úr bréfi sem biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, sendi Ólöfu Nordal innanríkisráðherra fyrir hálfum mánuði.

Tilefni til að setja nánari reglur?

Í nýlegu svari innanríkisráðherra við skriflegri fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, varaþingmanns Vinstri grænna kom fram að innanríkisráðuneytið geti sett reglur um skyldu vígslumanna þjóðkirkjuna en hafi ekki nýtt sér þá lagaheimild en þessar upplýsingar voru fengnar úr greinargerð Biskupsstofu.

Frétt mbl.is: Prestar megi ekki mismuna

Í svari innanríkisráðuneytisins kom að auki fram að ráðuneytið telji að tilefni sé til að kalla eftir tillögum frá biskupi um það hvenær prestum sé skylt að framkvæma hjónavígslu og hvenær þeim sé það heimilt. Svar innanríkisráðherra var tilefni bréfaskrifta biskups.

Árið 2008 samþykkt Alþingi lög um staðfesta samvist. Tveimur árum síðar voru lögin aftur á móti felld út og ein hjúskaparlög urðu að veruleika, nú var ekki tekið tillit til kynhneigðar hjónaefna.

Í athugasemdum með frumvarpinu sagði að nefnt hefði verið til álita að prestur megi neita að vígja hjónaefni ef hann telur slíkt andstætt samvisku sinni og sannfæringu. Vísað var til ákvæða í dönskum, norskum og sænskum rétti.

„Eins og áður sagði þá byggist heimild kirkjulegra vígslumanna til að staðfesta samvist samkvæmt breytingalögum nr. 55/2008 á því að prestur muni ekki synja af öðrum ástæðum en vegna trúarsannfæringar sinnar. Telja verður að þessi túlkun fari saman við túlkun á 16. og 17, grein, sbr. 22. gr. hjúskaparlaga og heimild presta til að vígja fólk af sama kyni í hjúskap verði því með sama sniði og heimild þeirra til að staðfesta samvist.

Ekki þykir ástæða til að leggja til lagabreytingar um þessi atriði en hvetja má til þess að ráðuneytið skoði að höfðu samráði við biskup og jafnvel fleiri hvort ástæða sé til að setja nánari reglur á grundvelli 22. grein hjúskaparlaga.“

Gefi engan afslátt af mannréttindum

„Í dag er aðeins verið að hnykkja á því sem lög kveða á um. Í dag er ekkert í lögum sem heimilar prestum að neita fólki um hjónavígslu á grundvelli kynhneigðar og biskup hefur sagt að hún muni ekki setja reglur sem heimila prestum að neita að gefa saman fólk á þessum forsendum,“ sagði Guðrún. Því næst las hún úr bréfinu sem biskup innaríkisráðherra fyrir um tveimur vikum:

„Hjúskaparlögin eru skýr að því leyti að heimild til hjúskapar hafa tveir einstaklingar sem náð hafa átján ára aldri. Ekki er lengur tilgreint að um konu og karl þurfi að vera um að ræða eins og í eldri hjúskaparlögum. Ég tel ótækt að unnt sé að túlka lögin á þann máta að prestar þjóðkirkjunnar hafi heimild til að mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar.

Verði kallað eftir tillögu biskups Íslands um málið mun ég í þjónustu minni sem biskup Íslands aldrei gera tillögu að reglum sem hafa þær afleiðingar að einstaklingum sé mismunað. Kirkjan er farvegur kærleika Krists og fagnar lífinu í öllum sínum fjölbreytileika. 

Slíkur kærleikur getur aldrei átt samleið með fordómum, mismunun eða sundurlyndi. Ég vænti þess að einhugur ríki okkar í milli um skýra löggjöf og reglur á þann máta að skyldur þjóðkirkjunnar til þjónustu við alla óháð kynhneigð séu hafnar yfir allan vafa.“

Því næst sagði Guðrún að árið 2010, þegar ein hjúskaparlög voru samþykkt, hafi prestar tekið þátt í að vinna að því að þau yrðu gerð að veruleika með miklum stuðningi við frumvarpið.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni sem varð að lögum árið 2010 er vitnað í ályktun frá kirkjuþingi árið 2007 þar sem fram kemur að prestum sé ekki skylt að gefa samkynja pör í hjónaband.

„Kirkjuþing lýsir stuðningi við meginatriði ályktunar kenningarnefndar um Þjóðkirkjuna og staðfesta samvist og stendur við hefðbundinn skilning á hjónabandinu sem sáttmála karls og konu. Ef lögum um staðfesta samvist verður breytt þannig að trúfélög fái heimild til að staðfesta samvist þá styður Kirkjuþing það að prestum Þjóðkirkjunnar, sem eru vígslumenn að lögum, verði það heimilt. Kirkjuþing leggur áherslu á að frelsi presta í þessum efnum verði virt.“

„Þessi ályktun hefur haft áhrif á anda laganna og skilning margra á þeim og gefur þau skilaboð að ekki sé sjálfsagt að prestar gefi saman samkynhneigð pör. Það er þess vegna sem það er mjög mikilvægt að kirkjuþing árið 2015 samþykki þessa tillögu.

Prestar hafa undanfarið vísað í frelsi samviskunnar þegar rætt er um að þeir eigi að fá undanþágu frá þessum lögum en það getur ekki talist rétt að nýta frelsi samviskunnar til að mismuna fólki því frelsi einstaklings til að vera ekki mismunað hlýtur að vera ríkari frelsi einstaklings, og hvað þá embættismanns, til þess að mismuna.

„Nú er kominn tími til að við göngum alla leið og gefum engan afslátt af mannréttindum og tökum undir með biskupi Íslands í þessu máli þegar hún segir að hún muni ekki gera tillögur að reglum sem hafa þær afleiðingar að einstaklingum sé mismunað,“ sagði Guðrún að lokum.

Nokkrir tóku til máls um ályktunina, þar á meðal biskup Íslands, sr. Vigfús Bjarni Albertsson og  Jónína Bjartmarz. Þá stigu sr. Kristján Valur Ingólfsson, sr. Geir Waage og sr. Sólveig Lára Guðmundsdóttir einnig í pontu og verður hér stikað á stóru í þeirra umræðu. 

Of seint að setja reglurnar

Sr. Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti, sagði að of seint væri að setja reglur sem innanríkiráðherra vísaði í í svari sínu til þingmannsins. „Það var ekki gert, þessar reglur eru ekki til og þær verða heldur eki settar. Í fyrsta lagi vegna þess að það er of seint, ef það átti að gera það strax en það er of seint núna,“ sagði hann.

Sagði hann einnig að enn væri töluverður hópur innan þjóðkirkjunnar sem hefði þá skoðun að hjónaband ætti aðeins að vera á milli karls og konu. Sagði Kristján að honum finndist að sá hópur mætti alveg hafa þá skoðun.

Velti Kristján fyrir sér hvernig þjóðkirkjan ætti að bregðast við ef prestar neiti að gefa saman samkynja par samvisku sinnar vegna, hvort þetta væri brottrekstrarsök.

„Ég hef ekkert á móti þessari tillögu, tel að það sé alveg ótvírætt að við förum að lögum. Það er alveg ljóst að allt sem við myndum gera til að tefja hlutina myndi líta illa út fyrir okkur. Það er bara spurning hvernig við segjum hlutina og hvort við segjum það sem við meinum,“ sagði Kristján einnig.

Getum öll skipt um skoðun

Sr. Geir Waage, sóknarprestur í Reykholtsprestakalli, sagðist vitaskuld styðja málið, þ.e. hann hljóti að styðja biskupinn til þess að fara að lögum.

„Einkum og sér í lagi í ljósi þess að mér er alveg kunnugt hver er skoðun biskups Íslands í þessu máli, með leyfi forseta, þá hefur biskupinn, það er að segja kandíatinn til biskupskjörs síðast, sóknarprestur þá í Bolungarvík, svarað þessum spurningum,” sagði Geir og vísaði til tveggja spurninga sem kandítatar til biskupskjörs voru spurðir. 

Eiga prestar að vera vígslumenn hjúskapar eða á hjónavígsla að fara fram hjá veraldlegum embættismanni? Svar Agnesar: Stundum hefur hvarflað að mér að betra væri að veraldlegir aðilar önnuðust hinn lögformlega gjörning. Þá kæmu aðeins í kirkju hjón sem vildu fá fyrirbæn og blessun.

Ertu hlynn/tur hjúskap folks af sama kyni? Ef svo er, á að þvinga presta til að framkvæma hjónavígslur af því tagi eða á að virða samviskufrelsi þeirra? Svar Agnesar: Ef fólk er samkynhneigt þá leiðir það af sjálfu sér að það vill vera í hjúskap einstaklings af sama kyni. Það á EKKI að þvinga presta til þess að framkvæma hjónavígslur af því tagi. Það Á AÐ virða samviskufrelsi þeirra.

Sagðist Geir einnig vera sammála biskupi um þessi atriði.

Sr. Sólveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum, tók þá til máls og benti á að á prestastefnu árið 2007 hefðu um fjörtíu prestar þjóðkirkjunnar stutt hjónaband samkynja para.

„Síðan hafa yfir hundrað prestar skipt um skoðun og ég geri ráð fyrir því að við getum öll áskilið okkur rétt til að skipta um skoðun og ég geri ráð fyrir að það hafi einmitt gerst í tilfelli biskups Íslands, að hún hafi skipt um skoðun,“ sagði Sólveig.

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir er flutningsmaður ályktunarinnar.
Sr. Guðrún Karls Helgudóttir er flutningsmaður ályktunarinnar. Ljósmynd/Grafarvogskirkja
Agnes mun aldrei sem biskup landsins gera tillögu að reglum …
Agnes mun aldrei sem biskup landsins gera tillögu að reglum sem hafa þær afleiðingar að einstaklingum sé mismunað. AFP
Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, skrifaði innanríkisráðherra bréf fyrir tveimur vikum.
Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, skrifaði innanríkisráðherra bréf fyrir tveimur vikum.
Sr. Guðrún Karls Helgudóttir segir að ekki eigi að gefa …
Sr. Guðrún Karls Helgudóttir segir að ekki eigi að gefa afslátt af mannréttindum. Ómar Óskarsson
Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti var meðal þeirra sem …
Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti var meðal þeirra sem tóku til máls í gær.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert