Lögreglan nánast hætt að sekta

Lögreglumenn stunda enn eftirlit en eru lítið að sekta.
Lögreglumenn stunda enn eftirlit en eru lítið að sekta. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Í þessum mánuði hafa 59 umferðarlagabrot verið kærð til embættis ríkislögreglustjóra en meðaltal kæranna í október árin 2010-2014 eru 1625 kærur. Samkvæmt heimildum mbl.is eru lögreglumenn hættir að sekta fyrir flest umferðarlagabrot og er frumkvæðisvinna lítil sem engin.

Í september sl. voru kærurnar 574 talsins en fyrir september árin 2010-2014 voru kærurnar að meðaltali 1617 talsins.

Samkvæmt heimildum mbl.is eru þessar aðgerðir skýr hluti af kjarabaráttu lögreglumanna sem hafa ekki verkfallsrétt. Landssamband lögreglumanna er nú í samfloti við SFR og Sjúkraliðafélag Íslands í viðræðum við ríkið.

Frá því í september hafa ökumenn ekki verið sektaðir fyrir almenn umferðarlagabrot eins og of hraðan akstur, notkun vanbúinna bíla í umferðinni, að tala í farsíma undir stýri og ekki nota bílbelti. Eftirlitið er þó enn í gangi en fáir eru sektaðir.

Enn eru ölvunarakstursbrot kærð til embættis ríkislögreglustjóra og sektuð samkvæmt heimildum mbl.is og er því líklegt að stór hluti af þeim 59 brotum sem kærð hafa verið í þessum mánuði snúi að ölvunarakstri.

Flestar sektir í umferðinni eru upp á 10 til 15 þúsund krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert