Refsað fyrir að kæra nauðgunina

Athygli vakti að aðrar stúlkur í bæjarfélögunum voru einna virkastar …
Athygli vakti að aðrar stúlkur í bæjarfélögunum voru einna virkastar í að refsa stúlkunum. Ljósmynd/NN – norden.org

Tvær stúlkur á unglingsaldri sem eiga það sameiginlegt að hafa búið í litlu bæjarfélagi hér á landi og kært nauðgun uppskáru harða refsingu fyrir vikið. Fólst hún meðal annars í beinni vandlætingu; svipum, hunsun og fúkyrðum, urðu þær fyrir illu umtali, þær voru útskúfaðar og önnur þeirra varð ítrekað fyrir líkamlegu ofbeldi.

Þetta kemur fram í niðurstöðum Guðrúnar Katrínar Jóhannesdóttur, meistaranema í félagsfræði. Hún vinnur að meistararitgerð um efnið og mun kynna niðurstöður sínar í Þjóðarspegli Háskóla Íslands á föstudaginn og ber erindi hennar heitið Að kæra nauðgun í litlu bæjarfélagi.

Markmið rannsóknarinnar er að skoða þau félagslegu ferli sem farið geta af stað þegar nauðgun er kærð innan lítils bæjarfélags á Íslandi. Rannsóknin skoðar bæði reynslu stúlkna sem kært hafa nauðgun og viðbrögð bæjarbúa við kærunni.

Um er að ræða tilviksrannsókn (case study), og voru tvö mál skoðuð. Gagnasöfnun fór fram með viðtölum. Þátttakendur voru tvær konur sem kært höfðu nauðgun þegar þær voru á unglingsaldri. Jafnframt voru tekin viðtöl við einstaklinga sem bjuggu í bæjarfélaginu þegar atburðurinn átti sér stað.

Mótmælið hrakti þær úr bænum

„Það varð til ákveðin liðamyndun. Þær fundu lítinn sem engan stuðning á meðan íbúarnir, stór hluti bæjarbúa, þjöppuðu sér saman utan um gerendurna. Þeir sýndu þeim og þeirra fjölskyldu stuðning, vorkenndu gerendum fyrir að verið væri að kæra þá, ljúga upp á þá,“ segir Guðrún Katrín í samtali við mbl.is. Mótlætið hófst fljótlega eftir að út spurðist í bæjarfélögunum að þær hefðu kært nauðgun.

Fáir tóku afstöðu með konunum tveimur og segir Guðrún Katrín að þeir sem trúðu konunum hafi ekki þorað að láta það í ljós af ótta við að verða sjálfir fyrir aðkasti. Athygli vakti að aðrar stúlkur í bæjarfélögunum voru einna virkastar í að refsa stúlkunum, segir hún. Segist Guðrún Katrín ekki vita af hverju stúlkurnar voru forsprakkarnir en það sé eitthvað sem væri hægt að rannsaka síðar.

Stúlkurnar voru báðar á unglingsaldri þegar þær kærðu nauðgun og urðu í framhaldinu fyrir aðkasti. Þær eiga það sameiginlegt að hafa búið í litlum bæjarfélögum en flutt þaðan vegna þess mótlætis sem þær upplifðu. „Þær fluttu báðar, þær gátu ekki hugsað sér að vera þarna lengur,“ segir Guðrún Katrín að lokum.

Guðrún Katrín Jóhannesdóttir, meistaranemi í félagsfræði
Guðrún Katrín Jóhannesdóttir, meistaranemi í félagsfræði Úr einkasafni.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert