Bjóði 55 flóttamönnum til landsins

Hópurinn er fjölbreyttur. 21 fullorðinn og 34 börn.
Hópurinn er fjölbreyttur. 21 fullorðinn og 34 börn. AFP

Flóttamannanefnd leggur til að 55 sýrlenskum flóttamönnum verði boðið að koma hingað til lands. Fólkið dvelur nú í flóttamannabúðum í Líbanon. Í hópnum eru meðal annars  verkfræðingur, málari og þýðandi. Helmingur fólksins fer til Akureyrar, einn fjórði til Hafnarfjarðar og jafn stór hluti til Kópavogsbæjar.

Nefndin sendi fyrr í haust erindi til flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna þar sem óskað var eftir því að taka á móti svokölluðum kvótaflóttamönnum. Svar barst nýlega með upplýsingum um 63 Sýrlendinga.

Frétt mbl.is: Hafa fengið gögn um 13 fjölskyldur

„Að þessu sögðu er ekki víst að fólkið þiggi boðið en þá tökum við einhverja aðra. Þessi hópur samanstendur af 21 fullorðnum og 34 börnum. Þetta er mjög fjölbreyttur hópur, þarna er til dæmis pípulagningarmaður, rafvirki, verkfræðingur, verkamenn, barþjónn, húsmæður, málari, maður með háskólapróf í enskum bókmenntum, túlkur og þýðandi. Við bindum miklar vonir við það að það muni ganga vel að koma fólki inn í íslenskt samfélag,“ segir Stefán Þór Björnsson, formaður flóttamannanefndar, í samtali við mbl.is.           

Sveitarfélögin munu sinna félagsþjónustu og sálgæslu. „Það er okkar reynsla að það tekur fólk yfirleitt eitt ár að jafna sig það mikið að það geti farið að leita til sálfræðinga. Í hópnum eru nokkrir einstaklingar sem hafa þurft að þola pyntingar,“ segir Stefán Þór. Von er á fólkinu seint í desember, væntanlega fyrir jól.

Í svari Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna voru upplýsingar um 63 flóttamenn en flóttamannanefnd leggur til að 55 flóttamönnum verði boðið að koma hingað til lands.

„Það er bara venjan að þegar lönd óska eftir að taka inn hópa þá er yfirleitt sent aðeins meira af upplýsingum. Það eru aðeins fleiri þannig að viðtökulandið geti að einhverju leyti ákveðið hvaða fólk það vill fá,“ segir Stefán Þór.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert