Leituðu manns sem sat í einangrun

Maðurinn situr í gæsluvarðhaldi og einangrun á Litla-Hrauni.
Maðurinn situr í gæsluvarðhaldi og einangrun á Litla-Hrauni. Ómar Óskarsson

Hollendingur á þrítugsaldri, sem sagður er búa við greindarskerðingu og andlega fötlun, sat í gæsluvarðhaldi á Íslandi í hálfan mánuð án þess að fjölskyldu hans væri gert viðvart, þrátt fyrir beiðni hans sjálfs og lögmanns hans.

Maðurinn hefur verið í varðhaldi og einangrun síðan 28. september, grunaður um aðild að fíkniefnasmygli ásamt öðrum Hollendingi og tveimur Íslendingum.

Vísir.is segir frá málinu í dag.

Fjölskylda mannsins heyrði síðast frá honum daginn sem hann var handtekinn, 28. september, þegar hann kom til Reykjavíkur. Fjölskylda hans varð uggandi þegar hann skilaði sér ekki aftur heim þann 4. október eins og áætlað var og tilkynnti hann týndan til lögreglu þar í landi.

Fjölskyldan hafði nokkru seinna spurnir af því að tveir Hollendingar hefðu verið handteknir í tengslum við smygl hér á landi og höfðu í kjölfarið samband við íslenska lögreglu og utanríkisþjónustu en fékk engin svör fyrr en um miðjan októbermánuð þegar lögregla staðfesti í símtali að hann væri í gæsluvarðhaldi hér.

Strax óskað eftir að fjölskyldan verði látin vita

Ómar Örn Bjarnþórsson, lögmaður mannsins, sagði við mbl.is að því hefði verið beint til lögreglu strax eftir handtökuna að móðir mannsins yrði látin vita af því hvar hann væri niðurkominn. Hann segist hafa talið að það hefði verið gert, en eini fyrirvari sem lögregla gerði við að móðirin yrði látin vita væri að maðurinn hefði ekki sjálfur samband við hana.

Maðurinn hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 10. nóvember en Ómar varðist frekari frétta af málinu eins og stendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert