Heyr himnasmiður slær í gegn á YouTube

Hljómsveitin Árstíðr eins og hún er skipuð í dag. Karl …
Hljómsveitin Árstíðr eins og hún er skipuð í dag. Karl Pestka, fiðluleikari, Daníel Auðunsson, gítarleikari og söngvari, Gunnar Már Jakobsson, gítarleikari og Ragnar Ólafsson söngvari. Matthew Eisman

„Við þorðum ekki að ímynda okkur þessi viðbrögð í okkar villtustu draumum,“ segir Daníel Auðunsson, gítarleikari og söngvari í hljómsveitinni Árstíðum, en upptaka af söng sveitarinnar á laginu Heyr himnasmiður hefur algjörlega slegið í gegn á Youtube.

Í gærkvöldi var áhorfendafjöldinn nákvæmlega 4 milljónir, 618 þúsund og 492 en söngurinn var tekinn upp fyrir tveimur árum í lestarstöð í borginni Wuppertal í Þýskalandi. Til samanburðar hafa 1,6 milljónir horft á myndbandið með lagi Bjarkar Guðmundsdóttur, Human Behavior, frá árinu 2010.

Nótur Þorkels rjúka út

Upptakan með Árstíðum fékk fljótt mikið áhorf og í kjölfarið tóku að streyma fyrirspurnir til sveitarinnar frá kórum og tónlistarmönnum úr flestum heimsálfum. Nótur með laginu, sem er eftir Þorkel Sigurbjörnsson við sálm Kolbeins Tumasonar, hafa verið fáanlegar hjá Tónverkamiðstöðinni og þar á bæ kemur enn fjöldi beiðna og fyrirspurna um lag Þorkels heitins frá kórum og sönghópum af ýmsu tagi. Eftir að myndbandið fór á netið fjölgaði beiðnum erlendis frá um nóturnar um 250% á síðasta ári!

Daníel segir upptökuna klárlega hafa hjálpað sveitinni að koma sér á framfæri. Ný plata kom út í mars sl. og hefur fengið góðar viðtökur. Var henni fylgt eftir með tónleikaferðalagi, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum í sumar. Þar var sveitin oft beðin um að syngja lag Þorkels Sigurbjörnssonar, m.a. með þremur kórum í Bandaríkjunum sem höfðu æft lagið sérstaklega.

Í ljósi sterkra viðbragða á Youtube er freistandi að spyrja hvort hljómsveitin hafi ekkert hugsað um að snúa sér alfarið að söngnum. „Söngurinn kemur alltaf með,“ segir Daníel og hlær við spurningunni. „Þetta byrjaði með að við fórum að syngja kórlög á tónleikaferðalögum til að drepa tímann á leiðinni. Síðan fórum við að syngja acapella-lög á jólatónleikum okkar í Fríkirkjunni í Reykjavík. Það vakti mikla lukku.“

Tilefni upptökunnar á lestarstöðinni í Wuppertal var að hljómsveitin spilaði á tónleikastað í stöðinni sjálfri og var bent á að koma út á gang, þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja. Þar fundu þeir fyrir mikilli endurómun, eða reverb á fagmálinu, og ákváðu að taka lagið. „Þetta var algjörlega óundirbúið, við byrjuðum að syngja en vorum svo heppnir að PR-fulltrúi okkar stökk til og tók sönginn upp. Hún skellti myndbandinu á netið um kvöldið og snjóboltinn byrjaði að rúlla.“

„Við höfum svolítið vanrækt íslenska markaðinn en ætlum að bæta úr því,“ segir Daníel Auðunsson en Árstíðir koma fram á nokkrum tónleikum á Iceland Airwaves-tónlistarhátíðinni sem er að bresta á í Reykjavík. Fyrstu tónleikarnir verða í Norðurljósasal Hörpu á miðvikudagskvöld, síðan í Laundromat Café og Bar 11 á fimmtudag (off venue), í Silfurbergi í Hörpu á föstudagskvöld, á laugardag í Bryggjunni brugghúsi og loks í Norræna húsinu sunnudaginn 8. nóvember.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert