Ekki forsætisráðuneytið heldur Ingibjörg

Stjórnarráðið
Stjórnarráðið mbl.is/Hjörtur

„Ingibjörg hefur látið af störfum,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra og hlær við þegar blaðamaður spyr eftir nýja móttökustjóranum. 

Umrædd Ingibjörg er Sigurvinsdóttir og íbúi í Breiðholti sem vissi ekki hvaðan á sig stæði veðrið þegar henni tóku að berast símtöl ætluð forsætisráðuneytinu í morgun. 

„Það uppgötvaðist strax að eitthvað væri ekki í lagi,“ segir Ingibjörg kímin en hún kveður símtölin ekki hafa verið til trafala. „Þetta var bara skemmtileg tilbreyting.“

Í ljós kom að næturvaktmaður ráðuneytisins, sem hafði ætlað að flytja símtöl til ráðuneytisins yfir í farsíma sinn á meðan hann gekk um húsið, hafði óvart slegið inn vitlaust númer, sumsé númer Ingibjargar. Í ofanálag gleymdist svo að flytja símtölin aftur yfir í aðalsíma ráðuneytisins í morgun með ofangreindum afleiðingum.

„Þegar eitthvað klikkar klikkar allt,“ segir Jóhannes og virðist nokkuð skemmt yfir þessum spaugilegu mistökum. „Ingibjörgu eru þökkuð góð störf í þágu ríkisins sem hún virðist hafa unnið með glöðu geði, sem er gaman að heyra.“

Jóhannes segir ráðuneytið ekki líta atvikið alvarlegum augum enda sé hér um klassísk mistök að ræða sem verði passað vel upp á í framtíðinni. 

Ingibjörg kveðst hinsvegar borin og búin til að taka að sér frekari símvörslu fyrir ráðuneytið í framtíðinni.

„Þau geta bara haft samband við mig. Það er sjálfsagt ef ég get orðið að liði,“ segir Ingibjörg hlæjandi yfir þessum óvenjulega þriðjudegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert