Mikil sala á lóðum í Úlfarsárdal

Úlfarsárdalur byggist upp.
Úlfarsárdalur byggist upp. mynd/Reykjavíkurborg

Sala byggingarréttar í Úlfarsárdal tók mikinn kipp í nýliðnum mánuði en alls úthlutaði borgarráð Reykjavíkur 19 lóðum með byggingarrétti fyrir 48 íbúðir.  Langflestar lóðirnar sem voru seldar eru fyrir rað- og parhús.

Fram kemur á vef borgarinnar, að eftir þessa úthlutunarhrinu séu einungis eftir ein parhúsalóð og 51 einbýlishúsalóð í Úlfarsárdal, sem og 28 einbýlishúsalóðir í Reynisvatnsási.

Þá segir, að nokkuð sé síðan síðustu fjölbýlishúsalóðirnar í Úlfarsárdal seldust og eru framkvæmdir á þeim komnar vel á veg. Þá séu tvær fjölbýlishúslóðir við Urðarbrunn fráteknar samkvæmt ákvörðun borgarráðs fyrir leiguíbúðir. Ákvörðun um úthlutun þeirra hefur ekki verið tekin.

„Í Úlfarsárdal er mikil uppbygging á vegum Reykjavíkurborgar, en fyrsta skóflustunga að nýjum skóla var tekin í haust og verður fyrsti áfangi hans tekinn í notkun að ári.  Nýi skólinn er hluti af stærsta nýbyggingarverkefni borgarinnar á næstu árum, en auk leik- og grunnskóla, verður frístundaheimili, almenningsbókasafn, menningarmiðstöð, sundlaug og íþróttahús byggð neðst í dalnum.

Borgarráð samþykkti á fundi sínum 15. október að deiliskipulag Úlfarsárdals verði endurskoðað í samræmi við forsendur aðalskipulags Reykjavíkur 2010 – 2030 um fjölgun íbúða og uppbyggingu og stækkun Úlfarsárdalshverfis í samræmi við skipulagslýsingu fyrir breytingu á deiliskipulagi svæðisins,“ segir á vef borgarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert