Lögreglan í Eyjum fær ekki að leita barnakláms

Búið var að fjarlægja myndir og myndbönd af Facebook-síðu mannsins …
Búið var að fjarlægja myndir og myndbönd af Facebook-síðu mannsins er lögreglan ætlaði að taka afrit af þeim. AFP

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Suðurlands um að synja lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum um heimild til húsleitar á heimili manns sem lögreglan telur telur miklar líkur á að hafi barnaklámsefni undir höndum. Héraðsdómur, og nú Hæstiréttur, hafnar því að sýnt hafi verið fram á að rökstuddur grunur væri um að maðurinn hefði framið brot sem sætt gæti ákæru.

Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum krafðist þess með bréfi dagsettu 29. október, að heimilað yrði að húsleit færi fram á heimili manns. Einnig var þess krafist að heimildin næði til læstra hirslna og geymsla á heimili mannsins. 

Í greinargerð lögreglustjóra, sem fjallað er um í úrskurði héraðsdóms, kemur fram að tilefni málsins sé frétt þess efnis að maður hafi ljósmyndað táningsstúlkur án þeirrar vitundar, en lögreglu hafi borist upplýsingar um að þar hafi verið að verki maðurinn sem um ræðir og krafist var húsleitar hjá. Þá hafi, eftir að fulltrúi lögreglustjóra skoðaði Facebook-síðu mannsins, vaknað rökstuddur grunur um að maðurinn hefði undir höndum ólöglegt efni.

Á Facebook-síðu mannsins hafi verið að finna mjög mikið magn af ljósmyndum og myndböndum sem sýndu fáklæddar ungar konur í kynferðislegum stellingum. Þá hafi einnig mátt sjá myndir af ungum konum/stúlkum á gangi og hafi litið svo út sem að þær hafi verið teknar án þeirra vitundar. Hafi tvær þeirra verið nafngreindar. Með vísan til eðli myndanna hafi grunur lögreglu vaknað um að maðurinn gæti haft undir höndum ólöglegt efni, svo sem barnaklám. Þá segir í greinargerðinni að þegar lögregla hafi ætlað að taka afrit af myndunum hafi verið búið að fjarlægja allar upplýsingar á Facebook-síðu mannsins, þar á meðal fyrrnefndar myndir og myndbönd.

Lögregla telur miklar líkur á því að kærði hafi undir höndum ólöglegt efni sem sýni konur og börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Rannsókn málsins sé á frumstigi en lögreglu sé nauðsynlegt að fá heimild til húsleitar svo leggja megi hald á tölvubúnað kærða og annan búnað svo rannsókn geti hafist á því hvort að um ólöglegt efni sé að ræða. 

Í niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands segir að samkvæmt lögum séu skilyrði fyrir húsleit í húsum sakbornings, geymslustöðum, hirslum o.s.frv. að rökstuddur grunur leiki á að framið hafi verið brot sem sætt getur ákæru og sakborningur hafi verið þar að verki, enda séu augljósir rannsóknarhagsmunir í húfi.

Engin gögn hafi hins vegar verið lögð fram af hálfu lögreglu sem benda til þess að kærði hafi undir höndum ólöglegt efni, svo sem barnaklám. Að því virtu og málatilbúnaði lögreglu að öðru leyti, er það mat dómsins að lögreglustjóri hafi ekki sýnt fram á að rökstuddur grunur leiki á að kærði hafi framið brot sem sætt getur ákæru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert