Gleymdi barninu á vídeóleigu

Svanhildur Hólm Valsdóttir lögfræðingur.
Svanhildur Hólm Valsdóttir lögfræðingur. Eva Björk Ægisdóttir

„Mér finnast óviðeigandi hlutir mjög fyndnir. Ég segi kannski eitthvað sem fólk kannski í mesta lagi hugsar eða hugsar bara alls ekki. Ég reyni þó að stilla þetta aðeins af. Þetta er fín lína að dansa á þannig að ég reyni yfirleitt að láta hluti flakka í hóp þar sem fólk hefur gaman af því en verður ekki bara miður sín,“ segir lögfræðingurinn Svanhildur Hólm Valsdóttir.

Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kemur út um helgina er spjallað við fjölmarga Íslendinga sem deila því með lesendum hvað kemur þeim til að hlæja. Þeirra á meðal er Svanhildur Hólm sem jafnframt segir frá nokkrum atvikum úr sínu dagsdaglega lífi.

„Ætli nýlegasta dæmið um slíkt sé ekki þegar við stoppuðum í vikunni á N1 á leið til Reykjavíkur. Hrafnhildur dóttir mín fór að suða um dót, við litlar undirtektir. Afgreiðslukonan ætlaði að hugga hana og sagði henni að það styttist nú í jólin, þá fengi hún fullt af pökkum. Ég, móðirin, greip þá inn í og sagði; „Nei, við erum vottar svo hún fær ekki neitt.“ Við tók dálítið vandræðaleg þögn og ég leiðrétti þetta auðvitað með hinu klassíska „Nei, djók!“ og svo hlógum við eins og vitleysingar.“

Svanhildur segist gleymin og því geti hún hlegið oft að sömu bröndurunum. „Stundum get ég séð hlutina frá skrýtnum sjónarhornum. Oft sé ég til dæmis fegurðina í leiðinlegum texta eða fundi sem er svo leiðinlegur að hann fær börn til að gráta og blóm til að visna en svo óbærileg leiðindi geta um leið verið hrikalega fyndin.“

Ýmsir „asnalegir“ hlutir í tilverunni kæta líka Svanhildi. „Ég er fáránlega mikið jólabarn en í fyrra var ég komin með algjöra myglu fyrir jólalögum og við Hrafnhildur leystum það vandamál með því að syngja öll jólalög með því að setja inn orðið „prump“ í staðinn fyrir jól.“ Jólalög eins og „Skyldi það vera prumpuhjól, Prumpusnjór, prumpusnjór, og „Bráðum kemur blessað prumpið“ hefur því hljómað þar á aðventunni. 

„Ég er mjög utan við mig og gleymin og get þess vegna hlegið oft að sömu bröndurunum. Ég get gleymt hlutum á nanósekúndum en svo koma þeir aftur, þannig að mér finnst ekki ólíklegt að ég fengi jákvætt út úr ADHD-greiningu. Og svo get ég verið algjör klaufi – ég hef gengið á glerhurðir nokkrum sinnum – til dæmis á glerhurð í Kringlunni fyrir framan helling af fólki.

Um daginn vorum við að fara að keyra norður. Hrafnhildur, sú yngri, hafði gist hjá ömmu sinni svo Brynhildur var bara með okkur í bílnum en við vorum á leiðinni að sækja Hrafnhildi. Ég lít aftur í bílinn á Miklubraut og fæ sjokk; „Hvar er Hrafnhildur?!“ og fannst ég hafa gleymt henni heima. Logi hélt að ég væri að grínast.“

En slíkt hefur þó í alvörunni gerst. „Ég gleymdi einu sinni syni mínum á vídeóleigu. Var í símanum og fór bara út í bíl án hans, keyrði af stað án og var komin svolítið í burtu þegar ég lít aftur í bílinn og sé að þar er bara tölvuspilið hans pípandi! Ég hringdi á vídeóleiguna og spurði hvort lítill sex ára drengur væri nokkuð þar. Jú, jú, þeir sögðu að hann væri þar sallarólegur og biði bara á tröppunum. Ef ég gæti ekki hlegið að því hvað ég get verið mikill bjáni væri ég eitt titrandi kvíðabúnt, heima í fósturstellingunni. Ég þarf á því að halda að geta hlegið.“

Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.
Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert