Kaupa kaffibolla með broskörlum

Stærðfræðin færir nemendum og öðrum í Háskóla Íslands koffín.
Stærðfræðin færir nemendum og öðrum í Háskóla Íslands koffín. Eggert Jóhannesson

Í nóvember geta þau sem eiga nógu mikið af rafmyntinni Smileycoins (SMLY) keypt kaffi-, te- og kakóbolla verslun Hámu í Tæknigarði í Háskóla Íslands. Um er að ræða tilraunaverkefni kennara skólans sem vona að það hvetji mennta- og háskólanemar til að nýta sér vefumhverfið Tutor-Web til að bæta við sig fróðleik og standa betur að vígi í náminu og safna þannig rafmyntinni. Einn bolli kostar tíu þúsund SMLY. 

Rafmynt er ekki eins og hefðbundinn gjaldmiðill, líkt og krónan og evran, því í hagkerfi þeirra er enginn seðlabanki og enginn miðstýrður aðili sem getur aukið magn peninga í umferð. Til að byggja upp verðmæti gjaldmiðilsins þarf að vera eftirspurn og einhver eign eða fjármunir að baki miðlinum.

Þetta var leyst með því að gera notendum kleift að leysa dulkóðunarverkefni og fá að launun ákveðið magn myntar. Þetta kallast að stunda námugörf (e. mining) en einnig er hægt að tala um að einhver stundi myntvinnslu.

Samkvæmt CoinMarketCap kostar einn bolli af kaffi, te eða kakó aðeins fimm krónur ef SMLY er notað til að kaupa bollann. Þetta er miðað við gengið í gærkvöldið, laugardaginn 7. nóvember 2015. 

Tíu í einkunn, tíu þúsund broskarlar

„Þetta snýst allt um þessa vefstuddu kennslu, eða Tutor-Web. Þetta er, aðgengilegt öllum, opið efni sem við höfum þróað. Við höfum einnig fengið efni frá öðrum sem kenna stærðfræði og þýtt það yfir á ensku.

Nemandi sem vill fá æfingar í sínu efni getur farið þarna inn og þá geta kennarar einnig notað þetta við kennslu eða í stað heimaverkefna,“ segir Gunnar Stefánsson, prófessor í tölfræði í Háskóla Íslands, aðspurður um tilraunaverkefnið sem felst aðallega í því að hvetja nemendur til að nota kerfið.

„Ef þú ákveður að þú viljir hressa upp á algebruna þá getur þú farið þangað inn og valið algebru á menntaskólastigi. Þegar þú ert kominn upp fyrir fimm í einkunn færð þú nokkra broskarla. Ef þú færð háa einkunn færð þú miklu fleiri. Það er algengast að stillingin sé þannig að ef þú ert kominn með allt að tíu í einkunn færð þú tíu þúsund broskarla. Þetta er alveg eins og broskall í teiknibók hjá barni,“ segir Gunnar.

Einn og einn hefur keypt bolla

Ákveðið var að setja broskarlana í form rafmyntar. „Þeir virka þá nákvæmlega eins og til dæmis Bitcoin og Auroracoin. Þú getur þá hlaðið niður veski, gefið upp númer veskisins og látið senda broskarlana í veskið,“ útskýrir Gunnar. Einnig er hægt að kaupa Smileycoins fyrir Bitcoin eða Auroracoin (AUR).

„Enn erum við ekki komin með ástæðu fyrir að neinn myndi vilja kaupa Smileycoins. Þannig fór með AUR, þessu var hent á Ísland, enginn hafði neitt til að kaupa fyrir það þannig að fólk reyndi að selja. Það er ótrúlegt með aurinn að það skuli enn vera markaður, hvernig sem á því stendur, enn hefur ekki myndast þörf fyrir hann,“ segir Gunnar.

Hann og aðrir sem standa að verkefninu fór á fund Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, sem tók vel í hugmyndina, styður verkefnið fjárhagslega og mun það standa yfir í nóvember.

Verkefnið hefur farið hægt af stað enn sem komið er. Einn og einn nemendi hefur prófað en verkefnið hefur vissulega ekki verið auglýst að ráði. 

„Við höfðum áhyggjur af því í upphafi að ef við færum of hratt af stað þá myndi tæknin ekki virka eða eitthvað slíkt svo við sögðum við nemendur að þeir þyrftu að vera rólegir. En við vitum það alveg að það eru nemendur sem hafa áhuga,“ segir Gunnar.

Þarft ekki internet og rafmagnið má vera stopult

Aðeins er hægt að kaupa kaffi-, te- og kakóbolla fyrir broskarla í útibúi Hámu í Tæknigarði í Háskóla Íslands. Búið er að koma lítilli spjaldtölvu fyrir við posann í versluninnni. Þar er QR-kóði og þau sem eiga rafmyntina geta komið með farsíma eða spjaldtölvu, beint myndavélinni að kóðanum og þannig keypt bolla.

Gunnar segir markmiðið fyrst og fremst vera að auka notkun á námsumhverfinu Tutor-Web. Verkefnið er þó í raun þríþætt. Í fyrsta lagi er lögð áhersla á að hvetja nemendur Háskóla Íslands til að læra. Í öðru lagi vilja kennararnir skapa vettvang fyrir menntaskólanema á leið í háskóla til að bæta við sig fróðleik.

„Við höfum verulegar áhyggjur af því miklu brottfalli í Háskóla Íslands og er stærðfræðiundirstaðan er ein af stóru ástæðunum fyrir því. Við viljum gjarnan sjá framhaldsskólana reyna að nýta sér þetta kerfi og höfum við notað þetta kerfi sem hluta af inntöku nemenda,“ segir Gunnar en nemendurnir eru hvattir til að æfa sig í námsumhverfinu yfir sumarið áður en námið hefst um haustið.

Í þriðja lagi er um að ræða samstarfsverkefni við Kenía og þess vegna hefur efnið verið þýtt á ensku. „Við höfum áhuga á því að skoða hvort við getum ekki komið einhverju góðu til leiðar í löndum þar sem er engin aðstaða. Það eru stór svæði í sveitahéruðum Kenía þar sem enginn hefur komist í háskóla,“ segir Gunnar.

„Þau taka samræmd próf og falla öll, alltaf. Þarna teljum við okkur vera með tæki sem við getum boðið þeim,“ bætir Gunnar við. Um er að ræða spjaldtölvu sem kostar tæplega tuttugu þúsund krónur og hægt er að nota Tutor-Web á því. „Þú þarft ekki internetsamband, þú mátt hafa stopult rafmagn, jafnvel ekkert rafmagn og þú getur samt lært.“

Gunnar Stefánsson, prófessor í tölfræði.
Gunnar Stefánsson, prófessor í tölfræði. Úr einkasafni.
Eigir þú nóg af broskörlum getur þú keypt kaffi, te …
Eigir þú nóg af broskörlum getur þú keypt kaffi, te eða kakó í Háskóla Íslands. Háskóli Íslands , aðalbygging , húsið að utan mynd 1b , skyggna úr safni , fyrst birt 19971022 Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert